Fréttir

Fréttablaðið - DNA-próf gjörbreytti leitinni

Í Fréttablaðinu laugardaginn 19.nóvember birtist grein:

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir hefur nóg fyrir stafni um þessar mundir. Þættir hennar, Leitin að upprunanum, hafa vakið mikla athygli en tveir eru eftir í þessari þáttaröð. Næsta föstudag hefst síðan Idolið á Stöð 2 þar sem Sigrún er kynnir ásamt Aroni Mola.

Leitin að upprunanum kallar fram bæði bros og tár hjá áhorfendum enda er þátturinn algjör tilfinningarússíbani. Auk þess geta gerst óvæntir hlutir sem koma Sigrúnu og viðmælanda hennar stórkostlega á óvart ekki síður en áhorfendum. Þátturinn síðasta sunnudag var einmitt þannig. Viðmælandinn, Ása Nishanthi Magnúsdóttir, var ættleidd frá Srí Lanka árið 1985 og hefur leitað blóðmóður sinnar í mörg ár. Þær Sigrún töldu sig hafa fundið hana en DNA-rannsókn leiddi annað í ljós. Hins vegar breyttist sagan því vinkona Ásu, Harpa Sif Ingadóttir, sem einnig er ættleidd frá Srí Lanka, fann sína móður án þess að vera að leita að henni.

Fölsk ættleiðingargögn

Hollensk heimildarmynd um ættleiðingar barna frá Srí Lanka upplýsti árið 2017 að börn hefðu verið seld með svikum til ættleiðinga í Evrópu. Allt að ellefu þúsund börn kunna að hafa verið seld til evrópskra fjölskyldna með fölskum pappírum. Yfirvöld á Srí Lanka hafa viðurkennt svikin og höfðu í hyggju að setja upp DNA-gagnagrunn til að hjálpa börnunum að finna blóðmæður sínar og systkini. Ekki hefur enn verið staðið við það enda fátækt mikil í landinu. Ása er eitt þessara barna en mynd sem hún átti og taldi vera af lífmóður sinni reyndist vera milliliður í sölu. DNA-rannsóknin leiddi þó í ljós að konan á myndinni væri móðir Hörpu sem er fædd á sama ári og Ása. Um framhaldið á því máli fjallar þátturinn annað kvöld. Sagan er lygileg og erfið fyrir Ásu.

Óvænt niðurstaða

„Hverjar eru líkurnar á að svona gerist?“ spyr Sigrún. „Maður ræður engu um hvað gerist og hvenær,“ bætir hún við. Þegar Sigrún er spurð hvort ekki sé löng og flókin vinnsla við þættina, svarar hún því játandi. „Þetta er algjört maraþonhlaup. Ég var í fæðingarorlofi þegar þetta mál tók sig upp aftur. Allt í einu var ég komin í fulla vinnu af því að það urðu vendingar í máli sem hafði verið á borðinu hjá mér í fimm ár,“ segir hún en Ása var í eldri þáttaröð. Leit hennar bar ekki árangur þá.

„Í þessu tiltekna máli var ég mjög upprifin yfir því að við værum búin að finna móður Ásu. Ég hafði verið miður mín að það hefði ekki tekist þegar hún kom fyrst fram í þættinum. Öll önnur mál höfðu gengið upp fram að því og viðmælendur fundið fjölskyldur sínar. Það tekur langan tíma að fá niðurstöður úr DNA-rannsókn og ferlið getur verið mjög flókið. Sérstaklega þegar heimsfaraldur er í gangi. Það ratar ekki allt á skjáinn sem við erum að vinna að,“ útskýrir Sigrún. „Það er bara einn aðili í Srí Lanka sem hefur leyfi til að taka DNA-próf og koma því úr landi. Vegna Covid var mjög erfitt að koma því frá landinu og við urðum að fá hjálp frá ferðamönnum og beita alls kyns krókaleiðum,“ segir hún. „Síðan bíður maður með öndina í hálsinum eftir að fá niðurstöðuna. Ég var reyndar fullviss um að við fengjum staðfestingu á því að þetta væri móðir Ásu, sem síðan reyndist ekki vera. Eiginlega missti ég málið yfir þessari niðurstöðu. Þetta hvarflaði ekki að mér,“ segir hún.

Í þessari vinnu hefur Sigrún kynnst viðmælendum sínum náið. „Þetta verða vinir manns enda erum við í mjög miklum samskiptum. Við erum í tökum mánuðum saman og förum í ferðalag saman. Ég ver meiri tíma með viðmælendum en mörgum vina minna meðan á vinnunni stendur. Stundum grínast ég með að ég vel engan þann í þáttinn sem ég nenni ekki með til útlanda,“ segir Sigrún og hlær. „Ósjálfrátt tekur maður inn á sig það sem þau eru að upplifa og þá er agalegt að geta ekki ráðið útkomunni.“

Menningarsjokk

Í þáttunum fer Sigrún með viðmælendum sínum á framandi slóðir og heimsækir heimili í hverfum þar sem fátækt er mikil. Hún segist hafa ferðast mikið áður en hún hóf vinnu við þessa þætti og búið erlendis en þetta sé allt öðruvísi. „Ég held að það séu ekki margir Íslendingar sem upplifa að koma heim til fólks sem býr við þessar aðstæður. Þetta er oft algjört menningarsjokk bæði fyrir mig og viðmælanda minn. Stundum fær maður skrítna tilfinningu þegar maður kemur aftur á hótelið þar sem við búum og síðan í húsið sitt heima á Íslandi. Það kemur upp hálfgert samviskubit yfir því hvað við höfum það gott. Þetta á enn meira við um viðmælendur mína. Þau hafa mörg talað um þetta samviskubit. Það er reyndar þekkt hjá ættleiddum börnum frá framandi slóðum að sum fá þessa sektarkennd vegna þess hversu gott uppeldi þau hafa fengið í allsnægtum.“

Þegar Sigrún er spurð hvort hún fylgist með viðmælendum sínum eftir þættina svarar hún því játandi. „Ég gerði þátt í fyrra um það hvernig sambandið sé við ættingja eftir að þeir hafi fundist. Það kom í ljós að samskiptin voru alla vega, stundum engin yfir í að vera nánast daglega. Tungumálaörðugleikar geta sett strik í reikninginn. Ég get nefnt dæmi um Juan Gabriel Rios Kristjánsson sem kom fram í fyrsta þættinum í þessari seríu. Hann breytti nafni sínu og hóf spænskunám til að vera undirbúinn ef hann fyndi fjölskyldu sína í Kólumbíu. Það sýnir hversu djúp þessi þrá getur verið. Mér finnst svo skiljanlegt að fólk vilji vita um uppruna sinn. Þau hafa mörg orðað það þannig að þetta sé eins og púsl sem vantar,“ segir hún.

Srí Lanka meiri háttar land

Þetta er fimmta þáttaröð af Leitinni en Sigrún vill hvorki játa því né neita hvort þær verði fleiri. „Ég segi alltaf að þetta sé sú síðasta en svo kemur alltaf eitthvað upp sem krefst fleiri þátta,“ segir hún. „Það er mikil pappírsvinna í kringum þættina og ferðalögin krefjast sömuleiðis alls kyns gagna. Síðan er alltaf talsverð vinna að finna einhvern í viðkomandi landi sem getur aðstoðað okkur. Auri Hinriksson hefur hjálpað okkur í Srí Lanka og er alveg ótrúleg. Hún er búin að búa á Íslandi í 40 ár og varð áttræð fyrir skömmu. Auri leitar ættingja fyrir fólk í mörgum löndum og fær beiðnir víða frá.“

Sigrún hefur ferðast til þó nokkurra landa í þáttunum og farið á suma staði nokkrum sinnum. Þar á meðal er Srí Lanka sem hún hefur miklar mætur á. „Srí Lanka er ofarlega á blaði yfir þá staði sem mig myndi langa til að heimsækja í frítíma,“ segir hún. „Það eru forréttindi að fá að starfa við þættina. Þetta hefur verið ótrúlegur tími og ég hef kynnst svo mörgu. Mig hefði aldrei órað fyrir því í upphafi að þáttaraðirnar yrðu fimm. Það er ótrúlega skemmtilegt hversu vel það hefur gengið að finna upprunann,“ segir Sigrún, sem hefur hlotið tvenn Edduverðlaun og blaðamannaverðlaun fyrir þættina auk fjölmargra tilnefninga.

Leitin að idolinu

Undirbúningur fyrir Idolið er nú á lokasprettinum enda styttist í sýningu. Forval var um allt land og mikill fjöldi sem vildi vera með. Um eitt hundrað manns komust síðan í dómaraprufur í þáttunum. Beinar útsendingar hefjast þó ekki fyrr en eftir áramótin þegar lokasprettur keppninnar fer í gang. Aðeins örfáir komast þangað. Sigrún segist ekki öfunda dómarana því þarna sé að koma fram heill hópur af nýjum snillingum á tónlistarsviðinu. „Þessi unga kynslóð er líka miklu vanari því að koma fram fyrir myndavélar heldur en þeir sem eldri eru. Kynslóð sem er vön að vera á samfélagsmiðlum,“ segir hún. Dómnefndin er skipuð þeim Bríeti, Birgittu Haukdal, Herra hnetusmjöri og Daníel Ágústi.

Idolið var síðast á dagskrá Stöðvar 2 árið 2009 en þá voru þeir Simmi og Jói aðalkynnar keppninnar. Sigrún og Aron koma í þeirra stað núna. Sigrún var einnig kynnir í þáttaröðinni Allir geta dansað. Hún segir að þótt starf kynnisins sé ekkert ólíkt þá sé öðruvísi að vera í Idolinu. „Þetta er mjög umfangsmikil framleiðsla, margir sem koma að vinnunni. Upptökur hafa gengið ótrúlega vel, Aron kemur sterkur inn og þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Ég hef ekki öfundað dómnefndina í sínum störfum. Þetta er ekki einfalt val. Það er því gaman að sjá hvað dómnefndin er með ólíkar skoðanir.“

Hlakkar til aðventunnar

Auk þess að vera í upptökum á Idolinu hefur Sigrún verið í annasömu starfi við að klippa og ganga frá Leitinni að upprunanum. „Það getur verið snúið að koma öllu þessu efni fyrir í örfáum þáttum,“ segir hún.

Sigrún er gift og þriggja barna móðir. Það yngsta er ársgamalt en hin níu og tólf ára. Fjölskyldan býr á Akranesi og var nýlega að stækka við sig. „Við höfum verið að byggja svo það hefur verið mikið að gera. Auk þess var erfitt að fara burt frá þessum litla í heila viku í senn, en sem betur fer á ég dásamlegan mann og fjölskyldu. Desember verður rólegur hjá mér og ég hlakka mikið til að njóta aðventunnar, skreyta, baka og syngja jólalög. Ég elska þennan árstíma,“ segir Sigrún, sem fær ótrúlegan fjölda pósta frá fólki sem langar að leita upprunans. „Á tímabili fékk ég svo mikið að mér tókst ekki að svara öllum sem var mjög leiðinlegt. Þetta gerðist eftir þátt þar sem við leituðum að bandarískum föður sem hafði verið í hernum hér heima. Það eru greinilega margir í þeim sporum. Annars þykir mér óskaplega vænt um hversu góð viðbrögð þættirnir hafa fengið og það heldur mér sannarlega við efnið.“

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á vefsíðu Fréttablaðsins hér.


Svæði