Fréttir

Reynslusaga - ósköp venjuleg fjölskylda í Garðabænum. Eftir Aðalheiði Jónsdóttur

Í dag erum við bara ósköp venjulega fjölskylda í Garðabænum, hjón með tvö börn og hund. Okkar saga er kannski ekkert öðruvísi en margra annarra, nema við fórum krókaleið til að verða þessi venjulega fjölskylda. Við erum ótrúlega stolt af börnunum okkar og uppruna þeirra. Við erum líka stolt af okkur að hafa getað eignast þessi yndislegu börn. Börnin okkar eru Stefanía Carol fædd 2009 í Kólumbíu og Arnar Ze fæddur 2012 í Kína. 

Það er svo margt að una við, 
að elska, þrá og gleðjast við, 
jafnt orð, sem þögn og lit sem lag, 
jafnt langa nótt, sem bjartan dag. 
Mér fátt er kærra öðru eitt 
ég elska lífið djúpt og heitt, 
því allt, sem maður óskar, næst 
og allir draumar geta ræzt. 

Höf: Kristján frá Djúpalæk 

Fyrsta barn 
Það er ótrúlegt að í ár eru 10 ár síðan okkar samband hófst við Íslenska ættleiðingu. Það var í október 2007 sem við skiluðum inn umsókn um að ættleiða barn frá Kólumbíu. Á þessum tíma var biðtíminn um 18 mánuðir eftir barni frá Kólumbíu. Svo liðu 2 ár og við hreyfðumst lítið á biðlistanum og einu fréttirnar sem við fengum voru að hægst hafði á öllum ættleiðingum frá Kólumbíu. Biðin og óvissan var mjög erfið, og það var í raun lítið sem við gátum gert til að hafa áhrif á okkar stöðu.  

Það var 2010 sem við fengum að vita að hægt væri að óska eftir barni með skilgreindar þarfir og við ákváðum í samráði við Íslenska ættleiðingu að láta reyna á þann möguleika. Við skrifuðum bréf um hvað við treystum okkur í að takast á við og hvernig staða okkur væri til að hjálpa barni með skilgreindar þarfir. Við vorum fyrstu umsækjendurnir frá Íslandi til að kanna þessa leið í Kólumbíu og vorum við óörugg um hvernig ætti að vinna þetta. Við fengum bæði nýtt forsamþykki og nýja skýrslu frá Barnaverndarnefnd til að sýna fram á að við gætum tekist á við ákveðin veikindi/fatlanir með barninu.  

Mánuðir og ár liðu, ekkert heyrðist frá Kólumbíu. Einu fréttirnar voru hvernig við færðumst á venjulega listanum og var mjög lítil hreyfing. Árið 2012 fannst okkur staða okkur ansi aum og vonleysi var komið í okkur. Við vorum byrjuð að velta fyrir okkur hvort við ættum að færa umsóknina okkar í annað land eða sætta okkur við að vera barnlaus. Hugurinn er skrítið fyrirbæri og var maður farinn að trúa að okkur væri ætlað eitthvað annað.  

Símtalið 
Ég missti af símtali frá Íslenskri ættleiðingu kvöldið 30. maí 2012 og ég kippti mér ekkert upp við það þegar ég uppgötvaði það, þar sem ég átti ekki von á neinum fréttum. Ég ákvað að heyra í þeim daginn eftir og var hin rólegasta þegar ég fór að sofa. Guffi fór til Vestmannaeyja þetta kvöld til að vinna í húsinu sem við vorum nýbyrjuð að byggja þar.  

Svo var það eldsnemma 31. maí 2012 þegar síminn hringdi. Ég var nývöknuð og eiginlega smá hissa að Kristinn væri að hringja í mig svona snemma. Það var svo ótrúlegt að um leið og Kristinn spyr hvort það standi nokkuð illa á, þá fór hjartað á fullt og ég vissi að þetta var SÍMTALIÐ. Kristinn segir mér í stuttu máli frá stúlkunni sem biði okkar í Kólumbíu og var ákveðið að við myndum koma á skrifstofuna klukkan 14 og fá nánari upplýsingar um hana. Ég hringdi í Guffa um leið og ég hafði lagt á Kristin. Hann þurfti að henda öllu frá sér og koma strax í bæinn. Það var ekkert smá erfitt að bíða eftir Guffa, þannig að áður en ég vissi af var ég búin að hringja skælandi í pabba en vildi ekki trufla mömmu í vinnunni. Ég hringdi svo í vinkonu mína sem kom og sat hjá mér þangað til Guffi kom heim. Við mættum á skrifstofuna á réttum tíma og fengum upplýsingar um litla yndislega 3ja ára skottu og fengum að sjá mynd af henni. Við fengum líka að vita að hún er barn með skilgreindar þarfir. Við vissum strax að hún yrði okkar og ákváðum við að það kæmi ekkert í veg fyrir það. 

Fyrstu dagarnir á eftir símtalinu voru hálf skrítnir og áttum við erfitt með að átta okkur á næstu skrefum. Íslensk ættleiðing leiddi okkur áfram og Gestur barnalæknir var okkar stoð og stytta í að skilja og fara yfir allar læknaskýrslur. Við þvældumst um í einhverri þoku, sendum út allskonar pappíra til Kólumbíu, undirbjuggum komu litlu skottunnar og ferðalagið. Sumarið leið mjög hægt og var maður í mikilli óvissu allan tímann.  Það var svo um miðjan júlí sem allir pappírar voru klárir og við fengum dagsetningu um hvenær við gátum fengið elsku stelpuna okkar. Við áttum að fá hana þann 14. ágúst í Cali en vera mætt til Bógóta þann 12. ágúst. Þannig að það var drifið í að kaupa flugmiða, fá vegabréfsáritun og það var mikið stress að endurnýja þau gögn sem þurfti að endurnýja, láta þýða þau og stimpla þegar aðal sumarleyfistími Íslendinga var.  

Ferðalagið til Kólumbíu 
Við lögðum af stað föstudaginn 10. ágúst í ferðalagið sem breytti lífi okkar. Ferðalagið til Kólumbíu var langt en gekk vel og var tekið á móti okkur á flugvellinum í Bógóta. Við fórum beint á ættleiðingarhótel sem okkur var úthlutað af Olgu lögfræðingi og voru þar þrenn pör sem öll voru komin með börn. Við notuðum helgina í Bógóta til að kanna umhverfið og undirbúa næstu daga. Mánudaginn 13. ágúst hittum við Olgu lögfræðing og fór hún yfir alla pappíra sem við vorum með og seinnipartinn sama daga flugum við til Cali. Við hittum kólumbískan munk á flugvellinum í Bógóta sem hafði mikinn áhuga á okkur og reyndi hann að spjalla við okkur á ensku. Þegar við lentum svo í Cali þá vildi hann blessa okkur. Þannig að við komum til Cali með blessun frá munki.  

Cali er í suðurhluta Kólumbíu og er frekar heitt þar. Cali er talin ein af hættulegustu borgum heims, við vissum að við þurftum að fara varlega en ég var ekkert að segja foreldrum mínum það áður en við lögðum af stað. Við vorum alsæl með hótelið í Cali. Það var vel staðsett og mjög flott íbúðarhótel. Við vorum t.d. með 2 svefnherbergi og 3 baðherbergi í okkar íbúð. 

Þann 14. ágúst 2012 kl. 14:30 hittum við hjónin dóttur okkar, hana Stefaníu Carol í fyrsta skipti. Við fengum hana afhenta á skrifstofu ICBF eftir stuttan fund með ættleiðingayfirvöldum og lögfræðingnum okkar. Eftir fundinn var okkar vísað í lítið herbergi, þar sem búið var að stilla Stefaníu Carol upp á lítinn stól. Þegar ég sá hana byrjaði ég bara að gráta. Litla skinnið sat þarna alein í sínum fínustu fötum með krosslagðar hendur og leit niður þegar við komum inn. Ég fór til hennar og beygði mig niður, en þá leit hún undan. Svo var mér sagt  að ég yrði að taka hana upp, sem ég gerði og hún kúrði sig bara í hálsakotið hjá mér. Guð, það var svo yndislegt að fá hana í fangið og tilfinningarnar alveg að fara með mann. Hún hélt fast utan um mig og mér fannst eins og hún hafði líka verið búin að bíða eftir þessari stund. Guffi tók hana svo í fangið og hún gerði það sama við hann. Við fórum svo öll saman á hótelið og áttum rólega stund saman það sem eftir var dags. Við eiginlega störðum bara á hana til skiptist og trúðum varla að hún væri orðin okkar. 

Strax frá fyrsta degi okkar saman gekk allt ljómandi vel. Stefanía Carol borðaði vel, svaf og lék sér við okkur í rólegheitum. Þessi lita dama bræddi hjörtu okkar og eftir bara nokkra daga fannst mér eins og við hefðum alltaf átt hana. 

Við vorum viku í Cali og þegar ættleiðingaryfirvöld sáu að allt gekk vel fengum við leyfi til að ferðast innanlands. Við ákváðum að fara til Cartagena sem er í norður Kólumbíu við Karabískahafið og eyða þar nokkrum dögum með vinum okkar, Bjarnhildi, Friðriki og dætrum þeirra. Það gekk ótrúlega vel að fljúga með Stefaníu Carol frá Cali til Cartagena, hún var bæði rólega og góð. Henni fannst þetta nú allt bara mjög spennandi. 

Cartagena er æðislegur staður, vikan sem við eyddum þar var yndisleg og lífið lék við okkur. Þetta var mjög þægilegur sumarleyfisstaður með merkilegri sögu, góðum mat og yndislegu veðri. Lífið gat varla orðið betra! 

Lögfræðingurinn hafði samband við okkur þegar við vorum í Cartagena og lét vita að það væri kominn tími til að undirrita dóminn. Þannig að við flugum til Bógóta og fórum á fund með Olgu lögfræðingi. Guffi flaug svo einn til Cali þann 4. september og undirritaði dóminn. Þetta er dagurinn sem Stefanía Carol varð löglega dóttir okkar og fékk hún nafnið Stefanía Carol Kristmannsson/Jonsdottir. 

Það var frekar kalt í Bógóta og við lögðumst öll í flensu. Sem betur fer var ég með næstum heilt apótek með mér, þannig að við hristum þetta fljótt af okkur. Á meðan við biðum eftir vegabréfi og vegabréfsáritun fyrir Stefaníu Carol nutum við lífsins í Bógóta. Við lékum okkur bara mikið á ættleiðingarhótelinu og fórum í ýmsar skoðunarferðir til að búa til minningar fyrir okkur og dóttir okkar. Þegar vegabréfið og áritunin var klár, kvöddum við í raun lögfræðinginn okkar og bílstjóra. Við vildum fara af ættleiðingarhótelinu og fara á venjulegt hótel, til að vera meira útaf fyrir okkur. Ég missti aðeins þolinmæðina gagnvart öðrum síðustu dagana á ættleiðingarhótelinu og lét fara í taugarnar á mér að allir voru að tala spænku við Stefaníu Carol. Og að fólk tók hana upp en við skildum lítið af því sem við hana var sagt.  

Síðustu vikuna vorum við á lúxus hóteli í miðbænum og litla fjölskyldan naut sín í botn. Við fórum á helstu ferðamannastaði og leigðum okkur nýjan bílstjóra sem talaði mjög góða ensku og gat passað upp á að við myndum ekki missa af neinu. Það kom strax í ljós að Stefanía Carol finnst mjög gaman að ferðast og er algjör draumur að ferðast með. Við yfirgáfum Bógóta 25. september eftir frábæra 6 vikna dvöl. Þetta ferðalag er ógleymanlegt og gekk allt upp hjá okkur. Við verðum Kólumbíu ávallt þakklát fyrir það sem þeir gáfu okkur

Það gekk allt vel eftir að við komum heim með Stefaníu Carol og reyndum við að halda ákveðinni rútínu. Ég verð nú að viðurkenna að mér fannst mikil viðbrigði að koma heim og hafa um eitthvað annað að hugsa en sjálfa mig. Auðvitað lentum við ýmsu með Stefaníu Carol og var hún ekki alltaf sátt við okkur. Þar sem henni gekk illa að tjá sig þá var stundum ullað og frussað á foreldrana og í versta falli sló hún til okkar. Með tímanum fattaði hún að það virkaði ekki á okkur, þannig að hún hætti þessum ósiðum. 



Annað barn 
Nokkrum mánuðum eftir að við komum heim fórum við að ræða hvort okkur langaði að láta reyna á að eignast annað barn. Það var svo vorið 2013 sem við ákváðum að ættleiða annað barn. Það voru nú ekki margir möguleikar í stöðunni fyrir okkur, þar sem búið var að loka á nýjar umsóknir í Kólumbíu og við hjónin ekkert að yngjast. Fyrir valinu varð SN listinn í Kína (börn með skilgreindar þarfir). Forsamþykkið kom í lok október 2013 eða rúmu ári eftir að við komum heim með Stefaníu Carol og umsóknin var samþykkt í Kína þann 27. nóvember 2013. Þannig að formleg bið eftir öðrum gullmola var hafin.  

Þetta ferli er allt öðruvísi en ferlið í Kólumbíu. Á heimasíðu Íslenskrar ættleiðingar (www.isadopt.is) stendur: „Á læstri vefsíðu CCCWA eru upplýsingar um börnin sem eru með skilgreindar þarfir og eru laus til ættleiðingar. Reglulega eru upplýsingar á vefsíðunni uppfærðar og er Íslenskri ættleiðingu tilkynnt um það með góðum fyrirvara. Starfsmenn félagsins kynna sér upplýsingarnar um börnin og upplýsingarnar af gátlistanum sem umsækjendur fylltu út. Ef næst að para barn við umsækjendur eru læknisfræðilegar upplýsingar bornar undir lækni, sem gefur álit sitt. Upplýsingarnar eru kynntar umsækjendum og þeir fá tækifæri til að ráðfæra sig við lækninn“ 

Símtalið 
Við fengum gleðilegt símtal þann 21. janúar og okkur sagt að búið væri að finna handa okkur litla stúlku. Við fórum og fengum upplýsingar um hana. Allar skýrslur litu mjög vel út samkvæmt Gesti barnalækni. Stúlkan var með alskarð, það er skarð í vör og klofin góm. Gestur var búin að hafa samband við lýtalækni sem ætlaði að sinna henni þegar við kæmum heim með hana. Gestur ráðlagði okkur að óska eftir viðbótagögnum meðan við biðum eftir henni, sem við gerðum. Við hófum allan undirbúning  og vorum að missa okkur úr spenningi. Þegar viðbótagögnin komu í lok febrúar urðum við fyrir áfalli. Litla stúlkan sem beið okkar í Kína var alvarlega líkamlega fötluð og einhverf. Eftir samtöl við sérfræðinga ákváðum við að fara eftir þeirra ráðleggingum og hætta við ættleiðinguna. Þetta er ein erfiðasta ákvörðun sem við höfum tekið! 

Í byrjun maí vorum við pöruð við dreng sem var blindur á öðru auga, vegna meðfæddrar gláku. Guffi neitaði að sjá mynd af honum þar til viðbótargögn væru komin, en ég sá myndina af þessum litla dreng. Þegar viðbótargögnin komu og eftir samtal við Gest lækni var ákveðið að við skyldum ekki ættleiða þennan dreng. 

Svo kom símtalið 27. maí og þá búið að para okkur við 2ja ára kraftmikinn dreng með lítinn meðfæddan hjartagalla. Skýrslan hans var mjög flott og Gestur læknir sagði okkur að þetta yrði drengurinn okkar. Allt gerðist mjög hratt á næstu dögum. Þann 2. júní hringdi Kristinn hjá Íslenskri ættleiðingu í okkur og sagði að LOA (opinbert samþykki fyrir ættleiðingunni) væri komið og 3. júní hringdi Ragnheiður hjá Íslenskri ættleiðingu í okkur og lét okkur vita að ferðagögnin væru komin. Við vissum ekki alveg hvernig átti að bregðast við þessum hraða og vorum við eiginlega bara í hálfgerðu losti yfir þessu.  

Litla drenginn okkar áttum við að fá, í Changsha í suðurhluta Kína, þann 7. júlí aðeins rúmum fimm vikum eftir að við fengum símtalið um hann. En við áttum að vera mætt til Peking 2. júlí.  Þannig að við höfðum stuttan tíma til að klára pappíra, fá vegabréfsáritun og panta flug. Það var strax ákveðið að Stefanía Carol myndi koma með okkur út að sækja litla bróður og reyndist það mjög góð ákvörðun. Við ákváðum að litli drengurinn okkar ætti að heita Arnar Ze. 

Ferðalagið til Kína 
Ferðalagið til Kína var langt, en gekk ótrúlega vel. Stefanía Carol stóð sig mjög vel og var algjör lúxus hjá henni í fluginu að fá t.d. að horfa á tvær teiknimyndir í röð. Við foreldrarnir vorum bara brött en rosalega spennt. Við lentum í Peking snemma dags 2. júlí í fínasta veðri en ógeðslegri mengun.  

Næstu daga vorum við í skipulögðum skoðunarferðum og sáum t.d. silkiverksmiðju, Himna hofið (Temple of Heaven), Kínamúrinn og Forboðnu borgina. Við reyndum líka að borða eins mikinn týpískan kínverskan mat eins og við treystum okkur til. Það var alveg magnað að skoða þessa staði og gekk þetta allt vel með Stefaníu Carol. Við Stefanía Carol vorum ótrúlega stoltar að fara 1000 þrep á Kínamúrnum, en Guffi gekk alveg upp. Ég bar reyndar Stefaníu Carol á bakinu niður múrinn sem var frekar erfitt í yfir 30 stiga hita. Sumir voru montnari en aðrir eftir ferðina á múrinn. Mér  fannst mjög óþægilegt að fólk væri að grípa í Stefaníu Carol og reyna að taka myndir af henni í þessum skoðunarferðum. 

Við flugum til Changsha 6. júlí og gekk flugferðin vel. Í Changsha var enn þá heitara en í Peking og rakinn þar yfir 95%. Þannig að maður var alltaf sveittur og klístraður. Við vorum á stóru og flottu hóteli og var herbergið okkar á 30 hæð. Þar voru bæði nokkur pör að sækja börn og svo voru heilu hóparnir í upprunaferðum með unglingana sína. Það var mjög áhugavert að fylgjast með og ræða við aðra sem voru í svipuðum erindagjörðum og við.  

Þegar  stóri dagurinn kom, þann 7. júlí 2014 vorum við öll þrjú mjög spennt. Dagurinn var mjög erfiður en líka yndislegur. Við klæddum okkur í fínustu fötin okkar og vorum mætt á skrifstofuna með farastjóranum okkar klukkan 10:30 um morguninn.  

Nokkrar fjölskyldur voru mættar til að sækja sín börn og fylgdust við með þeim með tárin í augunum. Ekkert bólaði á Arnari Ze og var farið að kanna með hann. Okkur var svo sagt að bíllinn sem átti að flytja hann hafði bilað á miðri leið og var snúið til baka  á barnaheimilið. Við urðum nú smá stressuð yfir þessu en okkur var sagt að það yrði komið með hann á hótelið klukkan 17:00. Um klukkan 17 var hringt í okkur og sagt að hann kæmi klukkan 17:30. Litli maðurinn kom svo um klukkan 17:40  og var hann búin að æla yfir sig allan. Hann hafði ælt 5 sinnum á leiðinni. Starfsmaðurinn sem kom með hann reif hann úr öllum fötunum og baðaði hann og var Arnar Ze mjög ósáttur og grét mikið. Síðan fékk ég hann í fangið og var hann mjög stífur. Honum leist ekkert á okkur í byrjun. Þetta voru ekki alveg aðstæðurnar sem maður óskaði eftir.  

Hann var fljótur að jafna sig og Stefanía Carol var mjög dugleg að leika við hann. Hann var greinilega var um sig. Hann borðaði sæmilega og drakk vel. Svo kom læknir að kíkja á hann og kom þá í ljós að Arnar er með bullandi hálsbólgu og hita, og fékk hann lyf hjá lækninum.  Um kvöldið gafst hann síðan upp og steinsofnaði í fanginu á mér. Hann svaf í fanginu á mér í langan tíma og svo lagði ég hann við hliðina á systur sinni og sváfu börnin bæði mjög vært þessa nótt á milli okkar hjónanna. 

Fyrstu tveir dagarnir með Arnari Ze voru frekar erfiðir. Arnar litli var alveg inni í sér. Hann varð greinilega fyrir miklu sjokki og ofan á allt annað lasinn. Fyrstu dagana sýndi hann nánast engin svipbrigði og vildi varla líta á okkur. Ef við réttum honum eitthvað þá tók hann ekki við því. Hann drakk, borðaði og svaf vel þannig að við höfðum svo sem litlar áhyggjur af honum. Í litlum skrefum byrjaði hann svo að nálgast okkur og þá sérstaklega systur sína. Svo áður en við yfirgáfum Changsha var hann orðinn hinn hressasti og ótrúlega kraftmikill gaur.  

Það var erfitt að vera i Changsha þar sem hitinn var alltaf um og yfir 40 gráður og gat maður lítið farið út með börnin. Flestir tala nánast enga ensku og vorum við glöð hafa mjög góðan farastjóra okkur til halds og traust. Við vorum frekar fegin þegar öll gögn og vegbréfið hans var tilbúið og við gátum farið aftur til Peking. 

Við fórum til baka til Peking 12. júlí og lentum við bæði í miklum töfum og ókyrrð í loftinu. Börnin stóðu sig mjög vel en við foreldrarnir voru með smá hnút í maganum. Það var mjög gott að koma aftur til Peking og er sú borg miklu vestrænni en Changsha. Stefanía Carol rauk upp í 40 stiga hita um kvöldið og var ansi slöpp. Daginn eftir var hún hressari en við héldum henni inni. Guffi var með henni á hótelinu, á meðan ég og Arnar Ze skelltum okkur í skoðunarferðir með farastjóranum okkar.  

Síðustu dagarnir voru ljúfir í Peking og nýttum við tímann vel saman. Við skoðuðum okkur um, versluðum og lékum okkur. Við flugum heim þann 15. júlí og var svo gott að koma heim í kuldann eftir ansi heita, erfiða en yndislega daga í Kína. 

Þegar heim var komið var Arnar Ze fljótur að aðlagast öllu. Hann fékk fína skoðun hjá Gesti lækni.  Sem sendi hann til hjartalæknis þar sem hann átti að vera með meðfæddan hjartagalla. Hjartalæknirinn gerði allskonar rannsóknir á Arnari Ze og kom í ljós að það var ekkert að hjartanu hans, hann væri heilbrigður og flottur strákur.  

Að lokum…… 

Við ákváðum að börnin skyldu halda hluta af sínum uppruna nöfnum, en það er bara af því að okkur fannst það passa vel. Það er ekki eitthvað sem maður þarf að gera eða er nauðsynlegt. Við notuðum þeirra uppruna nöfn alltaf með fyrst, en núna eru þau oftast kölluð bara Stefanía og Arnar. 

Það verður ekkert þriðja barn. Við teljum okkur mjög heppin að hafa náð að eignast þessi tvö sem við eigum. Þau eru fullkomin eins og þau eru, en þau er alls ekki gallalaus frekar en önnur börn. Í okkar fjölskyldu er bara eðlilegt að við eigum öll mismunandi fæðingarstaði. Við tölum um að mamman sé frá Akranesi, pabbinn frá Vestmannaeyjum, Stefanía Carol frá Kólumbíu og Arnar Ze frá Kína. Við erum öll stolt af þeim stöðum sem við komum frá.  

Þau er mjög ólík, bæði í útliti og skapgerð. Það hefur ekkert að gera með að þau komi frá sitthvoru landinu. Það er bara eðlilegt fyrir þeim að koma frá sitthvoru landinu og í dag skiptir það þau engu máli. En maður veit ekki hvort það muni gera það þegar þau eldast. Arnar Ze er meira upptekinn af því að hann er ættleiddur og sé frá Kína, en Stefanía Carol spáir lítið í það. Hún er bara 7 ára stelpa í Hofsstaðarskóla og heldur með Stjörnunni.


Svæði