Fréttir

Fréttatíminn - Íslendingar í húð og hár

Samtíminn10. Mar 2016Ritstjórn
Friðrika Benónýsdóttir ritstjorn@frettatiminn.is

Bitna auknir fordómar gagnvart innflytjendum á Íslendingum sem voru ættleiddir hingað sem ungbörn og hafa aldrei átt annað heimaland? Fréttatímanum lék forvitni á að fá svar við þeirri spurningu og leitaði til þriggja ungra íslendinga sem allir eru fæddir annars staðar á hnettinum en hafa búið hér alla sína ævi.

Börn sem ættleidd hafa verið frá fjarlægum löndum af íslenskum foreldrum eru orðin um sex hundruð talsins síðan skráningar hófust í kringum 1980. Á því tímabili hafa að meðaltali 14-20 börn verið ættleidd á ári, en fjöldinn sveiflast milli ára og síðan 2004 hafa að meðaltali 19 börn verið ættleidd á ári. Töluvert kapp er lagt á það að fylgjast vel með þessum börnum og hvernig þeim farnast í nýja heimalandinu og á vefsíðu Íslenskrar ættleiðingar er að finna fjölda fræðigreina um málefnið. Meðal þess sem athygli vekur er að börn sem ættleidd eru til Íslands virðast að mörgu leyti spjara sig betur en börn sem ættleidd eru til annarra Norðurlanda. Erfiðleikar við tengslamyndun eru til dæmis fátíðari hjá börnum sem hingað koma en á öðrum Norðurlöndum og þótt tíðni einhverfueinkenna og einkenna athyglisbrests og ofvirkni sé örlítið meiri en hjá íslenskum börnum almennt, þá farnast þeim flestum mjög vel og skera sig lítið sem ekkert úr heildinni. Það virðist skiptast í tvö horn hvort ættleidd börn leiti uppruna síns eftir að þau komast á fullorðinsár og eins og fram kemur í viðtölum Fréttatímans við þrjá ættleidda einstaklinga skiptir vitneskjan um blóðforeldra sum þeirra engu máli á meðan öðrum þykir vanta púslbita í sjálfsmyndina á meðan þau þekkja ekki upprunann. Öll eru þau þó auðvitað ósköp venjulegir Íslendingar og ekkert þeirra segist verða fyrir grófum fordómum eða áreiti vegna litarháttar síns, það sé hins vegar full ástæða til að vera vakandi fyrir aukningu fordóma í samfélaginu og berjast á móti henni með öllum ráðum.

Fjölskyldur eru alls konar

25457_HeidaBjorg_2<img src="http://www.frettatiminn.is/wp-content/uploads/2016/03/25457_HeidaBjorg_2-1156x771.jpg" alt="25457_HeidaBjorg_2" width="1156" height="771" />

Heiða Björg Pálmadóttir, lögfræðingur Barnaverndarstofu, fæddist í Beirút í Líbanon árið 1979 og var ættleidd til Íslands þriggja mánaða gömul. Hún segist ekki hafa orðið vör við mikla fordóma hjá Íslendingum, en óttast þó að þeir séu að aukast.

Heiða Björg segist ekki vita nokkurn skapaðan hlut um blóðforeldra sína, á fæðingarvottorðinu standi að móðir sé óþekkt, en hún hafi aldrei haft neina þörf fyrir að forvitnast um upprunann. Hún hugsi með miklu þakklæti til konunnar sem eignaðist hana að hafa tekið þá ákvörðun að gefa hana og verða þar með þess valdandi að hún eignaðist sína góðu fjölskyldu á Íslandi. Heiða Björg á bróður sem er tveimur árum yngri, sem einnig er ættleiddur frá Líbanon, ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík, gekk í Melaskóla, Hagaskóla, MH og Háskóla Íslands og stundar nú doktorsnám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún er gift Janusi Sigurjónssyni og þau eiga tvær dætur, 4 ára og tíu mánaða. Hún hefur verið lögfræðingur Barnaverndarstofu síðan í janúar 2009 og aðspurð segist hún kannski ekki vera frá því að það að vera ættleidd hafi haft áhrif á starfsvalið.

Heppnasta þjóð í heimi
„Það er margt sem spilar saman. Kannski er eitt af því sem það að vera ættleiddur hefur gefið manni það að maður tekur ekki því lífi sem maður lifir sem sjálfgefnu. Ég lít svo á að ég hafi verið mjög heppin að hafa fengið þessa fjölskyldu, þessa foreldra og þetta líf því ég veit að ef hlutirnir hefðu æxlast öðruvísi væri líf mitt örugglega ekki svona gott. Ég held að við séum heppnasta þjóð í heimi. Þó maður geti pirrað sig á stjórnmálaástandinu og ýmsu svoleiðis, þá erum við rík þjóð og höfum allt til alls. Að hluta til er það auðvitað líka uppeldið, ég er alin upp við það að maður eigi að gefa til baka inn í samfélagið og það vil ég gera. Auk þess er barnarétturinn svið sem er lítið rannsakað og margt hægt að gera í. Markmiðið er að vinna vel og gera gott, fyrir utan það að þetta er líka hrikalega skemmtileg lögfræði því það spilar svo margt saman.“

Heiða Björg segist hvorki hafa orðið fyrir áreiti né einelti sem krakki í skóla og þær spurningar og stríðni sem hún hafi fengið varðandi það að mamma hennar væri ekki alvöru mamma hennar hafi verið ættað frá foreldrum barnanna sem spurðu. „Börn eru ekkert að pæla í svoleiðis. Mér fannst ég frekar verða vör við fordóma frá sumum kennurum; að ég þyrfti að sanna mig betur en hinir krakkarnir og að þeir gerðu ráð fyrir því að það tæki mann lengri tíma að læra hlutina. En ég tek það skýrt fram að það voru örfá undantekningartilfelli.“ Heiða Björg segir það eflaust hafa hjálpað sér varðandi fordóma að hún þyki sláandi lík föður sínum og sé því ekki sjálfkrafa stimpluð útlensk, en það séu auðvitað alltaf einhverjir sem horfi fyrst og fremst á það. „Ég segi alltaf að ég sé bara íslensk, enda nennir maður kannski ekki endilega að segja leigubílstjórum eða öðrum ókunnugum ævisögu sína í smáatriðum, þótt uppruni minn hafi aldrei verið feimnis- eða launungarmál. Fjölskyldur eru alls konar og verða til með ýmsum hætti og það hefur aldrei verið neitt tiltökumál heima að við systkinin séum ættleidd.“ Spurð hvort hún hafi ekki farið að velta upprunanum meira fyrir sér þegar hún varð sjálf móðir segir Heiða Björg að það eina sem hún hafi stundum velt fyrir sér í sambandi við það sé hvort hún beri kannski einhver sjúkdómsgen sem hún viti ekki af. „Það er það eina. Ég hélt kannski að ég yrði uppteknari af þessu eftir að ég eignaðist börn, en það gerðist ekki. Ég er sjálf hraust, sjö, níu, þrettán, og maður getur heldur ekki drepið sig á áhyggjum af öllum hlutum. Það kemur þá bara í ljós.“

Öðruvísi birting fordóma gagnvart stelpum
Heiða Björg segist ekki hafa upplifað aukna fordóma gagnvart öðrum kynþáttum á eigin skinni en auðvitað viti hún að það sé fullt af fordómum í samfélaginu. „Maður sér meiri fordóma í umræðunni, í fréttum og á netinu en ég hef ekki orðið fyrir þeim beint. Svo er spurningin auðvitað alltaf: hvað eru fordómar? Það eru fordómar þegar einhver hrópar að þér ókvæðisorðum, já, en eru það fordómar þegar einhver horfir á þig og heldur sjálfkrafa að þú sért útlensk? Eða eru það fordómar þegar þú heldur að einhver sé ekki eins klár eða ekki eins duglegur af því hann er af öðrum kynþætti? Ég hef alveg orðið fyrir þannig fordómum, en það hefur aldrei verið hrópað að mér ókvæðisorðum. Bróðir minn hefur hins vegar lent í því, og kannski er þetta almennt erfiðara fyrir stráka. Fordómarnir sem stelpurnar verða fyrir eru dálítið öðruvísi, ég held til dæmis að ég sé eina í vinkvennahópnum mínum sem hefur lent í því að vera spurð hvað ég kosti. Þetta er kynjaskipt. Einu sinni fór ég í starfsmannaviðtal hjá stórri opinberri stofnun og starfsmannastjórinn hrósaði mér sérstaklega fyrir hvað ég talaði góða íslensku. Þegar ég fer í flug er ég alltaf ávörpuð á ensku og svo framvegis. En þetta eru ekki fordómar sem maður tekur neitt inn á sig eða valda manni óþægindum.“

Öll bara manneskjur
Þegar hún var yngri var Heiða Björg virk í stjórnmálum, var um tíma varaformaður ungra jafnaðarmanna, en hún segir að eftir hrun hafi hún misst áhugann á því að reyna að koma góðu til leiðar á þeim vettvangi. „Á þeim tíma fann maður ekki að pólitíkin væri að gera það sem mér finnst hún ætti að vera að gera og ég hef frekar valið að bæta samfélagið í gegnum vinnuna mína heldur en pólitískt starf. En maður á aldrei að segja aldrei og hver veit nema maður eigi eftir að fara aftur inn á þann vettvang. Það umhverfi heillar ekki eins og staðan er núna en auðvitað hræðist maður þennan uppgang fordóma eins og beraðist í síðustu borgarstjórnarkosningum og það væri sannarlega verðugt markmið að taka þátt í pólitík til að reyna að hamla á móti því og fá fólk til að skilja að burtséð frá litarhætti eða trú erum við öll bara manneskjur, meira og minna eins.“

Fordómar eitra allt

25457_Jonmundur_3<img src="http://www.frettatiminn.is/wp-content/uploads/2016/03/25457_Jonmundur_3-1156x771.jpg" alt="25457_Jonmundur_3" width="1156" height="771" />

Jónmundur Grétarsson leikari er Íslendingur í húð og hár þótt hann hafi fæðst á Sri Lanka, enda var hann alkominn til Íslands þriggja vikna gamall. Hann segist aldrei hafa haft neina þörf fyrir að grafast fyrir um uppruna sinn, það myndi ekki bæta neinu við sjálfsmyndina.

„Ég hef aldrei verið sérstaklega áhugasamur um að fara til Sri Lanka einu sinni, en núna undanfarin ár hef ég samt farið að velta því fyrir mér að auðvitað ætti maður að fara og skoða landið þar sem maður fæddist,“ segir Jónmundur Grétarsson spurður hvort hann langi ekki að sjá hvaðan hann kemur. „Ég hef engan áhuga á því að leita að blóðforeldrum mínum, ég á bara mína íslensku foreldra og sakna einskis. Kannski spilar inn í hversu ungur ég var þegar ég kom til þeirra, ég hef orðið var við það hjá öðrum ættleiddum krökkum sem ég þekki að eftir því sem þau voru eldri þegar þau voru ættleidd virðast þau hafa meiri þörf fyrir að leita blóðforeldranna.“

Ekki æsa helvítis negrann
Jónmundur ólst upp í Vesturbænum, gekk í Grandaskóla og spilaði fótbolta með KR. Hann segist ekki hafa upplifað neina fordóma sem höfðu djúp áhrif á hann í uppvextinum og ekki litið á sig sem neitt öðruvísi en hina krakkana. Það var því meiriháttar áfall þegar sundlaugarvörður í Vesturbæjarlauginni kallaði hann negra þegar hann var tólf ára gamall. „Ég var að fara í skólasund og var á línuskautum inni, sem var víst bannað. Sundlaugarvörðurinn henti mér út og þegar ég var kominn úr línuskautunum og ætlaði að fá að fara aftur inn voru krakkarnir í bekknum að reyna að opna fyrir mér. Sundlaugarvörðurinn hins vegar stóð fyrir hurðinni og öskraði á krakkana að þau ættu ekki að vera að æsa þennan helvítis negra upp. Þá fyrst kveikti ég á einhverju, fór bara að hágráta, línuskautaði heim og sagði pabba og mömmu frá þessu. Það varð auðvitað allt vitlaust. Ég held þetta hafi verið ennþá meira sjokk vegna þess að þetta var fullorðinn maður, örugglega um sjötugt, hann hlaut að vita um hvað hann var að tala.“

Flóttamaður í einhverjum skilningi
Jónmundur segist svo sem hafa lent í fordómum síðan þetta var, sérstaklega í sambandi við fótboltaleiki, en hann spilaði með KR alveg þangað til hann flutti í Garðabæinn 15 ára gamall. „Maður lenti í rasisma á hverju sumri í kringum fótboltaleikina, annað hvort frá áhorfendum eða leikmönnum í öðrum liðum. Ég held samt að það sé verra úti á landi, allavega varð ég meira var við þetta þar.“ Spurður hvort hann upplifi að fordómarnir hafi aukist undanfarin ár í kjölfar aukinnar umræðu um ásókn flóttamanna og innflytjenda segir Jónmundur að það sé ekki hægt að neita því. „Ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir því hversu mikil áhrif öll þessi neikvæða umfjöllun hefur. Nú er ég bara Íslendingur og lít á mig sem slíkan, en fyrir þann sem haldinn eru þessum fordómum er ég innflytjandi og hann kemur fram við mig sem slíkan. Auðvitað má segja að ég sé flóttamaður í einhverjum skilningi, ég var svo heppinn að fá tækifæri til að koma hingað og alast hér upp, þannig að ég vil bara að við hjálpum þessu fólki eins mikið og við getum. Fordómar eitra allt.“

Ekki innflytjandi með hreim
Jónmundur vinnur nú að fjármögnun uppsetningar á leikritinu Disgraced eftir Ayad Akhtar þar sem meginstefið er einmitt þeir leyndu fordómar sem krauma í samfélaginu, einkum gagnvart múslimum. Hann segir það vera sína leið til að opna augu fólks og stuðla að aukinni umræðu og skilningi á vandamálinu. „Þetta verk vekur mann virkilega til umhugsunar og sýnir fram á hvað þessir fordómar eru heimskulegir,“ segir hann. „Því þegar öllu eru á botninn hvolft þá erum við bara manneskjur, sama hver litarhátturinn er eða hvað trúarbrögð við aðhyllumst.“ Jónmundur hefur verið viðloðandi leiklistina síðan hann lék í Bugsy Malone í Loftkastalanum tólf ára gamall, og útskrifaðist sem leikari frá listaskóla í San Fransisco 2014. Hann hefur haft nóg að gera síðan hann útskrifaðist en finnst vera kominn tími á það að sýna mismunandi kynþætti á íslensku leiksviði og í sjónvarpi. „Það er löngu kominn tími á að auka fjölbreytnina. Þegar ég var að leika í sjónvarpsþáttunum Rétti ræddum við Unnsteinn Manuel þetta einmitt mikið og vorum báðir mjög ánægðir með það að við vorum ekki látnir leika innflytjendur með hreim heldur bara venjulega íslenska stráka. Flest hlutverk sem ég hef leikið hafa verið dökka hlutverkið í verkinu, sem ég skil alveg, en maður er bara Íslendingur og getur alveg leikið þá eins og einhver annar. Við verðum að fara að endurspegla það á öllum sviðum samfélagsins að fjölmenningin er komin til Íslands. Við erum alls konar.“

Vantar eitt stykki í púsluspilið

25457_Brynja_2<img src="http://www.frettatiminn.is/wp-content/uploads/2016/03/25457_Brynja_2-1156x771.jpg" alt="25457_Brynja_2" width="1156" height="771" />

Þótt Brynja Valdimarsdóttir sé afskaplega ánægð með sína íslensku fjölskyldu hefur hún hafið ferli til þess að hafa upp á blóðmóður sinni á Sri Lanka. Í hennar huga er nauðsynlegt að þekkja rætur sínar og uppruna.

Brynja Valdimarsdóttir fæddist á Sri Lanka fyrir rúmum þrjátíu árum og kom til Íslands sex vikna gömul þann 14. desember 1985. Hún segist alltaf hafa litið á sjálfa sig sem Íslending, enda uppalin við íslenska menningu, tungumál og hefðir. Brynja ólst upp á Akranesi, þar sem hún býr ennþá, og spurð hvort hún hafi upplifað sig sér á báti í því litla bæjarfélagi hlær hún og segir að eins ótrúlega og það kannski hljómi þá hafi þær verið sex stelpurnar frá Sri Lanka í hennar árgangi, auk þess sem hún eigi bróður sem var ættleiddur frá Guatemala tveimur árum á undan henni. Í skólanum hafi líka verið krakkar sem ættleiddir voru frá Indónesíu, Suður-Kóreu, Kína og Guatemala þannig að aldrei hafi komið til þess að hún yrði fyrir einelti vegna útlits síns.

„Voðalega talarðu góða íslensku“
„Við vorum svo ung þegar við komum og ólumst öll upp saman, þannig að maður sá engan mun,“ segir hún. „Ég hef ekki orðið vör við neitt einelti og aldrei orðið fyrir því sjálf, allavega ekki vegna litarháttar. Ég hef auðvitað fengið alls konar komment í gegnum tíðina, en það er ekkert sem ég tek inn á mig. Ég held að hugarfar manns sjálfs stjórni því mikið hvernig maður upplifir svoleiðis. Ef ég vildi alltaf leika fórnarlambið gæti ég vel valið það, en ég vil miklu heldur leika sigurvegarann. Ég vil mun frekar muna það jákvæða. Ég verð líka að taka fram að þegar ég hef orðið fyrir fordómum hefur það ekki verið hér á Íslandi heldur erlendis. Ég bjó fjögur ár í Boston þegar ég var í námi og þar fann maður fyrir fordómunum. Hér segir fólk, sérstaklega eldra fólk, stundum „velkomin til Íslands“ eða „voðalega talarðu góða íslensku“, en það er bara einlægt og fallegt, finnst mér.“

Hágrét yfir pappírunum
Brynja hóf fyrir skömmu ferli til þess að hafa uppi á blóðforeldrum sínum, til að finna síðasta bitann í púsluspilið um það hver hún er, eins og hún orðar það. „Mig hefur lengi langað að grafast fyrir um uppruna minn, en ég var aldrei tilbúin til þess. Núna er ég tilbúin og hef þroska til að gera ráð fyrir alls konar aðstæðum og niðurstöðum án þess að fara í vörn. Ég veit ekkert hvernig manneskja blóðmóðir mín er, veit ekki einu sinni hvort hún er á lífi, eða hvort hún kærir sig nokkuð um að heyra frá mér, en þetta er samt eitthvað sem ég verð að reyna.“ Skömmu fyrir áramótin síðustu fékk Brynja í hendur þá pappíra sem fylgdu henni til landsins á sínum tíma, þar sem meðal annars var að finna fæðingarvottorð hennar, nafn móður, fæðingarstað og það nafn sem Brynja bar áður en hún fékk íslenska nafnið. Hún hafði samband við innanríkisráðuneytið og fékk skjölin í hendur innan við viku síðar. Hún segist ekki hafa verið viðbúin því að þetta gengi svona hratt fyrir sig og það hafi verið óskaplega tilfinningaþrungin stund að opna skjalapakkann. „Ég horfði heillengi á pappírana á borðinu heima hjá mér áður en ég þorði að opna þá. Mér leið eins og ég væri að fá upplýsingar sem þýddu að ég hefði verið einhver allt önnur manneskja í sama lífi. Loks opnaði ég pappírana og strax á fyrstu blaðsíðu var fullt af upplýsingum sem ég hafði ekki hugmynd um. Ég fór bara að hágráta, þetta opnaði alveg nýjan heim.“

Merki um óendanlega ást
Brynja segist svo sem ekkert vita hvers vegna móðir hennar hafi ákveðið að gefa hana til ættleiðingar en hún sé henni óendanlega þakklát fyrir það. „Hún hefur örugglega upplifað sig króaða af úti í horni og ekkert annað í boði. Í pappírunum kemur fram að hún var ógift, nafn föður kemur ekki fram og ekki heldur hvort hún átti fleiri börn. Mér finnst það merki um óendanlega ást að hafa gefið mig til þess að tryggja að ég ætti betra líf en hún gæti boðið mér. Hún var sjálf á staðnum og afhenti hinni móður minni mig og verandi móðir sjálf get ég varla ímyndað mér hversu óskaplega sárt það hefur verið. Þegar maður hugsar um þá fórn lítur maður lífið öðrum augum. Það er gjöf í 365 daga á ári, gjöf sem maður verður að fara vel með og láta gott af sér leiða.“ Þótt Brynja hafi lengi velt uppruna sínum fyrir sér segir hún að sú ákvörðun að leita upprunans hafi fyrst fyrir alvöru byrjað að skjóta rótum þegar hún gekk með son sinn sem er í dag þriggja ára gamall. „Þegar ég fór í fyrstu mæðraskoðunina var spurt um sjúkdóma í fjölskyldunni og þá rann upp fyrir mér að svona hluti þyrfti ég að vita. Það er líka dálítið skrítið að sonur minn skuli vera eini einstaklingurinn í heiminum, sem ég veit um, sem er blóðtengdur mér. Það er mjög sérstök tilfinning. Ég er ekki að segja að blóðtengsl skipti öllu máli, en þau skipta máli.“

Verð að reyna
Næstu skref í upprunaleitinni eru að senda fyrirspurn til Sri Lanka með nafni blóðmóður Brynju og svo hefst biðin eftir svörum þaðan. Þegar þau berast, hvort sem tekst að hafa upp á móður hennar og systkinum eða ekki, ætlar Brynja að fara til Sri Lanka í fyrsta sinn og upplifa rætur sínar. „Ég hef aldrei farið, en það er eitthvað sem togar mig mjög sterkt þangað. Ég held að flestir vilji vita sínar rætur og uppruna að einhverju leyti. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér alveg síðan ég var lítill krakki. Ekki það að ég sé eitthvað ósátt, alls ekki, ég er voðalega ánægð að eiga þá fjölskyldu sem ég á hér og finnst ég hafa verið heppin að öllu leyti. En það vantar samt eitt stykki í púsluspilið og ég held að ég þurfi nauðsynlega að finna það. Kannski tekst það ekki en ég verð allavega að reyna.”

Fréttatíminn - Íslendingar í húð og hár


Svæði