Fréttir

Mbl - Vilja láta kanna hvaða lönd heimili að samkynhneigðir ættleiði þaðan börn

mbl.is/Ásdís
mbl.is/Ásdís

Stjórn Samtakanna 78 ætlar að fara þess á leit við dómsmálaráðuneytið að það kanni hvort einhver lönd séu tilbúin að leyfa samkynhneigðum pörum að ættleiða börn þaðan.

Enn er ekkert land sem Ísland hefur samið við um ættleiðingar barna, sem tekur við umsóknum frá samkynhneigðum pörum, samkvæmt upplýsingu frá félaginu Íslensk ættleiðing (ÍÆ). Stjórn félagsins er reyndar ekki kunnugt um nein lönd sem heimila erlendu samkynhneigðu pari að ættleiða barn þaðan.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að verði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bent á land, sem hafi áhuga á samningum um þetta efni við Ísland, yrði gerð slíks samnings að sjálfsögðu könnuð.

Samkvæmt lögum um réttindi samkynhneigðra, sem samþykkt voru á Alþingi sl. vor, eru frumættleiðingar íslenskra og erlendra barna heimilaðar jafnt gagnkynhneigðum og samkynhneigðum pörum.

Fjölmargar fyrirspurnir frá samkynhneigðum hafa borist Íslenskri ættleiðingu í kjölfar laganna en ekkert par hefur enn farið í gegnum umsóknarferlið. "Eins og staðan er í dag gætum við ekki sent þá umsókn til neins lands," segir Ingibjörg Jónsdóttir, formaður stjórnar Íslenskrar ættleiðingar.

ÍÆ er eina félagið hér á landi sem hefur löggildingu til að vera milligönguaðili um ættleiðingar frá öðrum löndum. Í mörgum löndum starfa fleiri en eitt ættleiðingarfélag. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Samtakanna 78, segir hugsanlegt að annað ættleiðingarfélag þurfi hér á landi. Samtökin vonist þó eftir farsælu samstarfi við ÍÆ.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Mbl - Vilja láta kanna hvaða lönd heimili að samkynhneigðir ættleiði þaðan börn


Svæði