Fréttir

Fréttatíminn - Dæmd í keisaraskurð og barnið tekið til ættleiðingar

06.12 2013

Barnaverndaryfirvöld í Essex eru harkalega gagnrýnd fyrir að hafa látið taka barnið ítalskrar konu með keisaraskurði og gefið það til ættleiðingar. Hliðstæð mál óþekkt á Íslandi en 2-3 börn hafa verið tekin til ættleiðingar strax eftir fæðingu.

Barnaverndaryfirvöld í Essex á Englandi eru nú harðlega gagnrýnd eftir að þau þvinguðu ítalska konu, sem er greind með geðhvörf og dvaldist tímabundið á Englandi, til þess að gangast undir keisaraskurð og sviptu hana forræði barnsins strax eftir fæðingu og komu því í fóstur og settu af stað ættleiðingarferli.

Hliðstæð mál eru ekki þekkt hérlendis, að sögn Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, en 2-3 dæmi eru um að konur hafi verið sviptar forsjá strax eftir fæðingu vegna fíkniefnavanda eða geðsjúkdóma.

Keisaraskurður með dómi
Í málinu í Englandi er um að ræða 35 ára ítalska konu sem kom til Englands í júlí á síðasta ári til að fara í starfsþjálfunarnámskeið á Stansted-flugvelli í Essex. Hún var þá langt gengin með barn en fékk ofsakvíðakast skömmu eftir komu til landsins og var það rakið til þess að hún hafði ekki tekið lyf sem hún átti að taka við geðhvarfasjúkdómi. Í framhaldinu var hún nauðungarvistuð á stofnun í samræmi við ákvæði breskra laga. Félagsmálayfirvöld í Essex fengu síðan samþykkt dómara fyrir því að barnið yrði tekið með keisaraskurði, sem var gert í ágúst, og var nýfæddu stúlkubarninu strax komið í fóstur. Konan sneri svo aftur til Ítalíu en kom aftur til Englands á fyrrihluta þessa árs til þess að höfða mál gegn barnaverndaryfirvöldum og ógilda ákvarðanir þeirra um að gefa barnið til ættleiðingar. Fyrir dómi kom fram að konan tekur nú lyfin sín reglulega og er til meðferðar hjá læknum á Ítalíu en héraðsdómari í Essex staðfesti engu að síður ákvörðun barnaverndaryfirvalda þar um að láta ættleiða barnið sem nú er 15 mánaða.

Þessum dómi hefur verið áfrýjað og John Hemming, þingmaður Frjálslynda flokksins, hefur tekið málið upp í breska þinginu og talað máli móðurinnar opinberlega. Hann hefur meðal annars dregið í efa að barnaverndaryfirvöld í Essex hafi nokkra lögsögu í málinu þar sem móðirin er ítalskur borgari. Þá hafi formlegum leikreglum í málum af þessu tagi ekki verið fylgt.

„Leikreglurnar eru alveg skýrar þegar um er að ræða útlendinga og barnaverndarmál,“ segir hann.

Ekki formleg samskipti við ítölsk stjórnvöld
„Hlutaðeigandi ráðuneyti, þ.e. dómsmálaráðuneytið, hefur skyldu til að setja sig í samband við erlenda ríkið sem í hlut á. Þetta var ekki gert í þessu máli og sveitarstjórnin í Essex er augljóslega brotleg í málinu og hefur ekki tekist að skýra hvers vegna hún komst að þeirri niðurstöðu að enginn af ættingjunum væri hæfur til þess að annast um barnið eins og systkini þess. Sveitarstjórnin hefur heldur ekki útskýrt hvers vegna barnið var í þeirra umsjá og í ættleiðingarferli þegar alltaf stóð til að móðirin færi aftur til Ítalíu.“

Félagsmálayfirvöld í Essex segja að öryggi og velferð barnsins hafi ráðið því hvernig staðið var að málinu. Börn séu aldrei tekin af foreldrum og sett í ættleiðingarferli nema áður sé búið að leita allra vægari leiða. „Móðirin á tvö önnur börn sem hún annast ekki sjálf vegna fyrirmæla ítalskra stjórnvalda,“ segir þar. „Félagsráðgjafar áttu mikil samskipti við fjölskylduna fyrir og eftir fæðingu barnsins til þess að ganga úr skugga um það hvort einhver fyndist til þess að annast barnið.“

Ýmsir aðilar hafa einnig látið sig málið varða og lýsa áhyggjum af þeirri meðferð sem ítalska konan var beitt af hálfu stjórnvalda, m.a. Samtökin Bipolar UK og mannréttindasamtökin Liberty.

Engar hliðstæður hérlendis
Þær spurningar vakna hvernig staðið væri að verki í máli af þessu tagi hérlendis. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir í að hliðstæð mál séu ekki þekkt hérlendis en 2-3 dæmi eru um það að konur hér á landi hafi verið sviptar forsjá barns síns strax eftir fæðingu.

„Um var að ræða vanda vegna vímuefnaneyslu og geðræna erfiðleika. Engin dæmi eru um þvingaðar læknisaðgerðir í tengslum við fæðingu barns eftir því sem ég veit best,“ segir Bragi.

Bragi tekur ekki afstöðu til vinnubragða barnaverndaryfirvalda í Essex eins og þeim er lýst í fréttum breskra fjölmiðla en segist ekki geta ímyndað sér að ríkisborgararéttur móður gæti haft áhrif á það hvernig íslensk stjórnvöld mundu taka á málinu. Hins vegar megi reikna með að erfiðara sé koma við stuðningsaðgerðum og viðeigandi ráðstöfunum ef móðir er erlend og er stödd hér á landi í stuttri heimsókn þegar hún veikist og fæðir barn.

Í máli Braga kemur fram að mun meiri áhersla sé lögð á það af hálfu barnaverndaryfirvalda nú en á fyrri árum að grípa til forvarnar- og stuðningsúrræða til þess að koma í veg fyrir aðskilnað ungbarns og móður.
Pétur Gunnarsson
petur@frettatiminn.is

Dæmd í keisaraskurð og barnið tekið til ættleiðingar

 

Svæði