Fréttir

Mbl - Kostnaður hækkar um helming

Kostnaður við ættleiðingar tvöfaldast samkvæmt bréfi sem Íslensk ættleiðing (ÍÆ) sendi á dögunum til fólks sem bíður eftir ættleiðingu.

Frá síðasta hausti hefur verið gert ráð fyrir að heildarkostnaður við ættleiðingu sé um 1,5 milljónir króna en í umræddu bréfi segir að í lok febrúar sé heildarkostnaður á bilinu 2,5–2,8 milljónir króna. Engar upplýsingar eru um þessar hækkanir á heimasíðu félagsins og ekki er í bréfinu sundurliðun á því af hverju þessi hækkun stafar, að öðru leyti en að gengislækkun íslensku krónunnar hafi mest að segja. Þá segir að þar sem ættleiðingum hafi fækkað vegna lengingar biðtíma þá dreifist fastur kostnaður við rekstur skrifstofu félagsins á færri ættleiðingar. Þó er tekið fram að styrkur hins opinbera standi að mestu undir rekstrinum, þ.e. launum og húsaleigu.

Þá er tilkynnt um hækkanir og breytingar á ýmsum gjöldum sem greiða þarf í ferlinu. M.a. er tekið upp 60 þúsund króna árlegt umsóknargjald í stað sk. milligreiðslu sem áður var innt af hendi einu sinni. Greiða skuli umsóknargjaldið fyrir 1. apríl ár hvert, en að öðrum kosti sé litið svo á að fallið hafi verið frá umsókn. Bréfið barst umsækjendum nú í vikunni.

Ingibjörg Birgisdóttir, varaformaður ÍÆ, segir bréfið klaufalega orðað og undirstrikar að fólk muni ekki detta út af biðlistum greiði það ekki 60 þúsund króna gjaldið fyrir 1. apríl. Í raun hafi verið um að ræða kynningu á hækkunum sem ekki hafi enn komið til framkvæmda. Þær séu þó óhjákvæmilegar vegna gengisbreytinga en mestur hluti kostnaðar við ættleiðingar sé í erlendri mynt. Þá hafi gjaldtaka erlendis einnig hækkað, t.a.m. í Kína þar sem 50% hækkun hafi orðið á ættleiðingargjaldi þarlendra stjórnvalda, sem gengishækkun bætist svo við. Hún segir að nákvæmar útskýringar verði gefnar á hækkununum á aðalfundi félagsins, sem verður haldinn nk. fimmtudag.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.


Svæði