Fréttir

Ættleiðingar frá hamfarasvæðum

Kínversk stjórnvöld hafa sagt frá því að mjög margir hafi sýnt áhuga á ættleiðingu barna sem hafa orðið munaðarlaus í jarðskjálftanum mikla og aðallega er um að ræða kínverskar fjölskyldur sem vilja taka börnin að sér.

Fyrst er leitað að og auglýst eftir fjölskyldum barnanna og búast má við að það  muni taka langan tíma. Ef börnin reynast munaðarlaus þarf að leita að öðrum ættingjum eða vinum fjölskyldunnar sem gætu tekið við forsjá barnanna. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að börn verði ekki ættleidd fyrr en nokkur tími hefur liðið, ef ekki finnast skyldmenni sem geta tekið við þeim.  Þegar um stríðsátök er að ræða er miðað við að eftir að friður kemst á líði um 2 ár þar til óhætt sé að finna nýjar fjölskyldur fyrir börn sem orðið hafa viðskila við fjölskyldur sínar. Hvort svo langur tími líður núna er ekki ljóst en ÍÆ mun fylgjast með þróun mála.

Fagfólk hefur einnig bent á að þau börn sem lent hafa í skelfilegri lífsreynslu eins og jarðskjálftanum séu of viðkvæm til að hægt sé að leggja á þau að flytjast til nýs lands, taka upp nýtt tungumál og allar aðrar breytingar sem fylgja ættleiðingu til annars lands.
Umsóknir frá erlendum fjölskyldum sem bíða afgreiðslu í Kína eru mjög margar og biðtíminn langur.   Því má búast við að ekki verði erfitt að finna fjölskyldur fyrir munaðarlaus börn í Kína ef stjórnvöld ákveða að einhver þeirra barna sem lent hafa í jarðskjálftanum verði ættleidd erlendis.

Íslensk ættleiðing mun senda fjárstyrk til kínversku ættleiðingarmiðstöðvarinnar og verða þeir notaðir til að byggja upp þau barnaheimili sem skemmdust í skjálftunum. Sem stendur koma peningagjafir að mestum notum fyrir þá sem lentu í þessum hræðilegu hamförum.

Á Íslandi búa nú um 110 börn sem ættleidd hafa verið frá Kína.
 
Eins og komið hefur fram í fréttum að undaförnu urðu einnig mjög alvarlegar skemmdir og mikið mannfall í Burma við fellibyl sem þar gekk yfir í byrjun maí.

Ættleiðingar hafa ekki verið frá Burma, hvorki til Íslands né annarra vestrænna ríkja.  Þar sem ekki virðist vera hefð fyrir ættleiðingum í landinu eru ekki líkur á að þær hefjist á næstunni enda eru ekki til lög eða reglur um ættleiðingar sem hægt er að vinna eftir.  
Rauði kross Íslands stendur nú fyrir söfnun fyrir fólk sem lenti í hamförunum í Burma, sjá http://www.redcross.is/


Svæði