Fréttir

Umskipti á biðlistum - Kólumbía tekur viða af Kína með flestar umsóknir

Í árslok voru 44 fjölskyldur með umsóknir um að ættleiða barna á biðlistum Íslenskrar ættleiðingar erlendis. Jafnframt var 31 fjölskylda í umsóknarferli hér innanlands þannig að þessi hópur samanstendur af alls 75 fjölskyldum.

Undanfarin tíu ár hafa 168 börn verið ættleidd frá Kína og flestir hafa að jafnaði verið á biðlista þar. Staðan á biðlistum í Kína var sérlega áberandi í kjölfar þess að það hægði mjög á ættleiðingum þaðan arið 2006 en þá voru um 80 fjölskyldur að bíða eftir barni frá þessu eina landi.

Nú hafa þau umskipti orðið að fjöldi umsókna á hefðbundna biðlista til Kína hefur dregist mikið saman og umsóknir til Kólumbíu eru orðnar fleiri en umsóknir til Kína.

Skýringin á þessu er meðal annars sú að við eigum gott samstarf við Kólumbíu og umsækjendur telja margir að það sé nokkurð öruggur valkostur að sækja um í Kólumbíu þó biðin þar geti orðin nokkuð mörg ár. Hin skýringin er sú að fáir sem vilja ættleiða frá Kína fara á hinn hefðbundna biðlista þar vegna þess að afgreiðsla umsókna á listum yfir börn með skilgreindar þarfir hefur gengið mjög hratt. Til marks um hversu vel afgreiðsla á þeim umsóknum hefur gengið má nefna að nokkur dæmi eru um að fjölskyldur hafi ættleitt börn þaðan eftir fárra vikna bið og ættleitt annað barn innan tveggja ára.


Svæði