Fréttir

Stjórnarfundur ÍÆ 04.04.2005

Haldinn í húsnæði Íslenskrar ættleiðingar, Ármúla 36.

Allir stjórnarmenn voru mættir. Þeir eru: Gerður Guðmundsdóttir, Ingvar Kristjánsson, Guðmundur Guðmundsson, Lísa Yoder, Ingibjörg Jónsdóttir, Arnþrúður Karlsdóttir og Helga Gísladóttir. Guðrún Sveinsdóttir starfsmaður sat fundinn.

Þetta er fyrsti fundur stjórnar eftir aðalfund. Arnþrúður er ný í stjórn og var hún boðin velkomin.

1. Stjórn skipti með sér verkum. Lísa gaf ekki kost á sér í áframhaldandi formennsku og Ásta sem var ritari er ekki lengur í stjórn. Stjórn skipti þannig með sér verkum:

Formaður: Ingibjörg
Varaformaður: Gerður
Ritari: Helga
Gjaldkeri: Ingvar
Meðstjórnendur: Lísa, Guðmundur og Arnþrúður

Arnþrúður er tengiliður við skemmtinefnd
Guðmundur er tengiliður við fjáröflunarnefnd og ritnefnd.

Að embættisskipan lokinni voru tekin fyrir mál sem lágu fyrir fundinum.

2. Euradopt fundur verður haldinn 16. og 17. apríl í Haag. Ingibjörg Jónsdóttir er okkar fulltrúi og mun hún fara á fundinn.
3. Senda bréf til alþingismanna varðandi styrkveitingu til ættleiðinga. Það kom fram á aðalfundi að það væri komin fram frumvarp á alþingi varðandi styrkveitingar. Það mun vera þingsályktunartillaga en ekki frumvarp. Við verðum því að halda málinu vakandi áfram.
4. Á síðasta fundi var ákveðið að fara fram á aukafjárveitingu vegna fræðslumála. Við þurfum líka að taka afstöðu til þeirra sem ekki ættleiða í gegnum félagið en óska eftir því að fá aðgang að fræðslunni okkar. Ræddum það en engin ákvörðun tekin um það mál.
5. Lene Kam frá Danmörku er væntanleg til landsins 29. apríl. Hún hefur verið að hjálpa okkur að endurskipuleggja fræðsluna okkar. Mikilvægt að búið sé að þýða bæklinginn sem við höfum fengið leyfi til að nota frá dönskum kollegum okkar.
6. Jónína Hafsteinsdóttir er að lesa yfir leikskólabæklinginn. Hann verður fljótlega tilbúinn til prentunar.
7. Fyrsta umsókn til Tékklands er langt komin. Engar aðrar umsóknir eru í farvatninu.
8. Rætt um form á innheimtu félagsgjalda. Ákveðið að senda gíróseðla fyrir þetta ár. Með þeim á að senda bréf þar sem félagar eru spurðir að því hvort að þeir vilji borga með greiðsluseðlum (og geta þá borgað í gegnum heimilisbanka). Fólk verður beðið um að senda svar annaðhvort skriflega eða í gegn um tölvupóst, þar sem upplýst samþykki þarf að liggja fyrir svo það sé hægt.

Fleira ekki rætt og fundi slitið.
Helga Gísladóttir, fundaritari.


Svæði