Búlgaría

Búlgaría gerðist árið 2002 aðili að Haagsamningunum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu á milli landa frá 1993. Dómsmálaráðuneyti Búlgaríu er æðsta yfirvald sem hefur með ættleiðingar úr landi að gera, en miðstjórnvaldið framselur alla umsýslu ættleiðinga og samskipti við bæði kjörforeldra og móttökuríki til löggiltra ættleiðingarfélaga í Búlgaríu.

Hjón jafnt sem einhleypir mega ættleiða, en samkvæmt starfsmönnum löggilta ættleiðingarfélagsins Happy Child, sem er tengiliður ÍÆ í Búlgaríu, fá einhleypir karlar sjaldnast yngri börn eða stelpur. Samkynhneigð hjón mega ekki ættleiða frá Búlgaríu.

Um 7,4 milljónir manna búa í Búlgaríu, landi sem er örlítið stærra en Ísland, eða 110,994 ferkílómetrar (sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Bulgaria). Að sögn starfsmanna Happy Child eru um 7000 börn á ríkis- eða sveitarfélagsreknum barnaheimilum eða í fóstri, en aðeins lítill hluti þeirra eru ættleiðanleg.
Samkvæmt upplýsingum frá Happy Child eru bæði heilbrigð börn á aldrinum 1-6 ára ættleidd úr landi og einnig eldri börn (eldri börn eru skilgreind 7 ára og eldri).
Örlítið fleiri drengir en stúlkur eru ættleidd úr landi.
Börn með skilgreindar þarfir eru einnig ættleidd úr landi. Þau börn eru oft með miklar skilgreindar þarfir, svo sem heilalömun, Downsheilkenni o.s.frv.
Tvíburar skulu ættleiddir saman, og einnig er reynt að halda systkinum saman ef tilfinningatengsl eru á milli þeirra – annars ekki.

Félagsmálayfirvöld halda rafrænt upplýsingakerfi og skrá um öll börn sem laus eru til ættleiðingar í Búlgaríu. Þó er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hversu mörg börn eru á stofnunum í Búlgaríu, því þau eru vistuð á mismunandi stofnunum eftir aldri. Ríkisrekin barnaheimili fyrir 0-3 ára börn (sem vista allt upp í 7 ára börn ef þau eru með einhverskonar fötlun eða sjúkdóm) sem þurfa á læknisfræðilegri eða félagslegri aðstoð að halda, voru í lok desember 2013 29 talsins og þar bjuggu 1183 börn.  Ríkisrekin heimili fyrir foreldralaus börn (deprived of parental care) voru 53 talsins, annars vegar fyrir 3-7 ára börn og hins vegar fyrir 7-18 ára börn, og á þeim bjuggu samtals 1388 börn. Til viðbótar eru ríkisrekin heimili fyrir andlega og/eða líkamlega fötluð börn 24, og þar búa 542 börn. Samtals eru þetta 3113 börn sem búlgarska ríkið hefur á skrá yfir börn á barnaheimilum. En til viðbótar voru í júlí 2013 1705 börn hjá 1663 fósturfjölskyldum (tölur frá Association for Foster Care), og hefur þeim farið fjölgandi síðan, upp í allt að 2000 börn. Flest þeirra eru yngri börn, upp í 4-5 ára gömul.
Loks eru heimili fyrir eldri börn, sem eru rekin af sveitarfélögunum. Ríflega 150 slík heimili eru í Búlgaríu og á hverju fyrir sig búa allt að 20 börn, samtals líklega um 1500 börn, að sögn starfsmanna Happy Child sem taka það jafnframt fram að þau hafa engar opinberar tölur handbærar yfir þessi heimili.
Jafnframt fyrirfinnast nokkur einkarekin heimili, svo sem SOS barnaþorp.

Til þess að ættleiða megi barn úr landi, þurfa verðandi kjörforeldrar að gefa samþykki sitt, foreldrar eða forráðamenn barnsins, og barnið sjálft ef það hefur náð 14 ára aldri. Líffræðileg móðir má ekki gefa samþykki sitt fyrir ættleiðingu fyrr en 30 dögum eftir fæðingu barnsins. Heimila má ættleiðingu barns án samþykkis líffræðilegra foreldra ef þeir eru látnir, ef þeir eru ekki þekktir, ef foreldrið verður uppvíst að stórfelldri vanrækslu á barninu, eða ef barnið er á stofnun og foreldrið hefur ekki óskað eftir að fá barnið aftur til sín eða annarra ættingja innan sex mánaða frá því að barnið var tekið í umsjá barnaverndaryfirvalda.

Ættleiðingarnefndir starfa í Búlgaríu, og í þeim sitja meðal annars yfirmaður svæðisbundinna félagsmálayfirvalda, lögfræðingur, læknir, sálfræðingur og yfirmaður viðkomandi barnaheimilis þar sem barnið er vistað. Nefndirnar hittist einu sinni í viku. Innan við mánuði eftir að barn er sett á lista yfir börn sem laus eru til ættleiðinga, skal nefndin reyna að finna handa því foreldra innanlands. Þegar öll úrræði hafa verið reynd til að finna foreldra innanlands (svo sem þegar a.m.k. þrennir mögulegir foreldrar hafa verið fundnir innanlands en enginn hefur samþykkt að ættleiða barnið, eða þegar engir mögulegir búlgarskir foreldrar finnast, þrátt fyrir að allt hafi verið reynt), má kanna hvort hægt sé að ættleiða barnið úr landi.
Þá er málið tekið fyrir af millilandaættleiðinganefnd, en í henni sitja meðal annars aðstoðardómsmálaráðherra, starfsmenn dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, barnaverndar og fleiri. Þessi nefnd hittist a.m.k. þrisvar í mánuði. Innan við 60 dögum frá því að barnið er sett á skrá yfir börn sem ættleiða má úr landi, ber nefndinni að finna mögulega foreldra. Ættleiðingin skal samþykkt fyrir dómi, ef talið er tryggt að hún sé barninu fyrir bestu.

Dómsmálaráðuneyti Búlgaríu sér um ættleiðingar til útlanda. NGO Happy Child Association er löggilt sjálfstætt starfandi ættleiðingarfélag sem hefur starfað síðan árið 2003, og hefur leyfi frá Dómsmálaráðuneyti Búlgaríu til að annast um ættleiðingar barna frá Búlgaríu til Íslands, Noregs, Finnlands, Bandaríkjanna, Írlands, Bretlands, Þýskalands og Sviss, auk ættleiðinga innanlands. Starfsmenn Happy Child eru tengiliður milli stjórnvalda í Búlgaríu og ÍÆ, sem og milli stjórnvalda í Búlgaríu og barnaheimilanna eða fósturforeldranna annars vegar, og íslensku kjörforeldranna hins vegar. Þeir sjá um allar lagalegar hliðar hvers máls fyrir sig, og starfa jafnframt sem túlkar og þýðendur.
Fjórir fastráðnir einstaklingar, þar af tveir lögfræðingar, starfa hjá Happy Child, en til viðbótar eru þar í hlutastarfi barnalæknar, barnasálfræðingar, pedagókar, túlkar, skjalaþýðendur og fleiri, og yfirlýst stefna þeirra er að hlúa ætíð að því sem er barninu fyrir bestu innan ramma búlgaskra og alþjóðalaga.

Biðin eftir yngri heilbrigðum börnum allt að 4 ára gömlum, er í maí 2020 sögð vera 6-7 ár. Biðin eftir börnum með skilgreindar sérþarfir, systkinum og börnum 7 ára og eldri er styttri getur verið 2-6 ár, en biðtíminn fer alveg eftir því hvaða aldri eða skilgreindum þörfum óskað er eftir og hvaða börn eru laus til ættleiðingar.

Tölfræði ættleiðinga frá Búlgaríu

Löggildingarskjal innanríkisráðuneytisins

Family code No. 47/23.06 2009

 

Svæði