Fréttir

RUV - Ættleiðingarskrifstofa svipt starfsleyfi

Munaðarlaus börn bíða ættleiðingar. Mynd AP Images
Munaðarlaus börn bíða ættleiðingar. Mynd AP Images

Fyrst birt: 10.01.2014 13:13, Síðast uppfært: 10.01.2014 13:17

Flokkar: EvrópaErlent
 
 Stjórnvöld í Danmörku hafa ákveðið að svipta AC Børnehjælp, aðra af tveimur viðurkenndum ættleiðingarskrifstofum landsins, starfsleyfi tímabundið vegna óreiðu í fjármálum. Á fimmta hundrað umsækjenda bíða í óvissu um hvort þeir fá að ættleiða barn.

Sjónvarpsstöðin TV2 greindi fyrst frá málinu. Í frétt hennar frá því í morgun kemur fram að danska félagsmálaráðuneytið hafi ákveðið að svipta AC Børnehjælp starfsleyfinu eftir að rannsókn leiddi í ljós að verulegir ágallar væru á fjárreiðum skrifstofunnar. Stóran hluta ársins 2012 var kostnaður ekki færður til bókar og í skjóli þess tókst starfsmanni að draga sér jafnvirði tíu milljóna íslenskra króna. Það fé átti að nota til þróunarverkefna í samstarfslöndunum.

Í rannsóknarskýrslunni eru jafnframt rakin dæmi um einkennilega starfshætti skrifstofunnar. Þannig var umsækjendum um ættleiðingar frá Kólumbíu boðið að undirrita yfirlýsingu um að þeir vildu taka að sér þeldökkt barn, en slíkt brýtur í bága við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt frétt Jyllandsposten.

AC Børnehjælp hefur verið gefinn frestur til 22. janúar til að gera fullnægjandi grein fyrir fjárreiðum sínum. Þá verður tekin ákvörðun um hvort skrifstofan verði svipt starfsleyfinu til frambúðar. Í bili er því óvíst hvað verður um umsóknir yfir fjögur hundruð para og einstaklinga sem bíða eftir að fá að ættleiða barn.

Í fyrra stöðvuðu dönsk stjórnvöld ættleiðingar DanAdopt, hinnar viðurkenndu ættleiðingarskrifstofunnar í Danmörku, þegar í ljós kom að eþíópískir foreldrar höfðu verið beittir óeðlilegum þrýstingi til að láta börn sín frá sér. Sú ákvörðun var síðar endurskoðuð eftir að nýjar verklagsreglur voru settar og eftirlit hert

http://www.ruv.is/frett/attleidingarskrifstofa-svipt-starfsleyfi


Svæði