Fréttir

VÍSIR - Ættleidd ungmenni í leit að uppruna sínum

„Það er alltaf að aukast að ungt fólk komi til okkar í upprunaleit,“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, sem stendur fyrir fræðslufundum um helgina um leit ættleiddra ungmenna að uppruna sínum. 

Sérstakir gestir á fundunum eru þau Lisa Kanebäck og Sebastian Johansson, sem voru sem börn ættleidd til Svíþjóðar frá Kolkata á Indlandi, en sneru til baka á síðasta ári þar sem þau unnu meðal annars á barnaheimilinu þar sem Lisa dvaldi fyrstu mánuði ævi sinnar. 

Í samtali við Fréttablaðið segir hvort þeirra sína söguna um hvenær þráin til að vita meira um uppruna sinn gerði vart við sig. „Ég var sennilega bara fimm ára þegar ég áttaði mig á því að ég var frábrugðinn vinum mínum,“ segir Sebastian, sem er 29 ára gamall. 

„Áhuginn á að vita meira um uppruna minn magnaðist svo sífellt þegar ég varð fullorðinn, og mér fannst eins og það væri ákveðið tómarúm innra með mér.“ Lisa, sem er 23 ára, segist hins vegar ekkert hafa velt þessum málum fyrir sér, framan af. 

„Sem barn hugsaði ég aldrei um að ég væri frábrugðin öðrum. Ég bjó í litlu þorpi þar sem allir þekkja alla og komið var fram við alla á sama hátt. Áhuginn á að leita róta minna kom ekki fyrr en í framhaldsskóla. Þá fór ég meðal annars að velta því fyrir mér hvernig ég gæti gefið af mér þannig að ég kom mér í samband við ættleiðingastofnun og upp úr því ákvað ég að fara út til Indlands.“ 

Indlandsdvöl Sebastians og Lisu var gefandi að þeirra sögn, en kom um leið á óvart. „Ég hélt að ég myndi komast í tengsl við indverskar rætur,“ segir Sebastian, „en þess í stað áttaði mig betur á því að ég er sænskur í gegn.“ 

Lisa tekur í sama streng. „Ég hélt að ég myndi upplifa mig indverska, þar sem ég var umkringd fólki sem líkist mér, en þess í stað áttaði ég mig enn betur á því að ég er algjörlega sænsk,“ segir hún og hlær. 

Bæði hafa þau fullan hug á að fara aftur til Indlands á næstunni til að vinna með börnum. Fundirnir verða tveir og eru haldnir verða í gamla Sjómannaskólanum, annars vegar klukkan 14 í dag, þar sem ættleidd ungmenni hittast, og hins vegar á sama tíma á morgun en sá fundur er öllum opinn. thorgils@frettabladid.is

http://visir.is/aettleidd-ungmenni-i-leit-ad-uppruna-sinum/article/2013705259927


Svæði