RÚV - 15 milljónir í ættleiðingar
Íslensk ættleiðing og innanríkisráðuneytið eru ekki á sama máli um hve háa fjárupphæð þurfi til að leysa fjárhagsvanda félagsins en samið hefur verið um að ráðuneytið leggi fimmtán milljónir króna til rekstrar félagsins á þessu ári.
15 milljóna króna fjárveiting ætti að duga til að leysa þann vanda sem Íslensk ættleiðing á við að glíma, að sögn Jóhannesar Tómassonar, upplýsingafulltrúa innanríkisráðuneytisins. Sú upphæð myndi gera félaginu mögulegt að ljúka þeim verkefnum liggja fyrir á þessu ári.
Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar, segir þessa fjárhæð ekki duga til. Félagið þurfi áætlun til lengri tíma til að félagið geti starfað áfram. „Það sem félagið þarf og hefur verið sameiginlegur skilningur í ráðuneytinu og hjá stjórn félagsins er að það vantar um 45-50 milljónir upp á framlög til félagsins til að félagið geti staðið undir þeim verkefnum sem lögð eru á það í lögum og reglugerðum," segir hann.
Hörður segir þann sameiginlega skilning sem innanríkisráðuneytið nefnir vera einhliða. Ef einhver heldur að það sé sameiginlegur hjá félaginu og ráðuneytinu þá er það einhliða ákvörðun að hafa þennan sameiginlega skilning. Við höfum ítrekað reynt að fá fund með innanríkisráðherra sem ekki hefur haft tíma til að tala við okkur. Hann hefur ekki haft tíma til að ræða við okkur síðan við fórum að tala um peninga," segir Hörður.