Fréttir

Deiglan - Birna Ósk Einarsdóttir, formaður Alþjóðlegrar ættleiðingar

Birna Ósk Einarsdóttir er Deiglugesturinn þann 28.05.09

Hvað rak ykkur til þess að stofna nýtt ættleiðingarfélag á Íslandi?

Það vildi þannig til að við vorum hópur væntanlegra kjörforeldra sem hittumst í nóvembermánuði á síðasta ári og fórum að ræða möguleika þess að reyna að hafa áhrif á stöðu ættleiðingarmála á Íslandi, þar sem biðin var orðin afar löng og lítið að gerast. Við ákváðum að besta leiðin fyrir okkur til að takast á við það væri að gera eitthvað í málunum og nýta áhugann og orkuna sem myndast í biðinni til að gera eitthvað jákvætt og uppbyggilegt, frekar en að sitja heima og vorkenna okkur yfir langri bið og litlum tíðindum. Þannig varð nú hópurinn til og það hefur gengið ótrúlega vel hjá okkur síðan þá.

Hvaða þýðingu mun það hafa fyrir foreldra sem vilja ættleiða barn að nú hefur nýtt ættleiðingarfélag hlotið löggildingu á Íslandi?
Markmið okkar er að fjölga möguleikum fyrir væntanlega kjörforeldra og stytta biðina sem er orðin alltof löng. Með samningum við fleiri lönd ætti smám saman að verða mögulegt að sytta biðina, en staðan er sú í dag að um 140 fjölskyldur bíða barns, þar af um 120 frá Kína skilst okkur, en þar hefur hægst svo mikið á undanfarin ár að það er hreinlega ómögulegt að spá fyrir um hvenær óskin um barn rætist fyrir þá sem bíða.

Nú er ættleiðingarferlið flókið og viðkvæmt ferli þar sem mikilvægast er að tryggja að hagur barnsins sé ávallt hafður í fyrirrúmi og því skiljanlegt að skýrar reglur gildi um hæfi umsækjenda. Í reglugerðinni virðist sem fólki sé mismunað á grundvelli hjúskaparstöðu eða hversu lengi fólk hefur verið í sambúð. Finnast ykkur þessar reglur sanngjarnar eða væri ekki eðlilegra að allir einstaklingar stæðu jafnir frammi fyrir lögum?
Að sjálfsögðu erum við á þeirri skoðun að allir eigi að standa jafnir frammi fyrir lögum, en sýnum því á sama tíma fullkominn skilning að kjörforeldrar verða að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá að ættleiða, það er hagur barnanna. Aftur á móti má alltaf gera betur, og það er okkar skoðun að reglugerðina megi endurskoða m.t.t. hagsmunamála kjörforeldra, og ekki síður m.t.t. aðstæðna hverju sinni og það höfum við þegar viðrað við dómsmálaráðherra og sérfræðinga ráðuneytisins í ættleiðingarmálum.

Mjög strangar reglur virðast einnig gilda um heilsufar umsækjenda sem vilja frumættleiða börn. Í reglugerðinni kemur fram að skjúkdómar eins og melingafærasjúkdómar, offita eða sykursýki geti leitt til synjunar á umsókn. Teljið þið að þetta séu eðilegar kröfur? 
Það er erfitt að meta þetta, en líklegt að þarna hafi verið settar einhverjar viðmiðunarreglur til að tryggja börnunum dvöl hjá sínum kjörforerldrum, þ.e. að þeir geti ábyggilega annast börnin eftir ættleiðingu. Þetta hlýtur svo alltaf að vera metið í hverju máli fyrir sig og hægt að veita undanþágur þegar við á.

Hversu mörg börn eru ættleidd til Íslands á ári hverju?
Þessar upplýsingar hef ég ekki, því miður, þar sem hingað til hafa allar ættleiðingar verið í gegnum Íslenska ættleiðingu. Aftur á móti veit ég að fjöldinn hefur hrunið síðustu ár, og fækkun alþjóðlegra frumættleiðinga er miklu meiri hér á landi en í nágrannalöndunum. Það hefur hægt nokkuð á ættleiðingum í heiminum almennt, en hvergi eins mikið og hér á landi og miðað við þær tölur sem við höfum séð, þá er örlítil minnkun, en ekkert á við minnkunina hjá okkur. Varðandi biðina, þá virðist staða mála í Kína hafa langmest áhrif hér hjá okkur, því m.v. þær upplýsingar sem við höfum, þá er ca 90% af þeim sem bíða í dag eftir barni til ættleiðingar á Kínabiðlista. Fram eftir ári 2007 gekk mjög vel í Kína og því sóttu eðlilega flestir um að fá að ættleiða þaðan. Svo fór að hægja á, og þá lentu mjög margir í því að vera í bið í Kína, geta ekki hætt við það, en vita í raun ekkert hvenær eða hvort óskin um barn rætist. Þetta er staðan fyrir svo marga í dag, en okkur skilst að um 100 pör bíði eftir barni frá Kína. Það hefur því ansi mikið traust verið sett á Kína hérlendis, og það má segja að við séum að bregðast við því með því að koma á samningum við fleiri lönd, svo valkostunum fjölgi og biðin styttist.

Hverir eru möguleikar ykkar á að ná samningum við fleiri lönd? Hefur Ísland verið álitið gott heimaland fyrir ættleidd börn?
Möguleikarnir virðast ágætir. Við höfum alla vega fengið ágætis viðtökur í þeim löndum sem við höfum hafið viðræður við. Ísland virðist almennt vera metið sem gott ættleiðingarland fyrir börn og því er jarðvegurinn góður. Það skiptir samt fyrst og fremst máli að við sem komum fram fyrir hönd landsins í þessum málum gerum það af heilindum og dugnaði og höldum málunum gangandi, bæði fyrir og eftir að samningur kemst á, því allt gengur þetta út á öfluga tengslamyndun og gott samband við löndin. Ef sambandið fjarar út og því er ekki sinnt, er allt eins líklegt að möguleikar til ættleiðinga frá viðkomandi landi verði einnig mjög litlir. Þetta er því spurning um uppbyggingu og ræktun góðs sambands.

Hversu mikil eftirspurn er eftir frumættleiðingum og á móti hversu mikil er þörfin? Gætu þeir aðilar sem standa að ættleiðinum gert eitthvað betur sem væri bæði börnum og foreldrum til góðs?
Eftirspurnin á Íslandi virðist vera nokkur, en framboðið er óljóst. Við gerum ráð fyrir, eins og allir sem fylgjast með erlendum fréttum, að fjöldi munaðarlausra barna um allan heim sé gríðarmikill og í raun miklu meiri en opinberar tölur gefa til kynna. En reglurnar sem starfað er eftir í ættleiðingum eru mjög strangar og koma m.a. í veg fyrir að hægt sé að ættleiða barn nema búið sé að ganga úr skugga um að það eigi fjölskyldu sem geti séð fyrir því, sem oft tekur langan tíma. Þá er fjöldinn allur af munaðarlausum börnum á götunni, og kemur því hvergi fram á neinum skrám og því ekki hægt að ættleiða þau. Raunin er sú að til að geta verið ættleiddur, þarf maður að uppfylla ákveðin skilyrði, það þarf að vera staðfest að maður sé munaðarlaus og ekki hægt að koma manni til fjölskyldumeðlima eða annarra kjörforeldra í heimalandinu og margt fleira. Þessar ströngu reglur, sem án nokkurs vafa eru settar til að gæta hagsmuna barnanna, virðast samt hægja mjög á ferlinu og þannig minnka möguleika barnanna á að eignast fjölskyldu. Þetta er stórt vandamál sem við hérna heima á Íslandi getum lítið stjórnað, nema með átaki eins og t.d. þau hjá Sóley og félögum http://www.soleyogfelagar.is hafa verið að stýra - en þar er verið að safna fé til að geta styrkt starfsemi munaðarleysingjaheimilis og skóla fyrir börn í Togo. Heimilið er nú með um 100 börn, sem væru án þess á götunni. En þetta er mikill línudans - við viljum að sjálfsögðu að allar reglur um ættleiðingar og kröfur til kjörforeldra séu strangar, svo allt ferlið sé hafið yfir vafa og hagsmunir barnanna séu alltaf hafðir í fyrirrúmi, án þess þó að börnin beinlílnis gjaldi fyrir strangar reglur og seinagang vegna mikillar skriffinnsku í kringum ferlið.

Eitthvað annað að lokum?
Að lokum - endilega skoðið http://intadopt.wordpress.com, og styrkið félagið ef þið hafið áhuga á málefninu. Við vinnum alla vinnu við stofnun þess og öflun sambanda í sjálfboðavinnu og greiðum allan kostnað sjálf. Öll hjálp er því vel þegin.
Já og svo hvet ég fólk að sjálfsögðu líka til að kynna sér Sóley og félaga, þar er hægt að gerast styrktarforeldri barnanna á barnaheimilinu í Aneho í Togo. Frábært starf sem þar er unnið.


Svæði