Fréttir

Fréttatíminn - Góður pabbi og dáð dragg-drottning

Björn Flóki
Björn Flóki

23.08 2012

James William Ross IV, sem hefur slegið í gegn í Bandaríkjunum í draggi sem Tyra Sanchez, vinnur fyrir sér og sjö ára syni sínum með því að troða upp í kvenmannsgervi. Kvikmyndagerðarmaðurinn Björn Flóki ætlar að segja sögu þeirra feðga í heimildamyndinni Drag Dad. Björn Flóki er samkynhneigður og hefur ásamt manni sínum rekið sig á þá veggi sem mæta samkynhneigðum sem vilja ættleiða barn. Með myndinni vill hann ekki síst sýna fram á að fólk geti verið góðir foreldrar óháð kynhneigð og fleiri en karl og kona geti alið upp barn saman.

Björn Flóki flutti til Bandaríkjanna fyrir tveimur árum til þess að ljúka mastersnámi í kvikmyndagerð og hefur búið í New York síðan. Hann útskrifaðist í maí og síðan þá hefur hann sökkt sér ofan í sögu föðurins og dragg-drottningarinnar James Ross. „Þetta var síðasta verkefnið mitt í skólanum og það hefur svo bara verið að vinda upp á sig og stækka. Þetta er mjög ánægjulegt allt saman og gaman að hafa eitthvað fyrir stafni svona strax eftir útskrift.“

Björn fjármagnaði Drag Dad með því að óska eftir frjálsum framlögum á vefnum kickstarter.com og undirtektirnar fóru fram úr björtustu vonum. „Takmarkið var 16.000 dollarar en við enduðum í 22.600 og héldum áfram að fá framlög eftir að söfnuninni lauk. Ég er hissa og himinlifandi og þetta eru miklu betri viðbrögð en ég átti von á.,“ segir Björn.

Næsta skref er því að sækja James og son hans Jeremiah heim til Atlanta og taka upp efni. „Við erum að undirbúa tökur og förum til Atlanta í byrjun október. Við ætlum að vera þar í átta daga og metum svo, út frá því hversu mikið efni við framleiðum, hvort myndin verði stuttmynd eða í fullri lengd. Efnið og sagan munu ráða því.“

Björn uppgötvaði James, eða Tyru Sanchez, í raunveruleikaþættinum RuPaul´s Drag Race. „Ég hélt mikið upp á þennan þátt sem er ótrúlega fyndinn og skemmtilegur. Þarna kynntist maður litríkustu persónuleikum raunveruleikasjónvarpsins sem voru vissulega með mikla stæla en líka mjög einlægir. Mér fannst þessi náungi bara alltaf lang áhugaverðastur og mér fannst að það væri eitthvað meira á bak við hann en við fengum að sjá. Hann var svona „tíkin“ í þáttunum og var lagður í smá einelti af hinum keppendunum. Hann var lang yngstur, tuttugu og eins árs og svolítið óþroskaður.“

Tyra upplýsti meðal annars í þáttunum að fæðing sonar hans hefði bjargað lífi hans. „Hann talaði oft um son sinn og hversu erfitt það væri að vera í burtu frá honum. Það tæki hann mjög sárt. Þetta vakti áhuga minn og mig langaði að vita meira um hann,“ segir Björn.

Tyra/James sigraði í þættinum við mismikinn fögnuð. „Hann hefur eiginlega verið útskúfaður í dragg-heiminum síðan vegna þess að fólki fannst hann ekki eiga skilið að vinna. Vegna þess að það kunni ekki að meta persónuleikann. Mér fannst saga hans hins vegar svo áhugaverð að ég hafði bara samband við hann. Mig langar að kafa undir yfirborðið og fá að vita meira um líf hans og baráttu.

Pabbi hans neitar til dæmis að horfast í augu við hvað hann gerir og neitar að styðja hann. Pabbi hans rak hann að heiman þegar hann var sautján ára þannig að þarna er tækifæri til að skoða tvöfalt feðgasamband. James og Jeremiah, annars vegar, og James og föður hans hins vegar.“

Þegar James var heimilislaus kom besta vinkona hans honum til bjargar. Þau urðu ástfangin og eignuðust Jeremiah saman. „Síðan fór hann að vinna fyrir sér og barninu á dragg-klúbbum, varð svona rosalega góður og sigraði stærstu dragg-keppni í heimi.“

Björn fagnar því ekki síst að fá tækifæri til þess að gera mynd um föður eins og James og vonast til þess að geta sýnt fram á að kynhlutverk ráði engu um hversu góðir foreldrar fólk geti orðið. Hann er sjálfur samkynhneigður og hefur, ásamt sambýlismanni sínum til níu ára, kannað möguleika á ættleiðingu og fengið að kynnast fordómum gegn samkynhneigðum í þeim málum.

James vonast einnig til þess að Drag Dad muni opna augu fólks en í viðtali um verkefnið ytra sagðist hann gera sér vonir um að myndin muni auðvelda samkynhneigðum pörum að ættleiða. „Ég held að samkynhneigðir foreldrar séu alveg eins og allir aðrir foreldrar. Við elskum öll börn og öll þráum við að eignast börn.“

toti@frettatiminn.is

Góður pabbi og dáð dragg-drottning


Svæði