Fréttir

Aðalfundur 09.03.2017

Fundargerð aðalfundar Íslenskrar ættleiðingar, fimmtudaginn 9. mars 2017, kl. 20.00.

Fundarstaður: Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík.  

Fundargerð aðalfundar ritaði: Ragnheiður Davíðsdóttir

Dagskrá aðalfundar:

  1. Skýrsla stjórnar.
  2. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagður fram til samþykktar.
  3. Kjör stjórnar.
  4. Ákvörðun árgjalds.
  5. Breytingar á samþykktum félagsins.
  6. Önnur mál

Elísabet Hrund Salvarsdóttir formaður í stjórn ÍÆ setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hún tilefndi Gísla Ásgeirsson fundarstjóra og var það samþykkt af fundarmönnum með lófataki.

Gísli Ásgeirsson fundarstjóri tók þegar til starfa og tilnefndi Ragnheiði Davíðsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt af fundarmönnum með lófataki.

Fundarstjóri Gísli Ásgeirsson kynnti dagskrá fundarins og kallaði eftir mótmælum um boðun fundarins. Engin andmæli og telst fundurinn því löglega boðaður. 

1. Skýrsla stjórnar.
Elísabet Hrund Salvarsdóttir fór yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2016.

2. Ársreikningar félagsins.
Ársreikningur 2016 lagður fram og Elísabet stjórnarformaður fer yfir reikninga. Fundastjóri hvetur fundarmenn að spyrja útí ársreikning. Engin spurning borin upp. Fundarstjóri ber ársreikning til samþykktar. Ársreikningur samþykktur samhljóða. 

Fundastjóri ber upp spurningu varðandi fjölda ættleiddra barna, en fjöldinn var í sögulegu lágmarki árið 2016, hvort það sé í samræmi við önnur lönd. Kristinn framkvæmdarstjóri svarar spurningu fundastjóra. Umsóknir eru ekki margar og umsækjendum að fækka. Tékkland breytir reglum árið 2016 og telur hann að það útskýri að mestu hve fáar ættleiðingar voru árið 2016.

Fundastjóri kemur með tillögu á breytingu á dagskrá, að flytja lið 5 fram fyrir lið 3 og taka fyrir breytingar á samþykktum áður en farið er í kjör stjórnar. Fundastjóri spyr hvort fundargestir geri athugasemdir við það, enginn gerir athugasemd og farið er næst í lið nr 5.  

3. Kjör stjórnar.
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar á að vera samkvæmt samþykktum skipuð 7 manns. Að þessu sinni er kosið um fjögur sæti stjórnarmanna. Sitjandi stjórnarformaður Elísabet Hrund Salvarsdóttir gefur áfram kost á sér til stjórnarsetu. Lára Guðmundsdóttir, Lísa Björg Lárusdóttir og Magali Mouy bjóða sig fram í fyrsta sinn. Þær teljast sjálfkjörnar  að þessu sinni og koma inn í stjórn og eru stjórnameðlimir næstu tveggja ára.

4. Ákvörðun um árgjald.
Rætt var um að árgjald félagsins héldist óbreytt, kr. 2.750.- Allir sammála og telst því samþykkt.

5. Lagabreytingar.
Fundastjóri fer yfir lagabreytingar og les stjórnartillögur upp.  
Fjórar tillögur að lagabreytingum á samþykktum félagsins bárust fyrir tilskilin frest sem var hinn 31. janúar sl.

Breytingartillaga 1
2.grein
Tilgangur félagsins
 er:
að vinna að alþjóðlegum ættleiðingum með því markmiði að hagsmunir barnsins séu ávallt hafðir í fyrirrúmi í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamningsins um alþjóðlegar ættleiðingar.

verður:
að vinna að alþjóðlegum ættleiðingum með því markmiði að hagsmunir barnsins séu ávallt hafðir í fyrirrúmi í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar.

 Tillagan borin upp. Tillagan er samþykkt samhljóða.

Breytingartillaga 2

2.grein
Tilgangur félagsins
er:
að stuðla að velferð barna í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamninginn um alþjóðlegar ættleiðingar.

verður:
að stuðla að velferð barna í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamninginn um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar.

Tillagan borin upp og er samþykkt samhljóða.

Breytingartillaga 3
6. grein
Stjórn
er: 
Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum: Formanni, varaformanni og fimm meðstjórnendum. Kosning stjórnarmanna og varamanna ræðst af atkvæðamagni. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert eða aukaaðalfundi. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá annað árið og fjóra á því næsta. Hætti stjórnarmaður á kjörtímabili tekur varamaður sæti hans að öðrum kosti er félagsfundi heimilt að kjósa annan í hans stað.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

Í stjórninni skulu eiga sæti læknir og lögfræðingur, en verði því ekki við komið skal stjórn félagsins, í samráði við innanríkisráðuneytið, ráða trúnaðarlækni og/eða lögfræðing til ráðgjafar. Stjórnarmenn skulu hafa þekkingu á þeim málum er varða ættleiðingar á erlendum börnum. Stjórnin ræður löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag.

Formaður boðar og stýrir stjórnarfundi.

Stjórnarfundur telst lögmætur ef hann sækir meirihluti stjórnar.

Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli félagsfunda.

Stjórnarmenn félagsins, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins, eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er þeir fá vitneskju um varðandi einkahagi manna við störf sín fyrir félagið. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.

Stjórnarmeðlimir, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins mega ekki taka þátt í afgreiðslu ættleiðingarmáls ef þeir eða menn þeim nákomnir eru aðilar málsins.

verður:
Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum: Formanni, varaformanni og fimm meðstjórnendum. Kosning stjórnarmanna ræðst af atkvæðamagni. (Tekið út „og varamanna“) Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. Kosning stjórnar fer fram á aðalfundi ár hvert eða aukaaðalfundi. Hluta stjórnarmanna skal kjósa árlega til tveggja ára í senn, þrjá annað árið og fjóra á því næsta.  (Tekið út: Hætti stjórnarmaður á kjörtímabili tekur varamaður sæti hans að öðrum kosti er félagsfundi heimilt að kjósa annan í hans stað. ) Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.

Í stjórninni skulu eiga sæti læknir og lögfræðingur, en verði því ekki við komið skal stjórn félagsins, í samráði við innanríkisráðuneytið, ráða trúnaðarlækni og/eða lögfræðing til ráðgjafar. Stjórnarmenn skulu hafa þekkingu á þeim málum er varða ættleiðingar á erlendum börnum. Stjórnin ræður löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag.

Formaður boðar og stýrir stjórnarfundi.

Stjórnarfundur telst lögmætur ef hann sækir meirihluti stjórnar.

Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli félagsfunda.

Stjórnarmenn félagsins, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins, eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er þeir fá vitneskju um varðandi einkahagi manna við störf sín fyrir félagið. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.

Stjórnarmeðlimir, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins mega ekki taka þátt í afgreiðslu ættleiðingarmáls ef þeir eða menn þeim nákomnir eru aðilar málsins.

Tillagan borin upp og er samþykkt samhljóða.

Breytingartillaga 4
9. grein
Þjónusta
er: 
Einungis skuldlausir félagar geta notið þjónustu af hálfu félagsins. Umsækjendur skuldbinda sig til að hlýta reglum félagsins varðandi meðferð ættleiðingarumsókna. 

verður:
Félagsmenn njóta forgangs að þjónustu félagsins. Umsækjendur skuldbinda sig til að hlýta reglum félagsins varðandi meðferð ættleiðingarumsókna.

Tillagan borin upp og er samþykkt samhljóða. 

6. Önnur mál.
Engin önnur mál tekin fyrir. Fundastjóri þakkar fyrir sig

Stjórnarformaður þakkar fyrir góðan fund og er fundi slitið kl. 20:45

 


Svæði