Fréttir

Fréttir frá ættleiðingarlöndunum

Indland

Nú er starfsleyfi ÍÆ í Indlandi loksins komið frá indverskum stjórnvöldum og gildir fram til 2012. Væntanlega koma upplýsingar um börn til Íslands innan skamms. Biðtími í Indlandi er undir venjulegum kringumstæðum um 3 ár en nokkrir umsækjendur hafa nú beðið talsvert lengur af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum.

Kína

Ættleiðingar frá Kína ganga enn hægt. Hópur 17 bíður afgreiðslu og hefur beðið í 26 mánuði. Þeir sem sendu umsóknir til Kína 2006 og 2007 munu þurfa að bíða lengur, nýjustu fréttir frá CCAA herma að biðtími muni fara upp í 3 - 4 ár. Erfitt er að spá um biðina langt fram í tímann enda eru margir óvissuþættir sem hafa áhrif á biðtímann. Þrjár fjölskyldur hafa fengið upplýsingar um börn í Kína sem verða sótt á næstu mánuðum.
Ættleiðingar barna með sérþarfir halda áfram og vonumst við til að fá upplýsingar um fleiri börn nú með vorinu. Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér ferlið á lokaða svæðinu, hafið samband við skrifstofu ef ykkur vantar lykilorð.

Kólumbía

Umsóknum til Kólumbíu hefur fjölgað mikið að undanförnu. Ástæður eru m.a. að nú hafa íslenskir umsækjendur fengið ágæta reynslu af ættleiðingum þar í landi og fjölskyldur sem þar hafa ættleitt eru mjög ánægðar. Einnig hafa breytt skilyrði í Kína útilokað ýmsa frá ættleiðingu þar og þeir snúa sér þá t.d. til Kólumbíu í staðinn. Þeir sem lengst hafa beðið voru samþykktir á biðlista ICBF í okt 2005 og hafa því verið í ættleiðingarferli í tæp 3 ár.

Tékkland

Eitt barn kom frá Tékklandi á síðasta ári. Þangað hafa verið sendar fleiri umsóknir og er búist við að biðtíminn þar nálgist 3 ár.

Tæland

Engin ættleiðing hefur verið frá Tælandi til Íslands undanfarin ár. Síðustu ættleiðingar þaðan voru fjölskylduættleiðingar, þ.e. Tælendingar búsettir á Íslandi ættleiddu börn þar.
Á síðasta ári hefur verið leitað eftir samastarfi við nokkur lönd, m.a. í Afríku. Ekki er ljóst hvenær niðurstaða fæst eða hvaða land opnast fyrst en fréttir verða birtar á heimasíðunni um leið og málin skýrast.

Síðustu 2 ár hefur biðtími lengst í flestum ættleiðingarlöndum og er ástæða þess m.a. sú að umsóknum um ættleiðingar frá fólki á Vesturlöndum hefur fjölgað mjög mikið en einnig hefur batnandi fjárhagur almennings, t.d. í Asíu orðið til þess að yfirgefnum börnum hefur fækkað. Því hefur ættleiðingum fækkað á sama tíma og umsóknum fjölgar og þetta veldur lengri biðtíma eftir ættleiðingu.

Ýtarlegri fréttir eru væntanlegar inn á félagsmannasvæðið.


Svæði