Fréttir

Visir.is - Ættleiðing fjarlægur möguleiki fyrir samkynhneigða

Unnsteinn Jóhannson
Unnsteinn Jóhannson

INNLENT

KL 07:00, 31. MARS 2014
 

„Ættleiðingar hinsegin fólks erlendis frá hafa og eru enn nokkuð fjarlægur möguleiki. Lögin um ættleiðingar voru sett 2006 en síðan hefur lítið gerst í málunum. Það er eins og eftirfylgnina hafi skort,“ segir Unnsteinn Jóhannsson sem fer fyrir ættleiðingahópi Samtakanna "78.

Unnsteinn segir að samtökin séu í góðri samvinnu við Íslenska ættleiðingu en það skorti fé til að sinna þessu máli af þeim krafti sem til þarf. Menn vinni að ættleiðingarmálum hinsegin fólks í sjálfboðavinnu. 

Lönd sem leyfa ættleiðingar samkynhneigðra eru til að mynda Úrúgvæ, Brasilía, Argentína og Suður-Afríka. Þessi misserin er verið að reyna að koma á ættleiðingarsambandi á milli Íslands og Suður-Afríku. 

„Það hefur jákvæð áhrif fyrir alla ef það er hægt að ná ættleiðingasamningum við ný lönd, það opnar bæði fyrir ættleiðingar hinsegin fólks og annarra þeirra sem eru að bíða eftir börnum,“ segir Unnsteinn.

Hann segir það stór mál fyrir hinsegin fólk eins og aðra að geta eignast börn.
„Fræðilega eru þrjár leiðir færar fyrir hinsegin fólk að eignast börn, að ættleiða, staðgöngumæðrun og svo kjósa sumir að eignast börn með vinkonum sínum eða vinum,“ segir Unnsteinn.

Visir.is - Ættleiðing fjarlægur möguleiki fyrir samkynhneigða


Svæði