Fréttir

Fjölskylduhátíð Ísl. ættleiðingar 23. okt.

Sunnudaginn 23. október næstkomandi verður haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur Fjölskylduhátíð Íslenskrar ættleiðingar. Húsið opnar kl. 13:00 en formleg dagskrá hefst kl. 14:00.

Dagskráliðir verða sem hér segir:

Fulltrúi skemmtinefndar ÍÆ setur hátíðina
Ávarp formanns stjórnar ÍÆ, Ingibjörg Jónsdóttir
Ávarp forseta Íslands, hr Ólafs Ragnars Grímssonar
Mæðgnakórinn
Brynja Valdimarsdóttir Idolstjarna
Stefán Haukur Gylfason klassiskur gítarleikur
Sparibaukurinn Georg kemur í heimsókn

Veislustjóri er Guðmundur Andri Thorsson.

Auk dagskrárinnar verður kynning á hverju ættleiðingarlandi fyrir sig og gestum boðið að smakka á austulenskum mat.

Heiðursgestir hátíðarinnar eru forsetahjónin hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff.

Tilgangur fjölskylduhátíðarinnar er að gefa félagsmönnum tækifæri til að sýna sig og sjá aðra, kynnast starfsemi félagsins, ættleiðingarlöndunum og að gera börnin okkar stolt af uppruna sínum.

Hátíðin er ætluð félagsmönnum og fjölskyldum þeirra og eru ömmur og afar einnig boðin velkomin. Eldri ættleiddir einstaklingar í félaginu sem og fjölskyldur þeirra eru sérstaklega hvött til að mæta. Hátíðargestir eru hvattir til að mæta í þjóðlegum klæðnaði, íslenskum búningi eða klæðnaði frá upprunalöndum barnanna.

Þar sem erfitt verður að rukka aðgangseyri verður aðgangur að hátíðinni ókeypis en óskað er eftir frjálsum framlögum frá gestum til að hafa upp í kostnað og sérstakir söfnunarbaukar verða á staðnum fyrir framlög. Þá verður fjáröflunarnefnd félagsins með bolasölu.

Í tengslum við hátíðina höfum við hafið myndasöfnun af öllum fallegu börnunum bæði litlum og stórum, sem ættleidd hafa verið til landsins með milligöngu ÍÆ. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessari myndasöfnun eru beðnir um að senda myndir á skrifstofu félagsins með tölvupósti á isadopt@isadopt.is eða eða pósti og taka fram nafn barnsins og aldur og hvenær myndin var tekin.


Svæði