Fréttir

Aðalfundi NAC lokið

Aðalfundi NAC (Nordic Adoption Council) er lokið en hann var haldinn á Grand hótel í Reykjavík dagana 4. og 5. september. Íslendingar eiga aðild að samtökunum með þátttöku Íslenskrar ættleiðingar að félagsskapnum.

Fulltrúi Íslenskrar ættleiðingar á fundum NAC er Margrét Rósa Kristjánsdóttir stjórnarmaður í Íslenskri ættleiðingu og á seinasta stjórnarfundi Í.Æ. var Kristinn Ingvarsson kjörinn varamaður Margrétar. Kristinn á sæti í stjórn Alþjóðlegrar ættleiðingar og hagsmunanefnd Foreldrafélags ættleiddra barna og hefur því töluverða reynslu af að vinna að málefnum ættleiðinga. Þau Margrét og Kristinn sátu bæði aðalfundinn.

Í tengslum við aðalfund NAC var haldin opin dagskrá eða ráðstefna sem var einkar fjölsótt og sú fjölmennasta sem NAC hefur staðið fyrir frá upphafi. Þess ber að geta að af rausnarskap ákvað stjórn NAC að lækka verulega ráðstefnugjöld til félaga í Íslenskri ættleiðingu og ræður sú ákvörðun örugglega mestu um að margir Íslenskir kjörforeldrar gátu tekið þátt í ráðstefnunni.

Haft var á orði að ráðstefnan í ár hafi verið einstaklega vel skipulögð og eru það orð að sönnu. Ingibjörg Birgisdóttir hefur sinnt skipulagningu þessa verkefnis af sóma, en hún tók það að sér í tíð fyrri stjórnar Í.Æ. þar sem hún var varaformaður. Hún ásamt Ole Bergmann og Sten Juul Petersen eiga veg og vanda að verkefninu en á seinustu metrunum lagði PAS nefnd Í.Æ. nótt við nýtan dag til að hnýta seinustu lausu endana. Verður þeim seint fullþakkað.

Á vef Alþjóðlegrar ættleiðingar er stutt yfirlit yfir báða ráðstefnudagana. Hér er sagt frá því sem á föstudaginn dreif. Og hér er umfjöllun um laugardaginn.


Svæði