Fréttablaðið - Kostnaður vegna ættleiðinga
ÞÓRUNN SVEINBJARNARDÓTTIR
Þingkona Samfylkingarinnarskrifar um kostnað vegna ættleiðinga.
Frá árinu 1981 hafa Íslendingar ættleitt 425 börn erlendis frá. Þau koma frá 23 löndum. Um þessar mundir eru 60-70 fjölskyldur á biðlista Íslenskrar ættleiðingar eftir börnum og hefur þorri þeirra tekið stefnuna á Kína. Ísland gerðist aðili að Haagsamningnum um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar árið 1999 en hann byggir á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Með aðild að Haag-samningnum er tryggð samvinna aðildarríkjanna um ættleiðingar barna og lög og reglur þar að lútandi settar í fastar skorður. Þá samþykkti Alþingi ný lög um ættleiðingar í desember 1999 en í þeim er m.a. kveðið á um að einhleypingar geti ættleitt börn „ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er ótvírætt talin barninu til hagsbóta“, eins og þar segir. Óhætt er að fullyrða að mikil réttarbót fylgdi setningu nýrra laga um ættleiðingar og aðild Íslands að Haagsamningnum, þótt enn hafi ekki verið stigið það sjálfsagða skref hér á landi að leyfa ættleiðingar af hálfu samkynhneigðra.
Ættleiðing er kostnaðarsöm
Ættleiðing barns frá útlöndum er langt og strangt ferli, sem eitt og sér getur valdið væntanlegum foreldrum álagi og hugarangri. Þegar fjárútlátin sem óhjákvæmilega fylgja ættleiðingu útlends barns eru tekin með í reikninginn verður ljóst að það er ekki á hvers manns færi að standa undir þeim kostnaði. Útlagður kostnaður hjóna vegna ættleiðingar eins barns frá útlöndum er áætlaður um 1,2 milljónir króna. Upphæðin greiðist að vísu ekki á einu bretti en getur samt sem áður reynst þungur baggi á venjulegum heimilum. Guðrún Ögmundsdóttir þingkona Samfylkingarinnar spurði dómsmálaráðherra nýverið um ferðastyrki til foreldra sem ættleiða börn erlendis frá. Í svari ráðherra kom fram að íslenska ríkið greiðir ekki slíka styrki til foreldra sem eru að ættleiða. Enn fremur kom fram í svarinu að í nágrannlöndum okkar, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð greiðir ríkið foreldrum styrki vegna ættleiðinga. Styrkirnir eru misháir eftir löndum en eru almennt á bilinu 200 - 450 þúsund ísl. kr. með hverju barni.
Jafnræði í samfélaginu
Ég býst við að hverju mannsbarni hér á landi þyki sjálfsagt að greiða kostnað við meðgöngu, fæðingu og ungbarnaeftirlit úr ríkissjóði. Einnig eru glasafrjóvganir niðurgreiddar úr ríkissjóði. Því verður að spyrja hvers vegna ekki séu greiddir ferðastyrkir til foreldra sem eignast barn með ættleiðingu erlendis frá? Þetta er ekki spurning um krónur og aura úr ríkissjóði, heldur réttlæti og jafnræði í samfélaginu. Lítið hefur borið á almennri umræðu um þessi mál. Ánægjuleg undantekning frá því er ályktun Verkalýðsfélags Húsavíkur frá 2. maí sl. þar sem löggjafinn er hvattur til þess að bæta aðstöðu þeirra sem ættleiða börn frá útlöndum. Óhætt er að taka undir það álit félagsins að þátttaka ríkisins í kostnaði foreldra vegna ættleiðinga sé sjálfsagður hluti samtryggingar og velferðar hér á landi.