Fréttir

Þjónustusamningur í höfn

Kristinn, Ragnhildur og Hörður
Kristinn, Ragnhildur og Hörður

Þann þriðja desember síðastliðinn var undirritaður þjónustusamningur milli Innanríkisráðuneytisins og Íslenskrar ættleiðingar. Samningurinn tryggir fjármögnun félagsins til tveggja ára og gjörbreytir aðstöðu þess til að sinna þeim verkum sem því er ætlað samkvæmt lögum og reglugerðum.

Grundvöllur samningsins eru fjárlög sem samþykkt voru í desember í fyrra en eins og kunnugt er var félaginu orðin ógjörningur að starfa áfram við óbreyttar aðstæður. Þverpólitísk samstaða varð á Alþingi í fyrra um að standa betur að ættleiðingarmálum og voru þar þáverandi fjárlaganefndarmenn fremstir í flokki.

Daginn eftir samþykkt fjárlaga óskaði stjórn Íslenskrar ættleiðingar eftir viðræðum við Innanríkisráðuneytið um þjónustusamning en ljóst er að þó endurgjald ríkisins til ættleiðingarfélagsins meira en þrefaldaðist duga tekjur þess ekki til að sinna öllum lögboðnum verkefnum.

Núna ári síðar var skrifað undir þjónustsamning milli félagsins og ríkisins. Undir samninginn rituðu Hanna Birna Kristjánsdóttir ráðherra, Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri ÍÆ og Hörður Svavarsson formaður Íslenskrar ættleiðingar. Samningurinn fór að því búnu til fjármálaráðherra til samþykktar.

Fjárlög seinasta árs og þjónustusamningurinn marka tímamót í sögu ættleiðinga og hafa vakið athygli erlendis því með þessu bætta fyrirkomulagi eru fjármögnun og gæði ættleiðingastarfsins ekki lengur háð fjölda ættleiðinga. Þetta nýja íslenska fyrirkomulag, sem mörg systurfélög okkar horfa til af aðdáun, er til þess fallið að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og kann því að verða öðrum fyrirmynd.


Svæði