Fréttir

RÚV - Ættleiðingar frá Tógó

Líkur eru á því að Íslendingar geti í framtíðinni sótt um að ættleiða börn frá afríkuríkinu Tógó. Íslensk ættleiðing í samvinnu við dómsmála- og mannréttindaráðuneytið vinnur að því að ganga frá ættleiðingarsambandi milli landanna. Yfirvöld í Tógó vilja að umsókn um ættleiðingu komi frá stjórnvaldi en ekki félagi. Því er stefnt að því að ráðuneytið verði með milligöngu um ættleiðingu barna frá Tógó en félagið Íslensk ættleiðing sjái að öðru leyti um málið.

Það eru því líkur á því að munaðarlaus börn í Tógó geti í framtíðinni eignast íslenskar fjölskyldur. Að sögn Kristins Ingvarssonar, framkvæmdastjóra Íslenskrar ættleiðingar geta Íslendingar sótt um að ættleiða börn frá Kína, Tékklandi, Kólumbíu, Tælandi, Indlandi og Póllandi. Auk Tógó eru samningaviðræður komnar langt við Rússland. Einnig hefur verið haft samband við Filipseyjar og fleiri lönd þó ekkert sé komið út úr því enn.


Svæði