Ferill

Happy Child tekur við öllum umsóknum frá Íslandi, þýðir þær og sendir til dómsmálaráðuneytisins, sem heldur utan um allar erlendar umsóknir.

Þegar upplýsingar um barn berast, þýða Happy Child gögnin um barnið yfir á ensku og sendir til ÍÆ, auk einnar ljósmyndar af barninu. Ef þess er óskað, heimsækja þau barnið áður en kjörforeldrarnir koma í sína fyrstu ferð til Búlgaríu og safna saman auka upplýsingum um barnið, svo sem um heilsufar þess, og taka bæði myndir og myndbönd af barninu, sem þau áframsenda til ÍÆ. Þegar verðandi kjörforeldrar hafa samþykkt að ættleiða barnið og skrifað undir öll skjöl sem send hafa verið til Íslands, sér Happy Child um að koma þeim, sem og 17.gr.c yfirlýsingu Haagsamningsins um að ættleiðingin fari fram samkvæmt lögmálum hans, áfram til dómsmálaráðuneytisins í Búlgaríu í þeim tilgangi að fá skriflega staðfestingu frá dómsmálaráðherra um að ættleiðingin megi eiga sér stað.

Happy Child tekur svo á móti foreldrunum þegar þeir koma til Búlgaríu og er með þem alla þá fimm virku daga sem þeir hafa til að kynnast barninu í fyrri heimsókninni og sem á sér stað þar sem barnið býr, hvort sem er á barnaheimili eða hjá fósturfjölskyldu.

Þegar staðfestingin frá dómsmálaráðherra hefur borist, og eftir að foreldrarnir hafa hitt barnið í fimm virka daga, mætir starfsfólk Happy Child fyrir hönd foreldranna í Héraðsdómi Soffíuborgar. Það sér um að útvega og þýða úrskurð dómarans, nýtt fæðingarvottorð, alþjóðlegt vegabréf (börn sem ættleidd eru frá Búlgaríu halda búlgörskum ríkisborgararétti), og öll önnur skjöl sem nauðsynleg eru áður en barnið getur yfirgefið Búlgaríu og farið til Íslands.

Starfsfólk Happy Child sér svo um að taka á móti foreldrunum þegar þeir koma í seinni ferð sína til að sækja barnið. Þá er farið á barnaheimilið og þau fá barnið samdægurs til sín.

Starfsfólk Happy Child útvegar foreldrunum einnig viðtöl við lækna, lögfræðinga, sálfræðinga og aðra, ef þeir óska þess meðan þeir eru í Búlgaríu, en eingöngu eftir að hafa rætt um málið við ÍÆ og að fengnu leyfi hennar.

Svæði