Fréttir

Aukin eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar á alþjóðavettvangi

Þessi frétt var á www.mbl.is í dag 23.01.07:

Svo mikil eftirspurn er nú eftir börnum til ættleiðingar á alþjóðavettvangi að rótgrónar ættleiðingastofur í Danmörku geta ekki gengur lofað fólki að útvega þeim börn til ættleiðingar jafnvel þótt það uppfylli ströngustu skilyrði sem sett eru fyrir slíku. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Öllum þeim sem hyggja á ættleiðingu þar í landi er því ráðlagt að brynja sig með mikilli þolinmæði og að sætta sig við þann möguleika að óvíst sé að af ættleiðingu geti orðið.

Aukna eftirspurn eftir börnum til ættleiðingar má m.a. rekja til aukins áhuga Frakka, Spánverja og Ástrala á ættleiðingum barna erlendis frá. Þá hafa hertar kröfur Kínverja til umsækjenda um börn til ættleiðingar þaðan aukið á eftirspurn annars staðar frá.

Undanfarin ár hefur biðtíminn eftir barni til ættleiðingar verið um eitt og hálft ár í Danmörku eftir að umsókn hefur verið samþykkt af yfirvöldum þar í landi og það sama mun eiga við um Ísland. Í dag bíða hins vegar flestir í a.m.k . tvö ár eftir að fá upplýsingar um það barn sem þeim stendur til boða að ættleiða.

„Hér áður fyrr skiluðum við 100% árangri. Þ.e.a.s. að allir þeir sem sóttu um að fá barn fengu það. Í dag eru aðstæður hins vegar aðrar og við getum ekki lofað því að allir þeir sem standast þær kröfur sem gerðar eru til væntanlegra foreldra ættleiddra barna fái barn og það þykir okkur að sjálfsögðu mjög leitt,” segir Ole Bergmann, yfirmaður DanAdopt, annarrar af tveimur ættleiðingarstofum Danmerkur sem hefur milligöngu um ættleiðingar barna erlendis frá.

Anders Christensen, formaður hinnar stofunnar AC Børnehjælp tekur í sama streng. „Það leikur enginn vafi á því að biðlistinn er að lengjast og við höfum fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af því hver þróunin verður,” segir hann.


Svæði