Fréttir

Stjórnarfundur 19.03.2009

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 19. mars 2009, kl. 20:00
13. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
 
Mættir: Ingibjörg J., Ingibjörg B., Kristjana, Freyja, Finnur og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðstu fundargerð og samþykktu hana.
 
Ættleiðingargjöld
Bréf var sent á umsækjendur á biðlista vegna fyrirhugaðrar hækkunar ættleiðingargjalda. Stjórn ÍÆ hafa borist nokkur bréf frá umsækjendum þar sem óskað er eftir rökstuðningi fyrir hækkuninni. Þeim umsækjendum verður svarað sérstaklega en síðan verður hækkunin kynnt á aðalfundinum sem verður eftir viku. Þó að gjalddagi verði 1. apríl ár hvert er ekki gert ráð fyrir því að gjalddagi fyrir árið 2009 sé þennan dag. 
 
Aðalfundur
Rætt um undirbúning og skipulag aðalfundar sem verður að viku liðinni þann 26. mars. Pálmi Finnbogason verður fundarstjóri.   
 
Kosið verður um þrjú stjórnarsæti en fimm félagsmenn hafa boðið sig fram til stjórnarsetu þannig að ljóst er að kosning fer fram og því þarf að finna fólk í talningarnefnd.    
 
Sérstök umfjöllun verður um Nepal á fundinum.
 
Aldursviðmið
Ingibjörg J. og Helgi sátu fund þann 4. mars með Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra og Jóhönnu Gunnarsdóttur sérfræðingi dómsmálaráðuneytisins á ættleiðingarsviði vegna aldursviðmiða og endurútgáfu á forsamþykki. Dómsmálaráðherra óskaði eftir formlegu bréfi frá ÍÆ með rökstuðningi fyrir endurútgáfu forsamþykkis til þeirra sem eru komnir fram yfir 45 ára aldursviðmiðið. Bréfið var lagt fyrir fundinn og það samþykkt. Bréfið verður sent dómsmálaráðherra á morgun.
 
Undirbúningsnámskeið
Ingibjörg J. og Ingibjörg B. fóru á fund með Jóhönnu Gunnarsdóttur og Kristrúnu Kristinsdóttur hjá dómsmálaráðuneytinu þar sem rætt var um undirbúningsnámskeiðin sem ÍÆ heldur í nýju umhverfi (vegna tilkomu nýs ættleiðingarfélags). Námskeiðin eru forsenda fyrir útgáfu á forsamþykki til þeirra sem eru að ættleiða í fyrsta skiptið. Krafan um þetta námskeið er í lögum og reglugerðum um ættleiðingar og verður að halda á vegum löggilts ættleiðingarfélags.     
 
Nepal
Enn er beðið eftir formlegu svari frá ættleiðingaryfirvöldum í Nepal um samstarf. Búið er að skrá ÍÆ í Nepal en leyfi frá Nepal er ekki komið og dómsmálráðuneyti hefur ekki gefið út löggildinu fyrir félagið til að starfa þar.  Rætt um tímasetningu á opnun biðlista eftir ættleiðingu frá Nepal og framkvæmd. Ljóst er að af því verður ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir að öll leyfi berast. Rætt um kostnað vegna ættleiðinga frá Nepal, sem ljóst er að verður verulegur t.a.m. vegna fastra árlegra greiðslna til góðgerðastarfa sem kveðið er á um í Nepölskum lögum.    
 
Breyting á ættleiðingarlandi
Rætt um möguleika umsækjenda sem þegar eiga umsókn i einhverju landi að skipta um ættleiðingland. Umsækjendur þurfa að draga umsókina til baka og fá staðfestingu á því áður en hægt er að sækja um nýtt forsamþykki fyrir annað land. Þetta ferli getur tekið einhverja mánuði og ljóst að slík breyting muni fela í sér kostnað fyrir umsækjendur.
 
Rannsókn
Dr. Jórunn Elídóttir ætlar að vinna rannsókn er varðar börn ættleidd frá Kína og foreldra þeirra. Hún óskar eftir að fá netfangalista ÍÆ til notkunar við útsendingu á rannsókninni. Ákveðið að ekki sé hægt að afhenda netfangalista félagsins en Jórunni verður boðið að ÍÆ sendi bréf á félagsmenn sína þar sem þeim verður boðið að taka þátt í rannsókninni með því að hafa samband beint við Jórunni.
 
EurAdopt
EurAdopt stjórnarfundur verður í Lux 18. til 20. apríl þar sem fjallað verður um nýjustu málefni í ættleiðingarheiminum. Ingibjörg J. er fulltrúi ÍÆ í EurAdopt.     
 
 
Þetta er síðasti stjórnarfundur þessarar stjórnar því næsti fundur er aðalfundur þar sem ný stjórn verður kosin.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði