Ættleiddir í kastljósinu á Diwali hátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur
Indverska sendiráðið í samvinnu við samtök Indverja á Íslandi hélt uppá ljósahátíðina með miklum glæsibrag í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Að þessu sinni var hátíðin tvískipt, annars vegar lagði sendiherrann áherslu á tengingu við þá sem eru ættleiddir frá Indlandi til Íslands og hins vegar á hefðbundin hátíðarhöld tendum ljósahátíðinni.
Sendiherra Indlands Shri B. Shyam setti hátíðina bauð framkvæmdastjóra Íslenskrar ættleiðingar, Kristinn Ingvarsson og formann félagsins Elísabetu Hrund Salvarsdóttur sérstaklega velkomin.
Sendiherran bauð ættleiddum að deila með samkomunni upplfiun sinni og reynslu af Indlandi og Íslandi. Hann bað einnig framkvæmdastjóra félagsins að segja nokkur orð um hvað ættleiðingar frá Indlandi til Íslands hafa haft á samfélagið.
Kristinn fór fögrum orðum um hversu dásamleg viðbót við íslenskt samfélag þessi börn hafa verið og fór stuttlega yfir samband félagsins við ISRC á Indlandi.
Ljósahátíðin var svo formlega sett með því að kveikja á fallegum olíulampa og voru fengnar til verksins fimm konur, þar á meðal Elísabet Hrund og sendiherrafrúin.
Hófst þá glæsileg dagskrá þar sem hæfileikar indverska samfélagsins á Íslandi fengu að njóta sín. Dans, söngur, leiklist og tískusýning, ekkert til sparað og skemmtu hátíðargestir sér konunglega.
Hátíðin endaði svo með glæsilegri veislu þar sem boðið var uppá guðdómlega rétti frá Indlandi og samveru við frábært fólk.