Fréttir

Aðalfundur 2020

Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar var haldinn 25. maí síðastliðinn eftir að hafa í tvígang verið frestað vegna COVID-19.
Á fundinum fór formaður félagsins yfir árskýrslu stjórnar og reikninga félagsins á síðastliðinu ári. Ársskýrsluna ásamt ársreikningi er hægt að skoða hér á heimasíðu félagsins.

Sjálfkjörið var í stjórn félagsins, en stjórnin er skipuð sjö stjórnarmönnum. Að þessu sinni voru þrjú sæti laus í stjórninni, því að annað hvert ár er kosið um þrjú sæti en hitt árið fjögur sæti.
Ingibjörg Valgeirsdóttir og Sigrún Eva Grétarsdóttir gáfu ekki kost á sér á ný eftir tveggja ára setu í stjórninni og þakkar félagið þeim fyrir óeigingjarnt starf í þágu ættleiðingarmálaflokksins.
Sigurður H. Jesson, Berglind Glóð Garðarsdóttir og Dylan Herrera gáfu kost á sér til stjórnarsetu fyrir næstu tvö ár. Sigurður hefur setið í stjórn félagsins frá árinu 2016, en Berglind og Dylan að koma ný inn.

Berglind Glóð er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og héraðsdómslögmannsréttindi. Hún starfar sem sviðsstjóri yfir skaðabótasviði hjá OPUS lögmönnum, en hún hefur starfað þar síðastliðin 5 ár. Berglind þekkir vel til starfa félagsins, því að hún og eiginmaður hennar hafa nýverið farið í gegnum umsóknaferlið hjá félaginu og eru nú með samþykkta umsókn á biðlista um ættleiðingu barns frá Tékklandi.
Dylan Herrera er með BA gráðu í fjármálum og alþjóðasamskiptum frá Externado háskólanum og meistaragráðu í alþjóðasamskiptum og alþjóðlegu öryggi frá Sciences Po, París. Hann hefur starfað hjá UNESCO, IOM, Folke Bernadotte Academy og stjórnvöldum í Kólumbíu, meðal annarra stofnana. Hann hefur verið lektor í alþjóðasamskiptum, alþjóðaöryggi, nútímasögu og samanburði átaka í Rómönsku Ameríku.

Lagt var til að hækka árgjald félagsins úr 2.900 krónum í 3.500 krónur og var það samþykkt samhljóða.

Ein breytingartillaga á samþykktum félagsins barst fundinum. Tillagan var send með aðalfundarboðinu svo að félagsmenn gætu kynnt sér hana. Tillagan var borin upp á fundinum en var felld með meirihluta atkvæða.

Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar skipti hún með sér verkum samkvæmt samþykktum félagsins.
Elísabet Hrund Salvarsdóttir fékk áfram umboð til að leiða formennsku og var Lísa Björg Lárusdóttir valin sem varaformaður.
Lísa var einnig valin sem fulltrúi félagsins í stjórn NAC og mun Ari Þór Guðmannsson vera varamaður hennar.
Ari Þór var valinn til að vera fulltrúi félagsins í stjórn EurAdopt, en Elísabet Hrund verður varamaður hans.
Elísabet Hrund er einnig formaður stjórnar NAC, en hún tók við því hlutverki af Irene Pärssinen-Hentula í apríl.
Stjórn félagsins 2020-2021 er því þannig skipuð:
Elísabet Hrund Salvarsdóttir, formaður
Lísa Björg Lárusdóttir, varaformaður
Ari Þór Guðmannsson
Berglind Glóð Garðarsdóttir
Dylan Herrera
Magali Mouy
Sigurður H. Jesson

Spennandi áskoranir á áhugaverðum tímum bíða nýrrar stjórnar og er henni óskað velfarnaðar.


Svæði