Fréttir

RÚV - Því dekkri sem húðliturinn er því meiri eru fordómarnir

Oddur Þórðarson skrifar á rúv.is laugardaginn 15.október úr hádegisfréttum.

Allir sem eru ættleiddir hingað til lands verða fyrir fordómum. Þetta segir Elísabet Salvarsdóttir framkvæmdastjóri félagsins Íslensk ættleiðing. Hún segir félagið hafa kallað eftir fræðslu í mörg ár en enginn hafi hlustað. Umræðu um fordóma gegn ættleiddum börnum hafi lengi vantað hér á landi.
 

„Það eru langflestir sem eru ættleiddir sem verða einhvern tímann á sínu æviskeiði fyrir fordómum.“

En er einhver munur á þeim fordómum sem fólk verður fyrir?

„Allavega það sem við verðum svona varari við þá er meira eftir því sem þú ert með dekkri húðlit,“ segir Elísabet.

En fordómar gegn ættleiddum börnum birtast jafnvel í annarri mynd en fordómar gegn börnum af erlendum uppruna sem ekki eru ættleidd. 

„Svo er oft gripið til þess líka, þegar það er vitneskja um að viðkomandi sé ættleiddur, að þá er reynt að nýta það á einhvern hátt til að særa. Mamma þín og pabbi eru ekki mamma þín og pabbi. Það eru aðrar leiðir sem eru notaðar, sem eru þá ekki beint fordómar en þær eru nýttar til þess að reyna að særa börnin.“

Í mörg ár hefur Íslensk ættleiðing talað fyrir málefnum ættleiddra barna fyrir daufum eyrum. En í ljósi umfjöllunar Kastljóss á fimmtudag um fordóma gegn börnum af erlendum uppruna, þá hefur félagið verið boðað á fund skólayfirvalda í Reykjavík. 

„Við gripum strax í þetta með það að heyra í honum Helga Grímssyni, sviðsstjóra hjá skóla- og frístundasviði. Og höfum fengið vilyrði fyrir því að hann boði til fundar.“

Heyra viðtal hér

 


Svæði