Fréttir

Stjórnarfundur 05.05.2009

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar þriðjudaginn 5. maí 2009, kl. 16.30.
 
Mættir: Ágúst Guðmundsson
Guðbjörg Grímsdóttir
Hörður Svavarsson
Karl Steinar Valsson
og Pálmi Finnbogason
Guðrún framkvæmdastjóri var einnig viðstödd hluta fundarins.
 
-1. Verkaskipting stjórnar.
Þetta er fyrsti fundur nýrrar stjórnar eftir aukaaðalfund og verkskipting stjórnar því á dagskrá.
 
Ákveðið að verkaskipting verð óbreytt; Hörður Svavarsson verður formaður stjórnar, Finnur Oddson er varaformaður, Vigdís Ósk Sveinsdóttir er kjörinn ritari og Ágúst Guðmundsson er gjaldkeri, meðstjórnendur eru Karl Steinar Valsson, Guðbjörg Grímsdóttir og Pálmi Finnbogason sem kemur inn í stjórn sem varamaður Kristjönu E. Jóhannsdóttur sem boðað hefur forföll til áramóta.
 
Við þetta tækifæri bókar stjórn Íslenskrar Ættleiðingar þakkir til fráfarandi stjórnarmanna fyrir vel unnin störf og vill sérstaklega þakka fráfarandi formanni margra ára störf í þágu félagsins, sem unnin voru af ósérhlífni og heilindum.
 
-2. Starfshópar.
Stjórn Íslenskrar Ættleiðingar fagnar þeim mikla áhuga sem félagsmenn hafa sýnt starfsemi félagsins með mikilli almennri umræðu, fjölmenni á fundum og mörgum framboðum til stjórnarsetu.
 
Af því tilefni er vert að kanna hvort hægt sé að virkja félagsmenn til starfa í nokkursskonar málefnahópum því  mörgum málum þarf að sinna af krafti og eftirfylgni sem getur verið erfitt fyrir stjórnina og fámennt starfslið skrifstofu að sinna eingöngu.
 
Það má hugsa sér starfshópa í kringum einstaka málaflokka eins og málefni einstæðra foreldra sem eru á biðlista, fólk sem bíður eftir barni frá tilteknum löndum (viðhald og virkjun sambanda), málefni félaga sem eru á biðlista eftir barni með sérþarfir, vef- og upplýsingatæknimál og e.t.v. fleiri mál.
 
Samþykkt að kynna þessa hugmynd í frétt á forsíðu vefsvæðis félagsins til að kanna undirtektir.
 
-3. Upplýsingaveitur
Samþykkt að skoða möguleika á uppfærslu vefjar með það í huga að gera hann gagnvirkari og leita e.t.v. aðstoðar félagsmanna sem kunna vel til verka.
 
Samþykkt að nota póstlista félagsins til kynningar meira en gert hefur verið.
 
Samþykkt að fulltrúar stjórnar fundi með PAS nefnd og ritnefnd við fyrsta tækifæri.
 
Ákveðið er að netföng stjórnarmanna verði sett við nöfn þeirra á vefsvæði félagsins undir hnappnum “Félagið” sem er á forsíðu vefsvæðisins.
 
-4. Húsnæðismál.
Samþykkt að kanna möguleika á að framlengja leigusamningi fram í september með hliðsjón af því að hræringar á fasteignamarkaði hafa líklega ekki skilað sér að fullu inn í verðlagningu á leiguhúsnæði. Jafnframt verða nokkrir kostir á leiguaðstöðu kannaðir betur.
 
-5. Rannsókn Jórunnar Elídóttur
Dr. Jórunn Elídóttir hyggst vinna rannsókn er varðar börn ættleidd frá Kína og foreldra þeirra. Hún óskar eftir að erindi sitt sé tekið fyrir að nýju á grundvelli nýrra upplýsinga.
 
Stjórn Íslenskrar Ættleiðingar telur mikilvægt að sköpuð sé þekking á vettvangi ættleiðinga með vönduðum og faglegum hætti. Slík þekking er verðmæt fyrir samfélag okkar og hvetja ber til slíkrar þekkingarsköpunar á Íslandi.
 
Að fengnu áliti lögfræðings Persónuverndar hefur stjórn Íslenskrar Ættleiðingar ákveðið að leggja Jórunni fullt lið við rannsóknina og afhenda henni netfangalista foreldra. Eigendur netfanganna geta látið taka sín netföng af listanum áður en Jórunn fær hann afhentan og verður athygli þeirra vakin á því með bréfi sem þeir fá sent frá félaginu.
 
-6. Rekstraráætlun.
Ræddir voru nokkrir þættir fyrirliggjandi rekstraáætlunar.
 
Stjórnin áréttar að í október 2006 var ákveðið að gjöld fyrir þjónustu félagsins fylgi verðlagi og skuli uppreiknuð samkvæmt vísitölu neysluverðs hinn 1. janúar og 1. júli árlega.
Þessi ákvörðun var kynnt á vef félagsins.
Gjöldin núna eiga því samkvæmt þessari ákvörðun að uppreiknast miðað við vísitölu þann 1. janúar á þessu ári og næst þann 1. Júlí 2009.
 
 
Dagskrárliðunum
-7 Námskeiðsmál
-8 Fulltrúar Í.Æ. í Nordic Adoption Council og EurAdopt
-9 Ákveða hvernig umsækjendur geta skipt milli landa
er frestað til næstu funda.
 
Næsti fundur stjórnar var ákveðinn miðvikudaginn 13. maí.

Svæði