Fréttir

Morgunblaðið - Umsóknir yrðu strand á Íslandi

Fréttaskýring | Ættleiðingar samkynhneigðra
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur
sunna@mbl.is

Samtökin 78 vilja að ráðuneytið kanni hvaða lönd heimili ættleiðingarnar
Enn er ekkert land sem Ísland hefur samið við um ættleiðingar barna, sem tekur við umsóknum frá samkynhneigðum pörum, samkvæmt upplýsingu frá félaginu Íslensk ættleiðing (ÍÆ). Stjórn félagsins er reyndar ekki kunnugt um nein lönd sem heimila erlendu samkynhneigðu pari að ættleiða barn. Stjórn Samtakanna 78 mun á næstunni senda fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins
um stöðu málsins og fara þess á leit að það kanni hvort einhver lönd séu tilbúin að leyfa samkynhneigðum pörum að ættleiða
börn þaðan. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að verði dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bent á land, sem hafi áhuga á
samningum um þetta efni við Ísland, yrði gerð slíks samnings að sjálfsögðu könnuð.
  Samkvæmt lögum um réttindi samkynhneigðra, sem samþykkt voru á Alþingi sl. vor, eru frumættleiðingar íslenskra og erlendra
barna heimilaðar jafnt gagnkynhneigðum og samkynhneigðum pörum í hjúskap, staðfestri samvist og óvígðri sambúð.
Fjölmargar fyrirspurnir frá samkynhneigðum hafa borist Íslenskri ættleiðingu í kjölfar laganna en ekkert par hefur enn farið í gegnum umsóknarferlið, sem getur tekið nokkra mánuði. „Eins og staðan er í dag gætum við ekki sent þá umsókn til neins lands,“
segir Ingibjörg Jónsdóttir, formaður stjórnar Íslenskrar ættleiðingar. Í dag hefur ÍÆ milligöngu um ættleiðingar barna frá Indlandi,
Kína, Kólumbíu, Tékklandi og Taílandi.
  „Í ættleiðingarmálum er annars vegar unnið með löggjöf Íslands og hins vegar löggjöf þess lands sem barnið kemur frá,“ segir Ingibjörg. Hún segir ÍÆ ekki geta beitt lönd neinum þrýstingi hvað þetta varði. „Það er ekki okkar að breyta löggjöf annarra landa. Þar stendur auðvitað hnífurinn í kúnni. Það er því lítið sem við getum gert. Við förum í einu og öllu eftir reglum þess lands sem við erum að vinna með.“
  Ingibjörg segir það óskemmtilega stöðu að þurfa að upplýsa samkynhneigða um hvernig málum sé háttað og að engin von sé,
eins og staðan er nú, að þeir geti ættleitt börn frá útlöndum. Það er í höndum dómsmálaráðuneytis að semja við lönd og fá leyfi til ættleiðinga þaðan.

Nýtt ættleiðingafélag
ÍÆ er eina félagið hér á landi sem hefur löggildingu til að vera milligönguaðili um ættleiðingar frá öðrum löndum. Í mörgum löndum
starfa fleiri en eitt ættleiðingarfélag. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Samtakanna 78, segir hugsanlegt að annað ættleiðingarfélag þurfi hér á landi. Samtökin vonast þó eftir farsælu samstarfi við ÍÆ.
  „Í grein á vefsíðu Íslenskrar ættleiðingar koma fram sjónarmið sem við vitum ekki hvort eru opinber afstaða félagsins, en hún
stangast á við lög og stefnu stjórnvalda,“ segir Hrafnhildur. „Íslensk ættleiðing eins og önnur félög, sem eru háð starfsleyfi frá dómsmálaráðuneyti, hljóta að verða að fylgja íslenskum lögum sem klárlega banna mismunun gegn samkynhneigðum. Á næstu vikum komum við til með að leita til ÍÆ og biðja félagið að skýra afstöðu sína og ef sú afstaða er sú sama og kemur fram á vefsíðunni munum við leita til dómsmálaráðuneytisins og jafnvel hvetja til þess að nýtt félag verði stofnað.“
  Hrafnhildur segist hafa heyrt frá Svíþjóð að nokkur lönd séu tilbúin að verða við óskum samkynhneigðra um ættleiðingar, þeirra á meðal séu Kólumbía og Suður-Afríka. „En fyrst og fremst er það dómsmálaráðuneytisins að leita að löndum sem gætu hugsanlega orðið við þessum óskum.“
  En var ótímabært að setja inn í íslensk lög heimild samkynhneigðra til ættleiðinga til jafns við gagnkynhneigða, fyrst staðan er þessi?
  „Nei, alls ekki,“ segir Anni Haugen, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu sem var ráðgjafi Samtakanna 78 í nefnd um frumvarp til laga um réttindi samkynhneigðra. „Vegna þess að rétturinn sjálfur skiptir afskaplega miklu máli. Svo er það bara spurning að
leita leiða til að framkvæma þetta.“

Svíar fyrstir til
Svíar voru fyrstir Norðurlandanna til að heimila samkynhneigðum að sækja um ættleiðingar erlendra barna. Lög þar að lútandi eru frá febrúar 2002 en sænsk ættleiðingarfélög hafa enn ekki geta aðstoðað samkynhneigða umsækjendur. Ekkert þeirra 26 landa sem Svíar ættleiða fyrst og fremst frá hefur tekið við umsókn frá fyrsta sænska samkynhneigða parinu sem sótt hefur um að ættleiða erlent barn, að sögn Ingibjargar. Hún segir ekki hafa orðið vart neinnar óánægju hjá samstarfslöndum um lagaheimild samkynhneigðra para hér á landi til ættleiðingar barna frá útlöndum.

Reglur annarra ríkja hafi ekki úrslitaáhrif á lögin
Á Íslandi eru flest börn ættleidd frá Asíulöndum sem ekki heimila ættleiðingar samkynhneigðra. Í áliti nefndar sem gerði tillögur að frumvarpi um réttindi samkynhneigðra, kemur fram að þrír nefndarmenn hafi talið að reglur annarra ríkja um ættleiðingar ættu ekki að hafa úrslitaáhrif á mótun íslenskrar löggjafar og vísuðu til þess að erlend ríki hefðu ekki útilokað samstarf við Svía þótt þeir hefðu breytt lögum í þessa veru.

Morgunblaðið - Umsóknir yrðu strand á Íslandi


Svæði