Fréttir

Austurfrétt - Dóttir ykkar fæddist í gær

Ljósmynd: Eygló Árnadóttir
Ljósmynd: Eygló Árnadóttir

Höfundur: Kristborg Bóel Steindórsdóttir
      
„Ég upplifði mig aldrei öðruvísi hér í þessu dásamlega verndandi umhverfi. Ég held að ég hafi verið sex ára í Kaupfélaginu á Egilsstöðum þegar annað barn lagði hönd sína við mína en þá fór ég aðeins að hugsa hvort ég væri eitthvað öðruvísi, en þar til hafði enginn borið sig saman við mig nema þá í hæð,“ segir Berglind Ósk Guðgeirsdóttir, sem var í opnuviðtali Austurgluggans í síðustu viku. 

„Dóttir ykkar fæddist í gær,“ var setning sem þau Svanhvít Sigmundsdóttir og Guðgeir Einarsson, foreldrar Berglindar Óskar, höfðu lengi beðið eftir að heyra en þau voru búin að bíða í mörg ár eftir því að fá að ættleiða barn sem loks varð að veruleika í desember 1982. Berglind Ósk er fædd í Jakarta í Indónesíu 7. desember 1982 og var komin til Íslands með móður sinni aðeins 20 dögum síðar.
„Á þessum tíma, fyrir 34 árum, var heimurinn svo miklu stærri en hann er núna og töluvert mál fyrir hjón í litlu sjávarþorpi að fara hinum megin á hnöttinn til þess að sækja barnið sitt. Ferðalagið var svakalega dýrt þannig að þau gátu ekki farið bæði. Úr varð að litla sveitastelpan mamma mín, sem lítið sem ekkert hafði ferðast, fór ein. Það eitt og sér er algerlega aðdáunarvert en svona eru þau, röggsöm og ganga í hlutina og var þetta ferðalag aldrei vafi í þeirra huga,“ segir Berglind.

Loðið en löglegt
Berglind segir að ferðin hafi verið öðruvísi en Svanhvít hafði gert sér í hugarlund. „Við vorum þrjár ættleiddar til Íslands frá sama svæði á þessum tíma og fór mamma því í samfloti með því fólki. Þegar þau komu til Indónesíu hittu þau mann sem kallaði sig Johnny og átti að fylgja þeim meðan þau voru úti. Í fyrsta lagi eru ekki miklar líkur á að einhver frá Indónesíu heiti Johnny, en hann vildi aldrei sjást með þeim úti á götu og þegar þau voru að koma og hitta okkur í fyrsta skipti var þeim keyrt í bíl með skyggðum rúðum inn í bílskúr, en það var ekki vel séð að börn væru ættleitt úr landinu. Þetta var allt töluvert skrýtið og loðið en þó lagalega rétt.
Mamma hefur sagt mér frá því hve stressuð hún var á heimleiðinni en þegar þau voru komin í flugvélina mætti her til þess að leita að einhverju í vélinni og mamma hélt allan tímann að þeir væru að fara að taka mig og sagði að sér hefði ekki komið það á óvart ef það hefði gerst. Hún var því hálfpartinn að reyna að fela mig en ég var mjög veik úr salmonellu og grét mikið. Ef ég hefði ekki verið ættleidd hefði ég bara dáið, það er öllum þarna sama um eitt stúlkubarn til eða frá. Ég á foreldrum mínum því allt að þakka.“

Austurfrétt - Dóttir ykkar fæddist í gær


Svæði