Ferill Tékkland

Stuttur tími líður frá því að upplýsingar um barn berast og þar til foreldrarnir fara út til að sækja það, eða um 2-8 vikur. Dvöl í Tékklandi er um 8 vikur, en árið 2017 lengdist dvölin í Tékklandi vegna reglugerðarbreytinga. Áður var ákvörðun um að barn fari í fóstur tekin af starfsfólki UMPOD en nú er ákvörðunin í höndum dómstóla.

Áður byrjaði ferðin á heimsókn til ættleiðingaryfirvalda í Brno (núllfundur) en í dag fer þessi fundur fram rafrænt á skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar. Umsækjendur geta því ferðast beint í héraðið sem barnaheimilið er í stað þess að fara fyrst til Brno. Umsækjendur fara á "fyrsta fund" á barnaheimilinu þar sem þeir byrja á að hitta starfsfólk barnaheimilis, lögfræðing, sálfræðing og svo kemur loksins að því að hitta barnið. Yfirleitt dvelja foreldrar í íbúð á meðan á dvöl stendur, en á sumum barnaheimilum er lítil íbúð þar sem hægt er að dvelja fyrstu vikurnar. Á barnaheimilinu fer fram aðlögun og tíminn sem foreldrar fá að hitta barnið eykst hægt og rólega þar til starfsfólk barnaheimilis metur að barnið sé tilbúið að fara alveg til foreldra. Eftir um 2 vikur fer fram "annar fundur" sem fer fram í íbúð foreldra og þegar foreldrar fá leyfi er farið til Brno þar sem er dvalið í um 6 vikur á meðan málið fer fyrir dóm. Í Brno þarf að fara með barnið til að fá vegabréf og skrifa undir samning varðandi fóstur. Fyrst þá mega foreldrarnir fara úr landi með barnið.

Ættleiðingin fer ekki fram í Tékklandi, heldur eftir að barnið er komið til foreldra sinna á Íslandi. Sækja má um ættleiðingu eftir að þriðja skýrslan hefur verið send til yfirvalda í Tékklandi og fjölskyldan hefur verið saman í sex mánuði á Íslandi. Því getur liðið um ár þangað til að endanlega er gengið frá ættleiðingu og réttaráhrif staðfest á Íslandi.

Svæði