Fréttir

Frettabladid.is - Ættleiðingarbiðlistar að styttast í Tékklandi

fréttablaðið/getty
fréttablaðið/getty

Um þessar mundir eru flest ættleidd börn frá Tékklandi. Fjórar íslenskar fjölskyldur og tékknesk börn hafa verið pöruð saman á þessu ári. Framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar segir að samstarfið við Tékka hafi reynst farsælt.

Biðlistar eftir ættleiðingu í Tékklandi hafa styst. Á þessu ári hafa fjórar íslenskar fjölskyldur og tékknesk börn verið pöruð saman og tvö af þeim nú þegar komin til landsins. Tvö til viðbótar munu væntanlega koma til landsins síðar á þessu ári. Núna eru flest ættleidd börn á Íslandi að koma frá Tékklandi og samstarfið hefur gengið farsællega. Félagið Íslensk ættleiðing, sem hefur milligöngu um ættleiðingar, er einnig í samstarfi við fjögur önnur lönd, Tógó, Búlgaríu, Kína og Kólumbíu.

„Yfirvöld í Tékklandi eru afar hrifin af íslenskum umsækjendum og hafa sagt okkur að undirbúningur, stuðningur og eftirfylgd hjá Íslenskri ættleiðingu sé til mikillar fyrirmyndar,“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri félagsins.

„Fræðsla, ráðgjöf og stuðningur við ættleidd börn og foreldra þeirra er mikilvæg. Íslenska ættleiðingarmódelið leggur áherslu á þessa þætti, stuðningur við fjölskyldur áður en ættleitt er, stuðningurinn meðan fjölskyldan er að taka fyrstu skrefin og eftirfylgd við fjölskyldurnar. Þetta módel hefur vakið athygli.“

Starfsemi félagsins er tryggð með þjónustusamningi við dómsmálaráðuneytið og er reksturinn óháður fjölda barna sem ættleidd eru til landsins.

Frumættleiðingum hefur fækkað mikið á undanförnum árum, ekki aðeins á Íslandi heldur í öllum heiminum. Meðal annars vegna þess að Kína hefur lokað á umsóknir og vegna þess að tæknifrjóvgunum hefur fjölgað. Eftirspurnin gengur þó í bylgjum.

Kristinn segir að meiri kröfur séu gerðar til umsækjenda og að fleiri börn séu með skilgreindar þarfir. Þetta séu áskoranir sem færri umsækjendur treysta sér í og fari ekki alltaf saman við væntingar þeirra sem langar til að ættleiða. „Tékka vantar fleiri umsóknir umsækjenda sem eru að velta fyrir sér ættleiðingum barna með skilgreindar þarfir, systkinum og eldri börnum,“ segir hann.

Í dag eru aðeins sjö virkar umsóknir á biðlista í upprunalöndunum og sex aðrar í ferli. Meðaltími á biðlista er mislangur eftir upprunalöndum. Til dæmis er hann tvö ár í Tékklandi og um tvö ár og tveir mánuðir í Tógó.

Fimmtán umsóknir eru nú í forsamþykki hjá sýslumanni en langur tími getur liðið þar til sýslumaður samþykkir. Þegar forsamþykki liggur fyrir er hægt að sækja um í upprunalandi, fara í læknisheimsóknir, safna gögnum og þýða þau fyrir ættleiðingarnefndir í upprunalöndum. Tekur það á bilinu einn til þrjá mánuði að meta hvort viðkomandi séu samþykkt á biðlista.


Svæði