Fréttir

Félagsráðgjafi bætist í ráðgjafateymið

Rut Sigurðardóttir
Rut Sigurðardóttir

Á dögunum var bætt við starfsmanni í ráðgjafateymi Íslenskrar ættleiðingar með ráðningu Rutar Sigurðardóttur, félagsráðgjafa.  

Hlutverk hennar verður að sinna gerð eftirfylgniskýrslna á höfuðborgarsvæðinu, sem verktakar hafa áður verið að sinna. 

Hún mun einnig hafa á sinni könnu að þróa barna- og unglingastarf hjá félaginu og munu félagsmenn verða varir við þær breytingar á haustmánuðum. Þá mun hún sinna þróun á þjónustu félagsins við upprunaleit, en beiðnum um slíka þjónustu hefur stóraukist á síðustu misserum.  

Rut Sigurðardóttir er fædd 24. Janúar 1980 og uppalin í Breiðholti. Eftir að hafa klárað félagsfræðibraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti tók við leit af því hvað framtíðinni ætti að bera með sér, hvað varðar starfsvettvang. Eftir að hafa reynslu af því að vinna á leikskóla og með unglingum á tímum menntaskólaáranna, lá leiðin til Danmerkur þar sem að hún settist á skólabekk í Odense til að læra uppeldis-/leikskólakennarafræði (pædagog). Það kom þó í ljós eftir eina önn í því námi að það væri eitthvað annað sem heillaði en það. Leiðin lá því aftur til Íslands og hóf hún nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, haustið 2002. Þaðan lauk hún BA- gráðu með starfsréttindum vorið 2006. Samhliða námi starfaði hún á leikskóla, vann með unglingum í sumarstarfi og á Vistheimili barna.  

Í beinu framhaldi af útskrift hóf hún störf hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða. Þar sinnti hún margvíslegum verkefnum félagsþjónustu. Kom meðal annars að málefum hælisleitanda og móttöku flóttamanna, sinnti endurhæfingarúrræðum og barnafjölskyldum. Hún var þar við störf fram til desember 2007 en flutti sig þá yfir til Barnavernd Reykjavíkur, þar sem hún starfaði þangað til í lok apríl 2017, fyrir utan tímabilið 2014-2015. Þá starfaði hún tímabundið sem sérfræðingur í málefnum utangarðsfólks á vegum Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða.  

Árið 2012 hóf Rut störf sem verktaki hjá Íslenskri ættleiðingu, þar sem hún sinnti gerð eftirfylgnisskýrslna.  

Árin 2014-2015 var hún við nám í Háskóla Íslands, samhliða vinnu. Um var að ræða diplómu í félagsráðgjöf með áherslu á barnavernd.  

Rut er gift Amir Mulamuhic, en hann er frá Bosniu- Herzegovinu. Þau eiga tvær dætur, Lenu sem er fædd 2009 og Emmu sem er fædd 2012. Þau eru búsett í Mosfellsbæ.


Svæði