Fréttir

Samkynhneigð pör ekki enn getað ættleitt börn að utan

Átta ár síðan það varð heimilt - Innanríkisráðuneytið lítur ekki á það sem sitt hlutverk að eiga frumkvæðið að samningum við ný upprunaríki

Sigurður Mikael Jónssonmikael@dv.is
21:25 › 27. mars 2014
 
Ómögulegt Eins og er virðist ómögulegt fyrir samkynhneigða að ættleiða börn frá útlöndum. Það hefur þeim þó verið heimilt í 8 ár.
 

Ekkert íslenskt par af sama kyni hefur ættleitt barn saman erlendis frá síðan lög sem heimila samkynhneigðum að ættleiða börn voru samþykkt árið 2006. Innanríkisráðuneytið lítur ekki á það sem sitt hlutverk að eiga frumkvæðið að því að afla nýrra sambanda við upprunaríki sem heimila ættleiðingar til samkynhneigðra og segir það hlutverk ættleiðingarfélaga. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir þó að hún styðji slíkar umleitanir og að farsælt gerðir væru slíkir samningar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, um ættleiðingar sem birt var í dag.

 

Hanna Birna segir í svari sínu að hún styðji að komið verið á sambandi við ríki sem heimili að samkynhneigðir ættleiði. Það sé hins vegar ættleiðingarfélaga að eiga frumkvæðið.
Ættleiðingarfélaga að eiga frumkvæðiðHanna Birna segir í svari sínu að hún styðji að komið verið á sambandi við ríki sem heimili að samkynhneigðir ættleiði. Það sé hins vegar ættleiðingarfélaga að eiga frumkvæðið.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

 

Þar segir að að á árunum 2008 til 2012 hafi 71 par frumættleitt 81 barn til landsins erlendis frá. Ekkert par af sama kyni búsett á Íslandi hafi ættleitt barn saman erlendis frá.

Jóhanna María spyr hvort ráðuneytið hafi fengið einhverjar athugasemdir um að erfitt sé fyrir samkynhneigð pör að ættleiða og hvort erfiðara sé fyrir samkynhneigð pör að ættleiða frá einhverjum ákveðnum löndum fremur en öðrum.

Í svarinu kemur fram að Ísland sé aðili að alþjóðlegum samningi um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa sem undirritaður var 1993 í Haag í Hollandi. Megintilgangur Haag-samningsins sé að tryggja að við ættleiðingar á börnum milli landa séu hagsmunir þeirra hafðir að leiðarljósi. Upprunaríkin, ekki síður en móttökuríki, setji reglur um hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að ættleiðing milli landa geti komið til greina og jafnframt reglur um hæfi væntanlegra kjörforeldra. Oft skarist þó reglur upprunaríkis og móttökuríkis. Samkvæmt íslenskum lögum geti einhleypir til að mynda verið ættleiðendur en ekki öll upprunaríki heimila slíkt. Þá eru ættleiðingar til para af sama kyni heimilar samkvæmt íslenskri löggjöf.

„Ráðuneytinu er kunnugt um að ekkert par af sama kyni, búsett á Íslandi, hafi ættleitt barn (saman) erlendis frá síðan lög um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun), nr. 65/2006, tóku gildi. Staðan á Íslandi hvað þetta varðar er sambærileg og þegar kemur að öðrum norrænum ríkjum, en samstarfsríki þeirra eru þó mun fleiri en samstarfsríki Íslands.“

Jóhanna María spyr einnig hvort skoðað hafi verið að gera samninga við lönd sem ekki er ættleitt frá sem stendur en sem leyfa ættleiðingar til samkynhneigðra. Helstu lönd sem ættleitt er frá í dag eru Indland, Kína Kólumbía, Tékkland og Tógó.

Um það segir í svari ráðherra.

„Fyrirkomulagi um millilandaættleiðingar hér á landi er þannig háttað að þær fara fram fyrir milligöngu löggiltra ættleiðingarfélaga. Það er því mat ráðuneytisins að það sé hlutverk þeirra að hafa frumkvæði að því að afla nýrra sambanda við upprunaríki. Óski löggilt félag, eftir athugun á aðstæðum og þörfum tiltekins ríkis, eftir að taka upp samstarf við viðkomandi ríki veitir ráðuneytið liðsinni sitt við að koma slíku samstarfi á, enda verði talið að reglur ríkisins um málsmeðferð uppfylli öryggiskröfur Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa.“

Fram kemur einnig að ráðuneytið hafi þó fengið þær upplýsingar frá Íslenskri ættleiðingu að það sé virkur samstarfshópur félagsins og Samtakanna '78 sem hefur unnið að því að kanna möguleika á ættleiðingum til samkynhneigðra.

„Ráðherra styður slíkar umleitanir og telur farsælt að gera samninga við þau ríki sem leyfa ættleiðingar til samkynhneigðra.“

Samtökin '78 hafa meðal annars gagnrýnt að samkynhneigð pör standi ekki jafnfætis gagnkynhneigðum pörum þegar kemur að ættleiðingum og hafa kallað eftir að stjórnvöld sýni vilja í verki og leiti samninga við önnur ríki. Samkynhneigðum sé mismunað þar sem ættleiðingar erlendis frá séu ómögulegar eins og staðan er í dag og ættleiðingar innanlands fáar.

Samkynhneigð pör ekki enn getað ættleitt börn að utan


Svæði