Fréttir

Hamingjustund

Emilía Audrey og Olga á góðri stund
Emilía Audrey og Olga á góðri stund

Þann 06.06.2017 hittust mæðgurnar Olga Eleonora og Emilía Audrey í fyrsta skiptið á Skt. Claire barnaheimilinu í Lome, Togo.
Emilía Audrey hljóp strax í fangið á mömmu sinni og vildi ekki sleppa, hún kúrði fast í hálsakotinu þangað til henni voru boðnar rúsínur þá fyrst fékk mamma hennar að sjá almennilega framan í hana. Amma Audrey og frænka fengu svo að knúsa hana líka. Það leið ekki langur tími þangað til hún dró mömmu sína út að hliði og sagði "komum" (á frönsku), þessi litla stelpa var alveg tilbúin. Aðlögunin gekk framar öllum vonum og aðeins um viku seinna fékk hún að fara alfarið heim á hótel með mömmu og ömmu. Eftir það fór hún bara í heimsóknir á barnaheimilið.
Næstu dagar og vikur fóru í að kynnast og njóta þess að vera saman. Þær mæðgur fóru í sund, göngutúra, í bíltúra, á leikvelli og í heimsóknir á marga góða staði. Þremur vikum eftir að þær hittust var Emilía Audrey útskrifuð af barnaheimilinu og var slegið til veislu til að fagna því. Öll börnin á deildinn hennar voru mætt og allt starfsfólkið líka. Það var dansað og sungið, borðaðar kökur og drukkið gos.
Emilíu Audrey var lýst í skýrslunni sem rólegri og hlédrægi stúlku en annað átti eftir að koma í ljós. Hún er gríðarlega orkumikil og sjálfstæð lítil stelpa sem veit alveg hvað hún vill. Hún er mikið fyrir ærslagang og hlær dillandi hlátri, alveg frá maganum. Hún elskar að klifra, synda og leika sér úti. 
Um mánuði eftir að þær mæðgur hittust var komið að heimferð þar sem stórfjölskyldan beið eftir að hitta þennan litla fjörkálf. Heimferðin gekk framar öllum vonum. Emilía Audrey lét eins og hún væri alvanur ferðalangur, settist strax í sætið sitt í flugvélinni og spennti beltin. Hún lét sér fátt um finnast á flugvellinum í París og fór í rúllustiga og steig inní lestar eins og ekkert væri sjálfstæðara. Þegar rokið og rigningin skall á henni í fyrsta skiptið á Íslandi leist henni ekkert á þetta land, en tók það svo fljótt í sátt.

Umsókn Olgu var móttekin af yfirvöldum í Togo í 27.05.2013 og var hún pöruð við Emilíu Audrey í 13.01.2017. Hún var á biðlista í Togo í rétt þrjú og hálft ár.

Þetta er þriðja fjölskyldan sem sameinaðist með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar á þessu ári og börnin orðin fjögur. Nú hafa 7 börn verið ættleidd frá Togo með milligöngu félagsins.


Svæði