Fréttir

Samningur við Rússland

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra

Eins og félagsmenn ÍÆ.. þekkja hefur verið unnið að ættleiðingarsambandi við Rússland í tvö ár eða frá því að stjórn félagsins óskaði eftir því við íslensk stjórnvöld að þau sendi formlega beiðni til rússneskra stjórnvalda um ættleiðingasamband milli landanna. Nú hefur dregið til tíðinda hvað þetta mál varðar.

Utanríkisráðuneytið íslenska hefur unnið af krafti að málinu með erindreka okkar Elínu Henriksen. Óhætt er að fullyrða að árangur í þessu máli sé til kominn vegna þess hve vel þetta samstarf hefur gengið og hve dugmikill ráðherrann sjálfur hefur verið að taka málið upp í viðræðum við rússneska ráðamenn.

Í Fréttablaðinu í gær skrifar ráðherrann greinarkorn um heimsókn sína til Rússlands í síðustu viku í boði góðs vinar síns og samstarfsfélaga, Sergei Lavrov utanríkisráðherra. Þar segir Össur um ættleiðingarsamband við Rússland:

Mjög hefur þrengst um ættleiðingar til Íslands á síðustu árum. Ég hef þráfaldlega rætt þann möguleika við Lavrov utanríkisráðherra að formlegur samningur verði gerður milli þjóðanna um ættleiðingar rússneskra barna til Íslands. Eftir tafsamar viðræður er svo langt komið að á blaðamannafundi í lok langs Moskvufundar okkar Lavrovs lýsti hann yfir með afdráttarlausum hætti að Rússar væru nú reiðubúnir að gera slíkan samning. Á fundinum sjálfum lofaði hann jafnframt að setja sína bestu menn í að ljúka samningi sem fyrst. Vafalítið eru mörg ljón á veginum ennþá sem við félagi Ögmundur þurfum saman að yfirvinna. Tækist hins vegar að ljúka samningum yrði um stórkostlega réttarbót – og hamingju – að ræða fyrir mörg barnlaus hjón sem þrá ekkert eins heitt og að eignast barn. Þetta þekki ég sem á tvær dásamlegar kólumbískar dætur.


Svæði