Fréttir

Mbl - „Barn manns frá fyrstu mínútu“

Hjónin Ingibjörg Ólafsdóttir og Valdimar Hjaltason hafa ættleitt tvö börn frá Kína. Þau fengu son sinn í hendurnar í október árið 2010 og dóttur þeirra í nóvember árið 2012. Oft þurfa foreldrar hér á landi að bíða í nokkurn tíma, jafnvel nokkur ár, eftir að fá að ættleiða barn en ferlið hjá hjónunum gekk mun hraðar. Börnin þeirra voru á lista yfir börn með sérstakar, skilgreindar þarfir og því var biðin ekki jafn löng og hún hefði annars geta orðið. Ingibjörg segir að ferlið hafi gengið mjög vel. Þau hafi fengið góða þjónustu í gegnum Íslenska ættleiðingu og einnig hafi allt gengið vel í Kína.

Margir setja ef til vill spurningarmerki við orðin sérstakar, skilgreindar þarfir og gæti listinn ef til vill haft ákveðinn fælingarmátt. Líkt og Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, greindi frá í viðtali á mbl.is nýlega geta börnin á listanum haft minniháttar sérþarfir, líkt og mjög væga hjartagalla eða skarð í vör, en einnig getur verið um aðrar og flóknari þarfir að ræða.

Sérþarfir barnanna á listanum geta verið svo smávægilegar að ekki er litið á þær sem sérþarfir hér á landi.

 Ákváðum strax að segja já 

„Þessi börn sem hafa komið hingað til lands hafa yfirleitt verið með vægar sérþarfir og hér heima myndum við ekki tala um sérþarfir. Margar af þessum þörfum er eitthvað sem enginn talar um,“ segir Ingibjörg. Hjónin hittu Gest Pálsson, barnalækni hjá Íslenskri ættleiðingu, við undirbúning umsóknarinnar. „Gestur er mjög fær og hefur mikla sérþekkingu. Hann útskýrði fyrir okkur sérþarfir sem börnin gætu haft og við merktum við þær sérþarfir sem við treystum okkur í að barnið hefði,“ útskýrir Ingibjörg.

Eftir það er listanum skilað inn. Þegar öll samþykki liggja fyrir, fylgist Íslensk ættleiðing með listanum og finnur börn sem passa við lista foreldranna. Finni samtökin barn fer af stað ákveðið ferli þar sem barnalæknirinn lítur yfir sérþörf eða sérþarfir barnsins, haft er samband við hugsanlega foreldra hér á landi og þeir boðaðir í viðtal. Eftir það hafa umsækjendurnir rúman sólarhring til að taka ákvörðun.

 „Í okkur tilfellum var í rauninni ekkert sem hrjáði börnin og ákváðum við strax að segja já.

Samkvæmt læknunum og okkar sannfæringu var þetta aldrei spurning,“ segir Ingibjörg. Þegar samþykki hefur verið veitt líða yfirleitt nokkrir mánuðir þar til foreldrarnir fá barnið í hendurnar, en fara þarf í gengum nokkra pappírsvinnu áður en barnið er sótt.

Biðin eftir barninu mikilvæg

Aðspurð segir Ingibjörg að biðin eftir börnunum hafi í báðum tilvikum verið erfið. „Biðin er samt sem áður mikilvæg. Þú þarft að undirbúa það sem þarf að undirbúa, þetta er aðlögunartími fyrir mann sjálfan og fjölskyldu,“ segir hún. Foreldrar sem ganga í gegnum ættleiðingarferlið hafa oftar en ekki reynt að eignast börn í nokkur ár og farið í gegnum glasafrjóvganir sem ekki hafa borið árangur. Ingibjörg segir að því hafi nánasta fjölskylda hjónanna ef til vill átt dálítið erfitt með að trúa að nú væri komið að stóru stundinni, að nú kæmi loksins barn í fjölskylduna.

„Maður vill bara fara út sama dag, en það væri ekki gott. Allt þarf að hafa sinn gang og sinn tíma, jafnvel þó að börnin séu úti.

Þegar heim er komið vill maður geta haft ró og næði og ekki vera á þönum,“ segir Ingibjörg. Hún bendir á að foreldrar sem ættleiða börn sín þurfi aðlögunar- og undirbúningstíma líkt og foreldrar sem fara í gegnum meðgöngu. „Þetta er öðruvísi meðganga, en ég held að tilfinningarnar séu mjög líkar. Þetta er barn manns frá fyrstu mínútu.“

Á meðan beðið er eftir barninu fá foreldrarnir myndir af barninu og segir Ingibjörg að þau hjónin hafi alltaf verið með hugann við barnið sem þau voru á leiðinni að sækja. Hægt er að senda gjafir til barnanna í Kína, hluti, myndir eða annað slíkt. „Við sendum til dæmis stóran poka af Nóa Kroppi til að gefa starfsfólkinu á barnaheimilinu. Þá sendum við einnig einnota myndavélar til að hægt væri að taka myndir af börnunu,“ segir Ingibjörg. Þegar hjónin framkölluðu myndirnar af dóttur þeirra síðar meira gátu þau ekki annað en brosað. Starfsfólkið hafði misskilið bréfið sem fylgdi með súkkulaðinu og gáfu litlu stúlkunni allan pokann

Djúpa traustið tekur lengri tíma

Ingibjörg segir að skipulagið hjá ættleiðingarfélaginu í Kína sé mjög gott. Ætlast er til þess að foreldrarnir kynni sér land og þjóð þegar út er komið og eru þeir sóttir á flugvöllinn af fararstjóra og bílstjóra. Þá tekur við skipulögð dagskrá sem tekur um viku af ferðinni. Eftir það er flogið í héraðið þar sem barnið er. „Þegar þangað var komið fengum við börnin í hendurnar daginn eftir,“ segir Ingibjörg. Í framhaldinu skoðaði fjölskyldan, nú með barnið með í för, helstu staði í héraðinu. „Þegar maður er kominn með barnið vill maður samt helst komast sem fyrst heim.“

Ingibjörg segir að börnin hafi tengst þeim mjög fljótt. „Djúpa traustið tekur lengri tíma. Það eru ýmsir þættir sem maður þarf að hafa í huga, aðrir þættir sem tengjast þeirra lífsreynslu,“ segir hún. Börnin hafa verið yfirgefin og alist upp á barnaheimilum hluta af ævi sinni og dagurinn sem foreldrarnir fá barnið í fangið er börnunum líka erfiður því þau eru að yfirgefa það sem þau þekkja og vita ekki hvað bíður þeirra. Foreldrarnir eru framandi, öðruvísi í útliti, önnur lykt er af þeim og tala skrýtið tungumál sem þau ekki skilja.

Þetta eru börnin okkar 

Líf fjölskyldunnar á Íslandi hefur gengið ótrúlega vel að sögn Ingibjargar, vonum framar. „Maður hugsar ekki um það á hverjum degi að þau séu ættleidd. Þetta eru börnin okkar og ég gleymi því að þau séu ólík okkur í útliti eða hafi ekki verið hjá okkur frá fæðingu,“ segir Ingibjörg. „Þau taka upp atferli manns og líkjast manni í hátterni. Margir sjá líkindi með þeim og okkur, jafnvel þó að við höfum ekki sömu gen.“

Ingibjörg hvetur aðra foreldra til að skoða þennan möguleika varðandi ættleiðingu barna. „Fræðslan og handleiðslan í gegnum þetta ferli er mjög góð. Það er alltaf hægt að segja nei þegar upplýsingar um barn koma ef einhverra hluta vegna maður treystir sér ekki til að ættleiða viðkomandi barn og hefur það ekki áhrif á ættleiðingarferlið, haldið verður áfram að leita á næsta lista,“ segir Ingibjörg. 


Svæði