Fréttir

Morgunblaðið - Kom frá Indónesíu fyrir 30 árum

Faðir hennar sótti hana til Indónesíu þegar hún var aðeins þriggja vikna gömul. Það var árið 1982 og hefur ættleiðingarferlið tekið stakkaskiptum á þessum þrjátíu árum. „Það er ljótt að segja það en það má eiginlega segja að það hafi verið sett frímerki á börnin og þau send í burtu. Það var engin áhersla lögð á tengslamyndun við upprunalandið,“ segir Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, héraðsdómslögmaður, þegar hún rifjar upp sögu sína. Vigdís er í dag í stjórn Íslenskrar ættleiðingar og þessi málaflokkur er henni einkar hugleikinn. Hún á tvær dætur, tveggja og átta ára, og segist ekki útiloka þann möguleika að ættleiða barn líka. „Mér finnst allt svo vel heppnað hvað varðar mig og mína fjölskyldu þó að við höfum ekki haft tækifæri til eftirfylgnisþjónustu í þá daga,“ segir Vigdís. Hún tók sér nýlega ársleyfi frá vinnu sem lögmaður og leggur nú stund á nám í alþjóðlegu sakamálaréttarfari í Bretlandi. Eina dökka barnið í bekknum Foreldrar Vigdísar voru ekki mikið að ræða það við hana að hún væri ættleidd en það var heldur enginn feluleikur á heimilinu. „Foreldrar mínir voru alltaf með myndaalbúm frá ferðinni tiltækt. Þó að það hafi aldrei verið beint talað um þetta þá vissi ég auðvitað alltaf að ég væri ættleidd. Að alast upp sem dökkt barn á Íslandi á þessum tíma var sérstakt, ég var alltaf eini krakkinn í bekknum með dökka húð. Það er meira að segja ennþá þannig í dag. Það eru ekki margir sem eru með dökka húð sem starfa í lögmennsku á Íslandi,“ segir Vigdís. Hún rifjar upp eitt eftirminnilegt atvik sem gerðist í bakaríi þegar hún var sjö ára. „Konan sem afgreiddi okkur sagði við mömmu að henni fyndist við alveg svakalega líkar. Mér fannst þetta rosalega skrítið af því að ég er ekkert lík mömmu minni af augljósum ástæðum. En hún meinti meira fasið og persónuleikann og það skildi ég seinna,“ segir Vigdís Viðmótið hefur breyst með árunum Neikvæð orð í garð Vigdísar féllu stundum út af litarhættinum og sárnaði henni það auðvitað mikið. „Það getur verið erfitt fyrir marga að upplifa svona útilokun, sérstaklega ef stuðningurinn heima fyrir er ekki nægilega mikill. En auðvitað hefur þetta breyst með árunum og í íslenskum bekkjum í dag eru mörg börn frá ólíkum löndum. Öll ættleidd börn verða á einhverjum tímapunkti meðvituð um að þau skera sig úr samfélaginu og þá þarf barnið stuðning sem hvetur til sterkari sjálfsmyndar.“ Eins og hjá flestum börnum sem hafa verið ættleidd kom að þeim tímapunkti hjá Vigdísi að hún vildi ræða uppruna sinn. Þá var hún orðin 16 ára og byrjuð í menntaskóla. „Ég nefndi þetta við pabba og það var ekkert mál. Hann sagði líka við mig að hann hefði alveg eins átt von á þessu en ég fullvissaði foreldra mína um að það var engin afneitun í gangi af minni hálfu gagnvart þeim. Tenging við Indónesíu segir Vigdís að sé óneitanlega til staðar. „Ég hef alltaf haft mikið dálæti á asískum mat, alveg frá því að ég var pínulítil. Ég vildi aldrei kartöflur, ég vildi alltaf hrísgrjón. Kannski er þetta í blóðinu, ég veit það ekki,“ segir Vigdís og hlær.

Morgunblaðið - Kom frá Indónesíu fyrir 30 árum


Svæði