Íslensk ættleiðing fékk löggildingu til að annast milligöngu ættleiðinga frá Tékklandi 2004.
Miðstjórnvald Tékklands er Úrad pro mezinárodne právní ochranu detí (UMPOD).
Tékkland er aðili að Haagsamningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993.
Alls hafa verið ættleidd 51 börn með milligöngu félagsins frá Tékklandi.
6 umsóknir hafa verið samþykktar af UMPOD og bíða afgreiðslu
1 umsókn er til skoðunar og bíður samþykkis.
UMPOD sinnir um 40 til 60 ættleiðingum á ári hverju, en erfitt er að meta hversu langur biðtími er á biðlista eftir að umsókn er samþykkt. UMPOD leggur mikla vinnu í meta hverja umsókn og leggur mikinn metnað í að velja hentugustu umsækjendurna til að para við tiltekið barn. Þessi pörun er gerð með hagsmuni barnsins að leiðarljósi og þar sem börnin eru jafn ólík og þau eru mörg og það sama á við umsækjendur hverju sinni, er erfitt að meta hversu langur biðtíminn getur orðið. Samkvæmt upplýsingum frá UMPOD er meðal biðtíminn um tvö ár.
Aðferðafræði við alþjóðlegar ættleiðingar frá Tékklandi
Börnin koma flest af ríkisreknum barnaheimilum víðsvegar um landið, en á síðastliðinum misserum er börnum sem hafa verið í fóstri að fjölga. Börnin eru oftast milli tveggja og fjögurra ára gömul en yngstu börnin sem hafa komið til Íslands voru um eins árs gömul en þau elstu um átta ára. Hægt að sækja um ættleiðingu eldri barna upp að 10 ára. Flest eru þau af uppruna Roma fólks og algengara er að drengir séu ættleiddir úr landi.
Tékkland er ekki stórt ættleiðingarland en síðastliðin ár hafa tiltölulega fá börn verið ættleidd frá landinu, en að sama skapi eru fáar umsóknir þar. Um áttatíu umsóknir, þar af 10 frá íslenskum fjölskyldum bíða afgreiðslu hjá ættleiðingaryfirvöldum í Brno, en fjöldi ættleiðinga frá Tékklandi voru 36 árið 2010, 41 árið 2011, 46 árið 2012 og 57 árið 2013.
Læknisvottorð og aðrar upplýsingar sem væntanlegir foreldrar fá eru ítarlegar. Börn með miklar þroskatruflanir eða fatlanir eru yfirleitt ekki ættleidd. Hægt er að sækja um systkini, enda leggja Tékkar mikið upp úr því að systkini fái að vera saman á nýjum heimilum, og getur verið að slík umsókn gangi hraðar fyrir sig en umsókn um eitt barn. Það sama á við um umsóknir um eldri börn. Dæmi eru um að haft sé samband við fjölskyldu sem hefur ættleitt barn frá Tékklandi ef systkini þess þurfa einnig á nýjum foreldrum að halda.
Hér má sjá biðtíma frá því að umsókn er samþykkt af miðstjórnvaldi Tékklands og þar til að upplýsingar bárust um að búið væri að para umsækjendur við barn. Biðtíminn er mældur í dögum. Biðtími hefur verið mislangur hjá fjölskyldunum frá 7 vikum og uppí 3,8 ár.