Fréttir

Stjórnarfundur 01.12.2009

Fundur stjórnar Íslenskrar ættleiðingar þriðjudaginn 1. desember 2009, kl. 17.15 í húsnæði Í.Æ. Austurveri.

18. fundur stjórnar

Mættir til fundarins stjórnarmenn ÍÆ:

Ágúst Guðmundsson
Finnur Oddsson
Hörður Svavarsson
Margrét Rósa Kristjánsdóttir
Pálmi Finnbogason

Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðustu fundargerð og samþykktu hana.

Mál á dagskrá: 
1. Uppsagnarbréf framkvæmdastjóra
2. Rekstur skrifstofu á næstunni
3. Öflun ættleiðngasambanda í Tælandi

1. Uppsögn framkvæmdastjóra
Lagt fram uppsagnarbréf frá Guðrúnu Ó. Sveinsdóttur framkvæmdastjóra félagsins sem sent var stjórn í tölvupósti klukkan 17:39 í gær en Pálmi Finnbogson kvittaði fyrir móttöku þess á skrifstofu sinn hálfri stundu fyrr.

Í bréfinu kemur fram að Guðrún hyggst nýta áður fengið vilyrði til að taka út ótekið orlof frá 1. desember en jafnframt er tíundað hve mikið ótekið orlof hennar er frá undangengnum árum. Ljóst er af bréfinu að Guðrún verður í orlofi allan uppsagnarfrestinn. Stjórn ákveður að standa við fyrri loforð til Guðrúnar um að taka út orlof sitt núna þó ekki hafi verið ljóst að til stæði af hennar hálfu að segja upp starfi sínu.

Formaður og varaformaður greina frá því að þeir hafi ritað fráfarandi framkvæmdastjóra sitt hvort tölvubréfið að kveldi 30. nóvember þar sem fram koma þakkir til Guðrúnar fyrir óeigingjarnt og erfitt starf í fjölda ára. Ákveðið að senda tilkynningu um starfslok framkvæmdastjórans á vefsvæði félagsins hið fyrsta og þakkarorð til Guðrúnar verði að stofni til úr bréfi formanns til Guðrúnar.

Það eru sannarlega tímamót hjá félaginu þegar Guðrún lætur af störfum eftir aldarfjórðungsstarf sem stjórnandi á skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar. Hún hefur unnið ómetanlegt frumkvöðulsstarf í þágu ættleiðinga til landsins og staðið vaktina, oft ein og óstudd, gegn margvíslegum sjóum fordóma og fjárskorts sem háð hafa okkar litla félagi. Störf Guðrúnar hafa verið til þess að sameina hundruði fjölskyldna og fjölmargir einstaklingar munu hugsa til hennar með þakklæti og hlýhug svo lengi sem þeir lifa. Fyrir hönd allra stjórna félagsins undanfarinn aldarfjórðung þakkar stjórn Íslenskrar ættleiðingar Guðrúnu Sveinsdóttur gott samráð og óskar henni alls góðs í framtíðinni.

2. Rekstur skrifstofu Í.Æ. á næstunni
Bregðast þarf við óvæntum aðstæðum í starfsmannahaldi hratt og örugglega svo félögum, sérstaklega fólki á biðlistum, verði tryggð tafalaus þjónusta.

Lögð fram reglugerð um ættleiðingarfélög þar sem m.a. kemur fram að félaginu ber að hafa opna skrifstofu. Þar kemur einnig fram að starfsmenn sem vinna í þágu félagsins skuli hafa góða þekkingu á Haagsamningnum, og lögum og reglum um ættleiðingar á Íslandi.

Lögð fram lög Í.Æ. þar sem fram kemur í 8. gr. að stjórn félagsins ræður skrifstofustjóra og ákveður starfskjör hans.

Stjórn Í.Æ. telur erfiðleikum háð að auglýsa stöðu starfsmanns við þessar aðstæður því tryggja þarf strax að skrifstofa félagsins sé opin og ekki hægt að draga þjónustuna á langinn meðan tímafrekt ráðningarferli fer fram. Einnig er ljóst að ekki eru margir til staðar sem uppfylla skilyrði reglugerðar um þekkingu starfsmanna ættleiðingarfélaga.

Ákveðið að fela formanni að leita eftir því við Kristinn Ingvarsson starfsmann Alþjóðlegrar ættleiðingar að hann komi til starfa fyrir félagið og gerður verði við hann ráðningarsamningur með opnum möguleika á að starfið verði auglýst síðar. Ef ekki næst samkomulag við Kristinn verður stjórn kölluð saman þann 4. desember.

3. Öflun ættleiðingasambanda í Tælandi
Íslensk stjórnvöld hafa gert milliríkjasamband við Tæland um ættleiðingar. Íslensk ættleiðing er með löggilt ættleiðingasamband við Tæland en er ekki með nein sambönd þar innanlands. Nokkur fjöldi ættleiðinga er út úr landinu og ofangreint milliríkjasamband og löggilding sem þegar eru til staðar kunna að auðvelda félaginu tengslamyndun innanlands í Tælandi. Á næstunni mun erindreki á vegum Íslenskrar ættleiðingar leita eftir samskiptum við stofnanir þar í landi. Dóms- og mannréttindaráðuneytinu verður tilkynnt um þetta frumkvæði félagsins.

Fundi slitið kl. 18.10


Svæði