Fyrstu skrefin

Öll sem uppfylla skilyrði íslenskra stjórnvalda eiga kost á að sækja um að ættleiða barn eða börn, sama hvort um sé að ræða umsækjendur sem eru einhleypir, fólk í sambúð eða hjón, óháð kynhneigð.

Öll tilheyrum við fjölskyldum og á vissu æviskeiði þrá flestir að eignast barn eða börn. Flóra fólks er margvísleg sem og aðstæður, hugsanaháttur og viðhorf þess.  Algengast er að umsækjendur um ættleiðingu séu tveir, stundum eru þeir af sama kyni og stundum eru þeir einhleypir.  Umsækjendur geta verið íslenskir, annar íslenskur og hinn af erlendu bergi brotin eða báðir erlendir með lögheimili á Íslandi. 

Flestir umsækjendanna glíma við barnleysi, en aðrir eiga barn eða börn fyrir eða velja ættleiðingaleiðina óháð getunni til að eignast barn. Áætlað er að um 15% para stríði við barnleysi. Ýmsar leiðir eru til staðar fyrir þennan hóp s.s. læknisfræðilegar meðferðir, taka börn í fóstur og ættleiðingar. 

Alltaf er gert ráð fyrir að ættleiðingarferlið taki mið af þörfum barnsins enda eru lög og reglugerðir í samræmi við það. Þetta á einnig við um þá alþjóðlegu sáttmála sem Ísland hefur skrifað undir og staðfest, s.s. Haagsamningurinn um vernd barna og sam­vinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og mannréttindi barna.

Upprunalönd barnanna eru síðan með sínar viðmiðanir varðandi umsækjendur, sem geta verið mismunandi innbyrgðis og frábrugnar þeim kröfum sem íslensk stjórnvöld gera.

Áherslan er alltaf á að ættleiðingin sé barni fyrir bestu. Helstu kröfurnar sem eru gerðar til umsækjenda eru þær að grunnstoðir fjölskyldunnar séu tryggar og bjóði barninu uppá möguleikann til að þroskast og dafna við góðar aðstæður. Líkamleg og andleg heilsa umsækjenda þarf að vera í lagi, fjárhagur þarf að vera traustur og umsækjendur þurfa að búa í fullnægjandi húsnæði svo dæmi séu nefnd.

Ættleiðingar eru valkostur fyrir þig sem vilt eignast barn, óháð barnleysi eða barneignum.  Ef þú ert að hugleiða ættleiðingar og vilt afla þér frekari upplýsinga, hikaðu þá ekki við að hafa samband við okkur í síma 588-1480 eða isadopt@isadopt.is

Einnig er hægt er að panta viðtal hér:

Svæði