Fréttir

Stjórnarfundur 10.04.2006

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 10. apríl 2006, kl. 20:00
2. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2006

Fundarstaður: Húsnæði ÍÆ, Ármúla 36, Reykjavík

Mættir: Ingibjörg J., Arnþrúður, Ingibjörg B., Karl Steinar, Kristjana og Pálmi. Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.

1. Heimsókn sendinefndar frá CCAA.
Sendinefndin kemur seinni part dags miðvikudaginn 19. apríl og dvelur fram á laugardagsmorgun. Ákveðið var að leiga 12 manna bíl og hafa hann allan tímann, Karl Steinar sér um að leigja bílinn og verður bílstjóri. Steingrímur Þorbjarnarson verður túlkur á vegum félagsins allan tímann. Guðrún hefur fengið góðan samning á hótelherbergjum fyrir sendinefndina á Hótel Loftleiðum. Sendinefndin hefur óskað eftir að hitta fulltrúa í dómsmálaráðuneytinu, stjórn ÍÆ, fjölskyldur sem ættleitt hafa börn frá Kína, fá að skoða heimili einnar fjölskyldu með barn frá Kína og í að fara í skoðunarferð. Ákveðið var að Guðrún myndi hafa samband við kínverska sendiráði til að athuga hvort áhugi væri fyrir að að bjóða sendinefndinni í mat á miðvikudags- eða fimmtudagskvöldið. Dagskráin verður eftirfarandi:

  • Miðvikudagur. Ingibjörg J., Karl Steinar og Guðrún munu sækja sendinefndina út á Keflavíkurflugvöll. Þá verður farið í heimsókn til Kristínar og Ágústar en þau eiga Matthildi sem ættleidd er frá Kína. Eftir það verður farið á hótelið.
  • Fimmtudagur. Á fimmtudagsmorgninum milli kl..10:00 og 12:00 verður boð fyrir fjölskyldur í félaginu sem ættleitt hafa frá Kína og sendinefndina. Búið er að fá Framsalinni í Safamýrinni á leigu fyrir þetta boð. Ákveðið var að senda út tölvupóst til félagsmanna sem eru í þessum hópi til að bjóða í fjölskylduboðið og óska um leið eftir að fólk komi með veitingar með sér og einni óskað eftir að fólk taki þátt í undirbúningi og frágangi í salnum. Ákveðið var að bjóða starfsmönnum í kínverska sendiráðinu að koma í fjölskylduboðið. Eftir hádegi verður síðan farið í skoðunarferð, um Reykjavík, Nesjavelli og á Þingvöll. Aðeins Karl Steinar og Steingrímur túlkur fara með sendinefndinni í skoðunarferðina.
  • Föstudagur. Fundur verður í dómsmálaráðuneytinu fyrir hádegi á föstudeginum og þar verður meðal annars rætt um Haag sáttmálann en CCAA er byrjað að vinna ætleiðingar eftir honum. Á fundinum verða Ingibjörg J., Karl Steinar og Guðrún frá félaginu ásamt Steingrími túlk. Eftir hádegi verður stuttur frjáls tími fyrir sendinefndina. Kl. 15:00 munu sendinefndin og stjórn ÍÆ hittast á skrifstofu ÍÆ í stutta stund og síðan verður haldið á Hótel Glym í Hvalfirði þar sem fundur verður með stjórn ÍÆ og sendinefndinni og snæddur kvöldverður.
  • Laugardagur. Brottför frá Keflavík kl. 7:45.

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við þessa heimsókn verði um 550.000 kr. og er þá allt innifalið, hótelgisting, salarleiga, túlkur, gjafir og veitingar.

2. Skýrsla um EurAdopt fundinn á Barcelona 31. mars 2006. 
Ingibjörg B. greindi frá helstu atriðum sem komu fram á þessum fundi sem hún og Ingibjörg J. sóttu. Kosið var í nýtt Executive Board, Elisabet Sandberg frá AC Svíþjóð formaður, verður í 2 ár, eftir það er hún komin á eftirlaun, hinir eru Angelo Moretto frá CIAI, Ítalíu og Inge Elsaesser frá Protestant Adoption Centerið aðila sem koma að ættleiðingarmálum. Ástand ættleiðingarmála í löndunum var rætt, margir eru óánægðir með sín stjórnvöld, verst er þó líklega ástandið í Frakklandi. Annað alvarlegt mál virðist vera komið upp innan ESB/EU – (heilbrigðis/fjölskyldunefnd) innan ESB - þeir sem stýra samningaviðræðum við lönd sem eru að sækjast eftir aðild að ESB og það beinist sérstaklega að austur blokkinni, hafa tekið þá stefnu að segja þeim að góð stefna í barnaverndarmálum sé “stop exporting your children”. Á meðan yfirfyllast barnaheimilin í þessum löndum Aðildarlönd EurAdopt hafa því fengið það hlutverk núna að tala við sína ESB fulltrúa, við fengum ábendingu frá Elisabet Sandberg – Regína Jensdóttir lögfræðingur í Strasbourg. Varðandi Kína þá var rætt um að biðtími sé að lengjast, hafi verið 7 mánuðir en sé orðinn 11 mánuðir núna. Frá 1995 hefur orðið 50% aukning í umsóknum til Kína, ættleiðingum innan Kína er að fjölga en börnum til ættleiðingar er að fækka þar. Jennifer Degeling frá Haag talaði um saminginn um alþjóðlegar ættleiðingar og fór yfir nokkrar greinar hans og breytingar sem á honum á að gera til að gera hann skilmerkilegri. Hún benti á að einungis 2 þjóðir í heiminum hefðu ekki samþykkt Barnasáttmála SÞ og ætti þar af leiðandi alltaf að vinna að barnaverndarmálum í hans anda, það væri þó ekki alltaf gert. Þá var frásögn Christinu, 27 ára kona frá Noregi, móðir 2 drengja og var ættleidd frá Guatemala á fyrsta ári, mjög áhugaverð. Hún byrjaði 17 ára gömul í sínu sjálfskoðunarferðalagi. Hún flutti til Mexikó og síðan Guatemala um tíma, hitti kynmóður sína og kynntis fjölskyldu sinni þar. Hún leggur mikla áherslu á að það verði að vera ákvörðun barnsins en aldrei kjörforeldranna að heimsækja fæðingarlandið.

3. Aukinn kostnaður
Kostnaður hjá félaginu hefur aukist nokkuð og þörf er á auka fjárveitingu frá dómsmálaráðuneytinu. Kostnaður við námskeið fyrir þá sem ættleiða í fyrsta sinn er 50.000 kr. á hjón, þátttakendur borga 30.000 kr. en mismunurinn 20.000 fellur á félagið. Þá hafa umsvif félagsins aukist þó nokkuð þar sem ættleiðingum hefur fjölgað mjög allra síðustu ár. Þörf á er á að bæta við starfsmanni í ½ starf og finna stærra húsnæði fyrir félagið. Ingibjörg J. ætlar að setja upp bréf til ráðuneytisins vegna þessa.

4. Formannafundur í haust
Formannafundur verður í september en þar sem Ingibjörg J. formaður félagsins verður stödd á Krít og kemst þar að leiðandi ekki á fundinn verður varaformaður félagsins að fara.

5. Fundarplan stjórnar
Ingibjörg J. lagði fram fundarplan stjórnar fram að næsta aðalfundi og var það samþykkt. Um er að ræða 11 fundi sem haldnir eru síðasta fimmtudag í hverjum mánuði (frí í júlí) og standa frá 20:00 til 22:00. Aðalfundur verður 15. mars 2007. Settir verða inn aukafundir ef þörf er á.

6. Fundur með félagsmálaráðuneyti
Fundur verður með félagsmálaráðherra miðvikudaginn 12. apríl kl. 9:30 vegna ættleiðingastyrkja. Stjórnin telur æskilegt að miða við að styrkurinn (eftir skatt) dekki ættleiðingarkostnaðinn, þ.e. þann kostnað sem foreldra greiða til barnaheimilisins og lagalegan kostnað. Ingibjörg J., Karl Steinar og Ingibjörg B. munu mæta á fundinn fyrir hönd stjórnar.

7. Námskeið.
Stúlkurnar sem héldu erindi á síðasta aðalfundi ÍÆ, Brynja Muditha Dan Gunnarsdóttir og Sólveig Kanthi Engilbertsdóttir ætla að mæta á seinni hluta námskeiðis fyrir þá sem ættleiða í fyrsta sinn og ræða við þátttakendur á svipðuðum nótumn og þær gerðu á aðalfundinum.

Næsti fundur stjórnar var ákveðinn 27. apríl. Fleira ekki rætt og fundi slitið.

Arnþrúður Karlsdóttir 
Fundarritari


Svæði