Fréttir

Stjórnarfundur 08.03.2011

Stjórnarfundur 8. mars 2011

Fundur stjórnar Íslenskrar ættleiðingar þriðjudaginn 8. mars 2011 kl. 17.00

22. fundur stjórnar

Mættir:
Ágúst Hlynur Guðmundsson
Elín Henriksen
Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir
Hörður Svavarsson
Karen Rúnarsdóttir
Karl Steinar Valsson


Framkvæmdastjóri félagsins, Kristinn Ingvarsson, sat einnig fundinn.

Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðustu fundargerð og samþykktu hana.

Mál á dagskrá:
1. Fræðsla og undirbúningur væntanlegra kjörforeldra
2. Laun fyrir störf í þágu félagsins
3. Aðalfundur
4. Félagsstarf á Suðurlandi
5. Önnur mál

1. Fræðsla og undirbúningur væntanlegra kjörforeldra
Guðrún sem er tengiliður stjórnar við Pasnefnd óskaði eftir umræðu undir þessum lið. Tilefnið var að tilkynna stjórn að formaður Pasnefndar hefur komið á framfæri við hana óánægju með áhugaleysi stjórnar ÍÆ á starfi Pasnefndar.
Mikil umræða varð um málefnið en umkvörtunin kemur stjórnarmönnum nokkuð á óvart. Stjórn félagsins hefur ítrekað lýst yfir ánægju með störf Pasnefndar bæði í miðlum félagsins, í póstum til nefndarinnar og í fundargerðum stjórnar. Það hefur verið tilfinning stjórnarmanna að gott samstarf hafi tekist milli stjórnar og Pasnefndar um framkvæmd einstakra verkefna eins og t.d. útsendingu bréfs til heilbrigðisstarfsmanna, framkvæmd ráðstefnu o.fl. Stjórn ÍÆ hefur fundað oftar með pasnefndarmönnum en öðrum aðilum og er það til marks um áhugann. Stjórnin hefur sýnt útgáfu á bæklingi um máltöku ættleiddra barna sérstakan áhuga og frá því í júní hefur ítrekað verið óskað eftir eintaki af handritinu til aflestrar. Á fundi með pasnefndarmönnum í janúar var Pasnefnd boðið að gerður verði sérstakur kynningarbæklingur um passtarf og þjónustu og fræðslu á vegum Pasnefndar sem senda mætti öllum sem nýlega hafa ættleitt barn. Til marks um hve stjórn ÍÆ hefur talið passtarf mikilvægt og traustið sem stjórn ber til Pasnefndar er bent á að beiðni Pasnefndar um fjárframlag til starfsins var í fyrra samþykkt án nokkurrar skerðingar, sem er nýbreytni. Stjórn ÍÆ telur mikilvægt að Pasnefnd og stjórn félagsins hittist og ræði skipulag og framtíðarsýn passtarfs á vegum félagsins.

2. Laun fyrir störf í þágu félagsins.
Um langan tíma hefur það verið þannig að sumir hafa fengið greitt fyrir störf í þágu félagsins og aðrir ekki. Starfsmenn á skrifstofu eru að sjálfsögðu á launum, árum saman hefur ýmis þjónusta verið keypt til félagsins og sumt ef þeirri þjónustu hafa félagsmenn selt félaginu á sanngjörnu verði. Má þar nefna umbrot á blaði félagsins þegar það var gefið út á pappír og námskeiðahald og nú hafa einstakir Pasnefndarmenn á döfinni að stofna til rekstrar um fræðslu til heilbrigðisstarfsmanna og fleiri aðila. En einstakir félagsmenn hafa líka lagt á sig verulega sjálfboðavinnu, sérstaklega ýmsar nefndir á vegum félagsins og einstakir stjórnarmenn hafa einnig verið undir miklu vinnuálagi utan hefðbundinna stjórnarfunda. Mikilvægir þættir í ættleiðingarstarfseminni hafa verið reknir og haldið uppi eingöngu af sjálfboðaliðum en þar er m.a. um að ræða vöktun á svokölluðum SN listum frá Kína. Nú horfir svo við að ÍÆ getur ekki lengur tekið ábyrgð á að hægt verði að inna þessa þjónustu af hendi með sjálfboðaliðum, en þess má geta að tvær manneskjur hafa vaktað listana tvær nætur í mánuði allt undanfarið ár. Stjórn ÍÆ felur framkvæmdastjóra að semja við þá sem vaktað hafa listana um greiðslur sem sambærilegar eru töxtum þeirra fagmanna sem annast hafa gerð eftirfylgniskýrslna að undanförnu. Greiðslur hefjast strax við næstu vöktun. Einnig er vert að skoða hvort greiða beri stjórnarmönnum fyrir einstök verkefni eða fundarsetu eins og tíðkast hjá öðrum félagasamtökum en mikilvægt er að ígrunda það mál vandlega.

3. Aðalfundur
Farið yfir verkefni sem leysa þarf fyrir aðalfund félagsins. Tillögur um fundarstjóra o.fl.

4. Félagsstarf á suðurlandi
Lagður fram tölvupóstur frá Laufeyju Jónsdóttur á Selfossi þar sem hún veltir fyrir sér möguleikum á félagsstarfi á vegum ÍÆ fyrir austan fjall og stuðningi félagsins við það.
Stjórn ÍÆ fagnar framtakinu en erindið er nokkuð óljóst í einstökum mikilvægum þáttum og er framkvæmdastjóra falið að afla frekari upplýsinga hjá Laufeyju.


Svæði