Fréttir

Íslensk ættleiðing á Akureyri

Íslensk ættleiðing hefur lagt sig fram við að þjónusta félagsmenn sína sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Hefur félagið gert tilraunir með að streyma fyrirlestrum með góðum árangri og mun vonandi verða framhald á því. Til að bæta um betur mun mánaðarlegur fyrirlestur félagsins að þessu sinni verða haldinn á Akureyri. Að þessu sinni verður boðið uppá tvö fræðsluerindi, fund með formanni og framkvæmdastjóra félagsins, auk viðtala hjá sálfræðigi félagsins.

Fræðslan hefst kl. 10:00 með erindi þar sem Dr. Jórunn Elídóttir, dósent í kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri kynnir niðurstöður rannsókna sinna er varða ættleidd börn. Klukkan 11:00 mun Valgerður Baldursdóttir sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum fjallar um mikilvægi tilfinningatengsla milli barna og umönnunaraðila og þátt þeirra í þroska og mótun persónuleika einstaklingsins, en fyrirlesturinn var áður haldinn síðastliðinn febrúar og var mjög vel tekið.

Að fyrirlestrunum loknum mun félagið bjóða uppá léttar veitingar áður en að boðið verður uppá fund þar sem Hörður Svavarsson, formaður ÍÆ og Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri verða til skrafs og ráðagerða um stöðuna í málaflokknum og framtíðarsýn.
Lárus H. Blöndal, sálfræðingur ÍÆ verður til viðtals frá kl. 10:00.

Fyrirlestrarnir og ráðgjöfin verða í Verkmenntaskóla Akureyrar, Hringteig 2. Gengið er inn vestan megin (átt að Hlíðarfjalli).

Skráning er á isadopt@isadopt.is. Fræðslan er ókeypis fyrir félagsmenn en kostar 1000 kr. fyrir utanfélagsmenn.

Sálfræðivitölin eru ókeypis fyrir félagsmenn.

Ættleidd börn og fjölskyldur þeirra - Jórunn Elídóttir


Svæði