Sagan

Íslensk ættleiðing - 20 ára.

Saga og svipmyndir

Þessi grein birtist í afmælisriti félagsins í tilefni 20 ára afmælis félagsins.

Saga félagsskapar um ættleiðingu barna erlendis frá hófst fyrir tuttugu árum. Á þessum árum hafa margir komið að málum og lagt hönd á plóg. Til að varpa ljósi á sögu íslenskrar ættleiðingar var leitað í smiðju nokkurra valinkunnra einstaklinga sem unnið hafa að málefnum félagsins á mismunandi tímabilum.

Gylfi Már Guðjónsson minnist þess þegar félagið Ísland - Kórea var starfandi.

Hugmyndin var að treysta tengslin við Kóreu

Fyrir rúmlega 20 árum var stofnað í Norræna húsinu í Reykjavík, félag sem nefndist Ísland_kórea. Stofnendur þess voru foreldrar barna, sem ættleidd höfðu verið frá Suður-Kóreu og hjón, sem sótt höfðu um börn þaðan til ættleiðingar. Tilgangurinn var að treysta tengslin við þá aðila sem aðstoðuðu Íslendinga við að ættleiða kóresk börn og auka þekkingu og samskipti við landið. Einnig var markmiðið að stuðla að kynnum íslensku fjölskyldnanna og skapa sameiginlegan vettvang fyrir þær að vinna á.

Fundurinn var vel sóttur og mikil bjartsýni ríkjandi. Í stjórnina voru kosin Gylfi Már Guðjónsson formaður, Ágústa Bárðardóttir ritari og Ástrún heitin Jónsdóttir gjaldkeri. Ættleiðingarnar fóru fram með hjálp norskra samtaka, sem nefndust þá Nors Koreaforening, síðar Verdens Barn. Íslendingar höfðu þá um nokkurt árabil ættleitt börn frá Kóreu, langflest þó á árinu 1977. Samtals munu hafa verið ættleitt á þriðja tug barna þaðan. Um það leyti sem félagið var stofnað kom afturkippur í ættleiðingarnar til Íslands, þótt þær gengju áfram snuðrulaust til Noregs. Lengi vel var álitið að þarna væri um einhvern misskilnin að ræða og var lögð mikil vinna í bréfaskriftir og samtöl, innanlands og utan, til að koma málinu af stað aftur.Allt kom þó fyrir ekki og að lokum varð ljós tað ekki væri að vænta frekari ættleiðinga frá Kóreu.

Þá var farið að huga að því hvort hægt væri að fá börn annars staðar frá en ljóst að það gæti reynst torvelt. Ekki þótti vænlegt að félag sem héti Ísland-Kórea stæði fyrir slíkri eftirgrennslan og varð fljótlega ljóst að nýtt félag eða nýtt nafn á félagið yrði að koma til. Mörgum stofnendum Íslands_Kóreu var sárt um félagið og nafn þess og vildu ógjarna að það yrði lagt af. Niðurstaðan varð sú að Ísland-Kórea var ekki lögð formlega niður heldur sett til hliðar, ef svo má segja. Hugmyndin var sú að ef aðstæður breyttust og þörf væri á, gæti félagið komið fyrirvaralaust fram í dagsljósið á nýjan leik. Nýja félagið var svo stofnað til hliðar við Ísland-Kóreu, með sömu stjórn, og yfirtók það rýra sjóði og enn minni eignir þess félags.

Eitt af því sem huga þurfti að við stofnun nýja félagsins var nafnið. Ýmsar hugmyndir voru uppi um það, flestar heldur löng og ekki ýkja sepnnandi nöfn. Mjög ofarlega á baugi var að láta það heita "Foreldrafélag ættleiddra barna". Sem betur fer náðist samstaða um nafnið "Íslensk ættleiðing" og gerði þar að líkindum gæfumuninn álit löggilts dómtúlks og skjálaþýðanda sem leitað var til.

Eins og ætla mátti var ekki auðhlaupið að því að koma á nýjum ættleiðingarsamböndum. Einstaka hjónum tókst meðmiklum dugnaði að fá börn héðan og þaðan til ættleiðingar, en ekki tókst að mynda nein formleg sambönd.Eftir nokkra eftirgrennslan komst félagið í samband við mann í Danmörku og fékk jafnframt jákvæða umsögn frá kunnugum, um að óhætt væri að treysta honum í þessum efnum. Hann taldi allar líkur á að auðvelt myndi verða að fá börn frá eyjunni Mauritius á Indlandshafi til ættleiðingar og bauðst til að hafa milligöngu um það. Einn félaga okkar, sem dvaldist í Danmörku um eins árs skeið, tók að sér að hafa samband við manninn og það gerði hann svikalaust. En tíminn leið og ekkert bólaði á börnunum , þrátt fyrir góð orð mannsins. Loks kom aþar að sýnt þótti að ekki væri mikið á þessum manni að byggja go ekki að vænta neins árangurs úr þeirri áttinni. Það voru vissulega nokkur vonbrigði, enda voru aðrar lausnir ekki í sjónmáli á þeim tíma. Fljótlega fóru þó að berast fréttir af fólki, sem tekist hafði að komast í sambönd í Guatemala, þau sambönd áttu síðar eftir að reynast heilladrjúg fyrir félagsfólk Íslenskrar ættleiðingar. Það er þó annarra en mín að segja frá því hvernig þau mál gengu fyrir sig, þar sem ég hætti formennsku í félaginu um svipað leyti.

Tildrög þessara skrifa minna eru þau, að núverandi formaður íslenskrar ættleiðingar hafði samband við mig nýverið og fór þess á leit, að í tilefni tuttugu ára afmælis félagsins, tæki ég saman nokkra punkta um tilurð félagsins og fyrstu spor þess. Ég hafði engin gögn við hendina og varð því eingöngu að byggja á brigðulu minni mínu. Þess vegna vil ég að það komi skýrt fram að hér er engin sagnfræði á ferðinni, heldur er sagan rakin eins og ég man hana í stórum dráttum.

Þrátt fyrir að nú sé liðið vel á annan tug ára frá því að ég hætti afskiptum af Íslenskri ættleiðingu, hef ég enn taugar til félagsins og legg jafnan við eyru ef á það er minnst í fjölmiðlum. Ég eins og allir aðrir stofnfélagar þess, hlýt að fagna hverjum merkum áfanga í lífi þessa kjörbarns okkar og óska því og félögum þess allra heilla á þessum tímamótum.

Gylfi Már Guðjónsson.

Svæði