Skilyrði fyrir forsamþykki

Það eru ákveðin skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla til að fá forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni samþykkt. Hér að neðan eru þau helstu:

Heilsufar
Umsækjendur skulu vera svo andlega og líkamlega heilsuhraustir að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að ættleiðing verði barni fyrir bestu. Því mega umsækjendur ekki vera haldnir sjúkdómi eða þannig á sig komnir að það dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma þar til barn verður lögráða, eða minnki möguleika þeirra til að annast vel um barn.

Sambúðartími
Þegar hjón leggja fram umsókn um ættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni og skulu þau þá sannanlega hafa verið í samfelldri sambúð í a.m.k. tvö ár.

Þegar einstaklingar í skráðri sambúð leggja fram umsókn um frumættleiðingu eða um for­samþykki til ættleiðingar á erlendu barni skulu þau sannanlega hafa verið í samfelldri sambúð í a.m.k. fimm ár.

Aldur umsækjenda
Umsækjendur á aldrinum 25 til 50 ára geta sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára og/eða barn eldra en 5 ára. Miðast hámarksaldurinn við þann umsækjanda sem eldri er. Forsamþykki fyrir því að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára fellur úr gildi þegar sá umsækjandi sem eldri er nær 51 árs aldri.

Umsækjendur á aldrinum 51 til 55 ára geta sótt um forsamþykki fyrir því að ættleiða barn eldra en 5 ára. Miðast hámarksaldurinn við þann umsækjanda sem eldri er. Forsamþykki fyrir því að ætt­leiða barn sem er eldra en 5 ára fellur úr gildi þegar sá umsækjandi sem eldri er nær 56 ára aldri.

Önnur skilyrði
Umsækjendur skulu búa í fullnægjandi húsnæði og hafa yfir að ráða öðrum aðbúnaði til þess að geta veitt barni þroskavænleg uppeldisskilyrði.

Efnahagur umsækjenda skal vera traustur.

Umsækjendur mega ekki hafa hlotið refsidóm sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að veita barni gott uppeldi.

 

Svæði