Fréttir

ÍÆ styrkir UNICEF

Félagið Íslensk ættleiðing veitti í síðustu viku styrk til verkefna UNICEF á flóðasvæðunum við Indlandshaf.

Styrkupphæðin er 305 þúsund krónur en það samsvarar þúsund krónum á hvert barn sem hefur verið ættleitt frá Indónesíu, Sri Lanka, Indlandi og Tælandi til Íslands.
UNICEF starfar á öllum sviðum þróunar-og neyðaraðstoðar á svæðunum með hag barna að leiðarljósi. Meðal verkefna er að bólusetja börn gegn öllum helstu sjúkdómunum, tryggja fjölskyldum hreint vatn, byggja salernis- og hreinlætisaðstöðu, opna skóla á ný og sjá um að sameina fjölskyldur og finna munaðarlausum börnum athvarf.
Styrkurinn frá Íslenskri ættleiðingu mun renna óskiptur til verkefna UNICEF á flóðasvæðunum og segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF Ísland, að styrkurinn sé einkar kærkominn og sérstaklega sé gott að hugsa til þess að ættleidd börn hér á landi og fjölskyldur þeirra skuli veita þennan rausnarlega styrk.


Róbert Davíð Yoder Pálmarsson og Hólmfríður Anna Baldursdóttir.

Róbert Davíð Yoder Pálmarsson afhenti UNICEF Ísland styrkinn fyrir hönd Íslenskrar ættleiðingar, en Hólmfríður Anna Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF Ísland, tók við honum.
Lísa Yoder, formaður Íslenskrar ættleiðingar og Ingvar Kristjánsson, gjaldkeri félagsins, heimsóttu skrifstofu UNICEF Íslands við þetta tækifæri.


Svæði