Fréttir

Stjórnarfundur 20.03.2006

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 20. mars 2006, kl. 20:00
1. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2006

 Fundarstaður: Húsnæði ÍÆ, Ármúla 36, Reykjavík

Mættir: Ingibjörg J., Arnþrúður, Ingibjörg B., Karl Steinar, Kristjana og Pálmi. Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.

1. Stjórn skiptir með sér verkum.
Ný stjórn byrjaði á því að skipta með sér verkum. Ingibjörg J. gaf kost á sér áfram sem formaður og var það samþykkt. Önnur stjórnarstörf skiptast þannig: Karl Steinar varaformaður, Ingibjörg B. gjaldkeri, Arnþrúður ritari og Kristjana, Pálmi og Lísa eru meðstjórnendur.

2. Samskipti við aðila sem koma að ættleiðingarmálum. 
Umræður um stöðuna í félaginu í dag, samskipti við dómsmálaráðuneytið, félagsþjónustuna og fleiri aðila sem koma að málum sem við koma ættleiðingum. Félagið er með starfsleyfi frá dómsmálaráðuneytinu um milligöngu vegna ættleiðinga erlendis frá og vinnur eftir reglugerð þar að lútandi. Félagið er ekki umsagnaraðili og tekur ekki afstöðu til einstakra mála varðandi umsækjendur. Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri hafa verið í ágætu sambandi við dómsmálaráðuneytið og lögfræðinga þar. Lítið samband er við ættleiðingarnefnd, ráðuneytisins en meðlimir hennar fá sent blað félagsins. Félagsþjónusta sveitarfélaganna hefur einstaka sinnum samband við skrifstofu félagsins til að kynna sér vinnureglur varðandi skýrslur vegna forsamþykkis. Æskilegt væri að halda einhvers konar námskeið fyrir félagsráðgjafa og aðra sem vinna þessar skýrslur hjá félagsþjónustunni en slíkt námskeið var haldið fyrir þennan hóp fyrir nokkrum árum síðan. 

3. Styrkjamálið
Staðan á styrkjamálinu er þannig að þann 15. mars síðastliðinn fór Ingibjörg J. og Gerður þáverandi varaformaður á fund fjármálaráðherra þar sem styrkir til ættleiðenda voru ræddir. Stefnt er að því að styrkirnir verði greiddir til ættleiðenda sem ættleiða frá og með 1. janúar 2007. Mikilvægt er að undirbúningsvinnan verði vel unnin þannig að útfærslan verði vönduð og sem best fyrir ættleiðendur. Félagið telur réttast að styrkirnir verði greiddir af Tryggingastofnun, sem er hvort eð er að borga út fæðingarorlof fyrir ættleiðendur á sama tíma og allar upplýsingar um ættleiðinguna eru þá til staðar í Tryggingastofnun. Litlar líkur eru á að styrkirnir verði skattlausir eins og þeir eru á hinum norðurlöndunum þar sem skattaumhverfið er þannig á Íslandi, en til að styrkirnir verði sambærilegir og á norðurlöndunum verða þeir þar af leiðandi að vera hærri á Íslandi. Félagið vill frekar að styrkirnir verði föst upphæð en prósenta af ættleiðingarkostnaði. Leitað verður til félaga á norðurlöndunum til að fá upplýsingar um útfærslur þessara styrkjagreiðslna þar. Búið er að panta fund með nýjum félagsmálaráðherra en ráðuneytið hefur ekki enn svarað. Fjölskyldunefnd á að skila af sér umsögn um styrkina til félagsmálaráðherra þann 6. apríl næstkomandi.

4. Vefsíða félagsins
Ritari félagsins var einnig skipaður ritstjóri vefsíðunnar og verður gefinn aðgangur til uppfærslu á henni. Vefsíðan er ekki síður málgagn félagsins en blaðið sem félagið gefur út. Ritarinn ætlar að yfirfara vefsíðuna og koma með tillögur um það sem má betur fara, hvaða efni er hægt að setja inn og fleira. 

5. EurAdopt
Ingibjörg J. og Ingibjörg B eru á leiðinni til Barcelona til að vera á aðalfundi EurAdopt. Ingibjörg B. var tilnefnd sem varamaður Ingibjargar í EurAdopt.

6. Heimsókn frá CCAA í apríl
Nú er komin dagsetning á komu sendinefndar frá CCAA til Íslands, alls 7 manns. Sendinefndin kemur senni part miðvikudagsins 19. apríl og fer snemma morguns laugardaginn 22. apríl. Þeir dvelja hér í boði félagins. Sendinefndir hefur óskað eftir því að hitta stjórn félagsins, starfsfólk í dómsmálaráðaneytinu og fjölskyldur með börn ættleidd frá Kína. Þar sem 20. apríl er sumardagurinn fyrsti þá verður sá dagur notaður í skoðunarferði og einnig er gert ráð fyrir boði fyrir fjölskyldur ættleiddra barna frá Kína. Föstudagurinn verður síðan notaður í fundarhöld. Guðrún ætlar að athuga hvort dómsmálaráðuneytið gæti haft fundinn á föstudagsmorguninn. Vegna komu sendinefndarinnar þarf að fá túlk þar sem fæstir þeirra tala annað tungumál en kínversku. Sá túlkur sem félagið hefur notað er því miður staddur í Kína á meðan á heimskókn sendinefndarinnar stendur og verður því að finna annan túlk. Finna þarf sal fyrir fjölslylduhitting með sendinefndinni en það getur reynst erfitt vegna þess að um fermingartíma er um að ræða. Ef ekki fæst salur á sumardaginn fyrsta verður fjölskylduhittingurinn að vera á föstudeginum.

7. Vinna á skrifstofu
Töluvert hefur borist af umsóknum um ættleiðingar það sem af er árinu. Vinna á skrifstofu hefur aukist töluvert vegna þessa. Gert er ráð fyrir að töluverð vinna verði við þessar umsóknir þegar forsamþykki fara að berast umsækjendum í vor og í sumar. Nauðsynlegt er að fá afleysingarstarfsmann á skrifstofuna, svo Guðrún og Fanney komist í sumarfrí. Ein umsókn um sumarstarf hefur borist frá einstaklingi sem þekkir vel til ættleiðinga. Skipuleggja þarf betur viðtalstíma vegna umsókna svo að önnur vinna á skrifstofunni truflist ekki. Æskilegt er að pantaður sé viðtalstími og með því móti hægt að útiloka truflanir á viðtalstímum en einnig hægt að minnka truflanir á annarri vinnu starfsmanna. Ljóst er að hefja þarf vinnu vegna næstu fjárlaga. Töluverð aukning hefur orðið á umsóknum og þ.a.l. er þörf á meira vinnuframlagi og æskilegt væri að ráða einn starfsmann til viðbótar á skrifstofuna. Það er ekki hægt nema fjárframlög til félagsins aukist.

Næsti fundur stjórnar var ákveðinn 10. apríl. Fleira ekki rætt og fundi slitið.

Arnþrúður Karlsdóttir 
Fundarritari.


Svæði